Húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 15:48:06 (3461)

1999-02-10 15:48:06# 123. lþ. 63.92 fundur 239#B húsnæðismál Leiklistarskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og auðvitað einnig fyrir að hafa gengið í málin. Ég vona að lausnin sem hæstv. ráðherra kynnti hér, sem felst í ákveðnum samningi um takmörkuð afnot Nemendaleikhússins áfram að Lindarbæ til 15. maí, gangi upp. Þó er ljóst að sú aðstaða sem þarna var áður til leiklistarstarfsemi hefur verið skert og má deila um hve heppileg hún var.

Ég held að sú niðurstaða að láta skjölin bíða í kössunum, þótt manntalsskrár og önnur gögn Hagstofunnar séu hinir merkustu pappírar, sé góð. Ég að þau hljóti að mega við því að bíða í kössunum í nokkra mánuði og að listin fái aðstöðuna í bili.

Eins og hér hefur komið fram þá ættu mál af þessu tagi ekki að þurfa að koma upp. Það er auðvitað ámælisvert að röskun skuli verða á högum nemenda og á skólastarfi á miðju starfsári eins og þetta mál hefur auðvitað leitt til. Listin ætti auðvitað ekki að þurfa að vera á þeim hrakhólum sem raun ber vitni.

Að lokum tek ég undir það, herra forseti, sem aðrir ræðumenn hafa nefnt að í þessu samhengi væri fróðlegt að heyra frá hæstv. menntmrh. Hvaða áform eru eða eru ekki um listaháskóla og til hve langs tíma er ætlunin að búa um starfsemi Nemendaleikhússins í kjallara Landssmiðjuhússins?