Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:26:11 (3452)

1999-02-10 15:26:11# 123. lþ. 63.6 fundur 448. mál: #A framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir þessi svör. Ég get ekki sagt annað en að ég er býsna ánægð með að heyra að bæði hefur konum fjölgað verulega í nefndum --- ég hefði náttúrlega þurft að fá fjölda karlmannanna þarna á móti til þess að átta mig á hlutfallinu. Þarna er greinilega um mikla fjölgun að ræða og jafnframt það að konur hafa verið ráðnar til starfa í ráðuneytinu sem er líka mjög gott mál. Síðan sé ég að nefndin sem búið er að skipa er í afar góðum höndum. Þarna eru konur sem þekkja ágætlega til þessara mála.

Ég get því ekki annað en lýst ánægju minni með það að greinilega hefur verið tekið nokkuð á málum í umhvrn. og veitti líklega ekki af. Umhverfismál eru að verða æ mikilvægari málaflokkur í samfélagi okkar eins og flestum samfélögum. Það má minna á að það eru konur sem stjórna innkaupum heimila og þar með neyslunni mun meira en karlmenn. Þær geta því haft mjög mikil áhrif á umhverfismál í samfélaginu almennt, bæði hvað varðar umhverfisvænar vörur og fleira slíkt, og því er mjög mikilvægt að beina til þeirra upplýsingum. Ég treysti því að því fleiri konur sem koma að störfum ráðuneytisins því meiri líkur eru á því að sjónum sé beint að konum úti í samfélaginu.

En það er rétt sem fram kom hjá ráðherranum að sem betur fer er hugarfarið að breytast og sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna hefur haft sín áhrif og dropinn holar steininn. Ég ítreka og segi enn að mér þykja þetta vera góð svör sem komu frá umhvrn.