Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:35:04 (3455)

1999-02-10 15:35:04# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á stöðu Nemendaleikhússins hér í Alþingi. Mér er ljúft að svara fyrirspurnum hans um þetta mál. Það er svo að til hefur staðið allt frá því fjmrn. keypti Lindargötu 9 á miðju árinu 1996 að framtíð Nemendaleikhússins á þeim stað yrði ekki til frambúðar og það yrði að gera ráðstafanir til að leysa úr húsnæðismálum þess með öðrum hætti. Síðan var tekin ákvörðun um að innrétta aðstöðu fyrir Nemendaleikhúsið í kjallara Sölvhólsgötu 13 þar sem leiklistarskólinn er til húsa og standa áformin um það óhögguð og framkvæmdum verður haldið áfram við innréttingu á húsnæðinu þar fyrir Nemendaleikhúsið.

Hins vegar er ljóst að vegna ýmissa aðstæðna er ekki unnt að halda þannig á málum að þessi aðstaða verði fyrir hendi núna í vor þegar Nemendaleikhúsið efnir til sýningar sinnar. Þegar þetta mál kom upp í síðustu viku var ég á leið til útlanda og kom á mánudagskvöldið og kallaði fulltrúa nemenda til viðræðna við mig um málið á fundi í ráðuneytinu í gær. Þar voru sjónarmið þeirra skýrð og farið yfir málið. Síðan ræddi ég við hagstofustjóra sem hefur umsjón með húsnæðinu að Lindargötu með þeim hætti að Hagstofan á að fá þetta húsnæði til ráðstöfunar fyrir sig. Í morgun var gengið frá samkomulagi um bráðabirgðalausn á húsnæðisvanda Leiklistarskóla ríkisins þannig að hann verður áfram að Lindargötu 9 fram til 15. maí nk. Þetta samkomulag er undirritað af hagstofustjóra, fulltrúa rekstrarfélags stjórnarráðsbygginga, skólastjóra leiklistarskólans, fulltrúum leiklistarnema og einnig af mér. Samkvæmt því er málum nú þannig háttað að leiklistarskólinn heldur aðstöðu sinni í þessu húsnæði fram til 15. maí nk. og ég tel að hann geti þá lokið starfsvetrinum og sett upp það leikrit sem ætlunin er að Nemendaleikhúsið sýni á vordögum og ljúki þannig skólaárinu með viðunandi hætti að Lindargötu 9. Síðan verði áfram unnið að því að skapa Nemendaleikhúsinu aðstöðu að Sölvhólsgötu 13 og er það einnig í góðri sátt allra aðila. Ég sé því ekki betur en að þetta mál sé leyst á farsælan hátt.