Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:38:26 (3456)

1999-02-10 15:38:26# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:38]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að einhvers konar lausn virðist fundin á þessu máli en ég get ekki annað en lýst furðu minni á þessum vinnubrögðum. Að það skuli koma upp á miðjum vetri að nemendur Leiklistarskóla Íslands séu að missa það húsnæði sem þeir hafa haft um alllangt skeið, gott ef ekki áratugi undir sitt leikhús. Þetta er auðvitað röskun á skólastarfi og hlýtur að hafa valdið nemendum og aðstandendum skólans miklu hugarangri eins og við höfum orðið vör við. Auðvitað getur maður ekki séð annað en að hægt hefði verið að fresta því að koma upp skjalasafni Hagstofunnar um nokkurra mánaða skeið þannig að skólinn fengi einfaldlega að ljúka sínu starfsári á eðlilegan hátt.

Ég hlýt að spyrja um það fyrirkomulag sem fram undan er. Er sú aðstaða sem hægt er að koma upp í kjallara Landssmiðjunnar sambærileg við þá aðstöðu sem er í Lindarbæ? Hvað kostar að koma upp þokkalegu leikhúsi þar og síðast en ekki síst, dugar það leikhúsinu að hafa ekki aðstöðu nema til 15. maí? Ég veit ekki betur en sumar sýningar Nemendaleikhússins hafi náð miklum vinsældum, enda hafa þær oft verið með merkustu og skemmtilegustu leiksýningum ársins og sem betur fer oft fengið mjög góða aðsókn. Ég man ekki betur en þær sýningar hafi stundum staðið fram í júní. Ég spyr því hvort þetta dugi eða ætla menn einfaldlega að láta það duga til að geta komið upp síðustu sýningu vetrarins?

Mér finnst þetta vera vond vinnubrögð sem þarna hafa verið viðhöfð en fagna því jafnframt að tekist hefur að finna einhverja lausn á þessu þannig að skólaárinu ljúki sæmilega.