Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:46:26 (3460)

1999-02-10 15:46:26# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég held að meginatriðið í þessu máli sé að velta því fyrir sér af hverju það kom upp, af hverju mönnum datt í hug að hægt væri að setja heilan skóla út á götu. Ástæðan er einföld. Menn bera ekki nægilega mikla virðingu fyrir þessu námi. Ég held að það sé alvarlegt vandamál vegna þess að nemar í leiklist eru jafngildir nemendum annars staðar í skólakerfinu. Undarlegt er að menn skyldu láta sér detta í hug að ganga svona á rétt þeirra, þó búið sé að leysa þetta til bráðabirgða. Menn eru síðan að þakka fyrir það. Það er ekkert að þakka, það voru mótmæli nemendanna sem urðu til að lausn fannst í bili en ekki utandagskrárumræðan þó að hún sé þörf og góð. Mótmæli nemendanna urðu til þess að Hagstofan rýmir að hluta það húsnæði sem henni var úthlutað. Ég bendi hins vegar á að ekki verður öllu skilað aftur, t.d. búningsaðstöðu og kaffiaðstöðu, og tíminn til 15. maí mun ekki nægja, en látum það vera.

Þetta mál ætti að sýna okkur að við þurfum að efla umræðu um listmenntun hér á landi, auka veg lista í samfélaginu og virðingu fyrir ungu fólki í listnámi. Því er ábótavant eins og best sést á þessu máli.