Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:44:19 (3459)

1999-02-10 15:44:19# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa utandagskrárumræðu sem líklega hefur þegar haft tilætluð áhrif, eins og hér hefur komið fram. Umræðan sjálf og það frumkvæði sem nemar leiklistarskólans áttu til þess að vekja athygli á málinu tel ég að hafi þegar leyst málið til bráðabirgða a.m.k.

Margt má segja um ástandið í menntakerfinu almennt en að taka húsnæði af nemum á miðju skólaári, nauðsynlegt þjálfunarhúsnæði fyrir leiklistarnema, er fáheyrt og vonandi einsdæmi í íslensku skólakerfi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í morgun liggur fyrir bráðabirgðarlausn á málinu og það kom einnig fram í svari hæstv. ráðherra, þ.e. að nemar eiga nú að geta verið áfram í því húsnæði sem þeir eru í að Lindargötu 9 þó Hagstofan sé þegar farin að flytja inn sín skjöl. Þá er ætlunin að nota annað húsnæði á þessu svæði í haust.

Þó að leiklistarskólinn fari væntanlega inn í nýja listaháskólann þegar þar að kemur má ætla að þetta húsnæði sem á að taka til notkunar í haust muni nýtast Þjóðleikhúsinu síðar. Ég vil því, herra forseti, fagna því að lausn er fundin á þessu dæmalausa máli en vil að lokum nota tækifærið og spyrja hvenær líklegt er að mati hæstv. menntmrh. að leiklistarskólinn flytji inn í listaháskólann. Hvenær mun flaggskip listanna hér á landi, verðandi listaháskóli, sjá dagsins ljós að mati hæstv. ráðherra?