Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:42:23 (3458)

1999-02-10 15:42:23# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), MagnM
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Magnús Árni Magnússon:

Herra forseti. Það kom óþægilega við mig að heyra að nú væri verið að tæta í sundur hið sögufræga leikhús Lindarbæ til að nota það fyrir skjalageymslur Hagstofunnar. Það eru einnig forkastanleg vinnubrögð að það skuli hafið án þess að nein önnur viðunandi lausn sé í sjónmáli fyrir útskriftarárgang Leiklistarskóla Íslands, Nemendaleikhúsið.

Nám það sem nemendur eiga að baki og eru að ljúka nú er gríðarlega krefjandi og erfitt og þeir eiga annað og betra skilið en að vera á hrakhólum með húsnæði síðustu mánuði námsins. Þessar sýningar Nemendaleikhússins skipta sköpum um hvort nýir leikarar ná fótfestu í harðri samkeppni íslensks leikhússlífs. Með því að valda þeim þessum vandræðum er verið að vanvirða starf þeirra sem listamanna og trufla það þegar þeir þurfa á allri sinni einbeitingu að halda í aðra hluti en að berjast við múrbrjót og borvélar Hagstofunnar. Hefðin fyrir því að sýningar Nemendaleikhússins fari fram í Lindarbæ er löng og hefur það unnið sér nafn sem leikhús með afbragðs skemmtilegar leiksýningar.

Lindarbæ eru tengdar óteljandi dýrmætar minningar íslenskra leikara, leikhúsfólks og leiklistarunnenda. Það hefði verið skemmtilegra, fyrst sú ákvörðun hefur verið tekin að leggja húsið undir skjalageymslur, að láta það ljúka leikhúsævi sinni með sóma og stolti í vor í stað þess að brjóta það niður fyrir augunum á þeim sem unna því mest og enda ævi sína með viðunandi hætti, svo að notuð séu orð hæstv. ráðherra.

Kominn er tími til að húsnæðisvandi Leiklistarskóla Íslands verði leystur í eitt skipti fyrir öll með myndarbrag. Það hefur dregist úr hófi fram. Húsnæðið í Landssmiðjuhúsinu hefur aldrei verið fullnægjandi og í sjálfu sér merkilegt að aðstandendum skólans skuli hafa tekist að halda úti starfi í því húsnæði í öll þessi ár.