Þjónusta Neyðarlínunnar hf.

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:06:53 (3464)

1999-02-10 18:06:53# 123. lþ. 63.10 fundur 295. mál: #A þjónusta Neyðarlínunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:06]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Rétt er að taka það fram í byrjun vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda að Neyðarlínan var stofnuð samkvæmt sérstökum lögum sem samþykkt voru á Alþingi. Frumvarp um það mál var flutt af þáv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. sem var á einu máli um --- og reyndar þingið allt því að frv. var samþykkt á Alþingi samhljóða án ágreinings. Alþingi var með öðrum orðum sammála um að fara þá leið sem frv. gerði ráð fyrir og Framkvæmdasýsla ríkisins bauð þetta verk síðan út og gekk frá samningum við bjóðendur í samræmi við þá skilmála sem settir voru þar um.

Fyrirspyrjandi spurði um framlög ríkissjóðs á undanförnum árum og þau eru samkvæmt framreikningi, miðað við launavísitölu í júlí 1995: árið 1996 26,8 milljónir, árið 1997 55,6 milljónir og að auki á því ári framlög sem voru vegna skuldbindinga frá árinu 1995 upp á 5 milljónir og vegna skuldbindinga frá árinu 1996 upp á 4,5 milljónir og árinu 1998 64,7 millj. kr.

Síðan er rétt að taka það fram að á síðasta ári óskaði stjórn Neyðarlínunnar hf. eftir því við dómsmrh. að verksamningur yrði framlengdur um fjögur ár, þ.e. til ársins 2007. Tilefni beiðninnar var að fá stofnlán Neyðarlínunnar hf. framlengd um fjögur ár en ástæður þess voru m.a. að stofnkostnaður varð meiri en gert var ráð fyrir í upphafi og afborganir lána og fjármagnskostnaður því meiri. Þegar samið var við Neyðarlínuna hf. um neyðarsímsvörun fyrir allt landið byggði samningurinn á áætlun um stofn- og rekstrarkostnað. Ástæður þess að stofnkostnaður varð hærri eru aðallega þær að lítill tími var til stefnu að byrja svörun þannig að grípa varð til kostnaðarsamra bráðabirgðaráðstafana. Sérhæfður tækjabúnaður reyndist dýrari en gert var ráð fyrir og mun meiri vinna fór í að afla gagna um viðbragðsaðila en áætlað hafði verið. Að fenginni umsögn fjmrn. var Neyðarlínunni tilkynnt með bréfi dómsmrn., dags. 11. júní sl., að fallist væri á framangreinda beiðni um framlengingu. Einnig var þess óskað af hálfu Neyðarlínunnar að hækkun yrði á árlegri greiðslu dómsmrn. Því til stuðnings var vísað til 1. mgr. 9. gr. samningsins sem mælir fyrir um að árlegar greiðslur ráðist m.a. af rekstrar- og stofnkostnaði skv. 6. gr. og 7. mgr. 9. gr. þar sem gerður er sá fyrirvari að árlegar greiðslur sem og heildarfjárhæð geti breyst vegna breytinga sem kunna að verða gerðar á verkinu.

Ráðuneytið hefur fallist á að þjónusta Neyðarlínunnar er meiri en upphaflega var gert ráð fyrir í samningnum. Neyðarlínan hefur aflað upplýsinga um björgunarsveitir í landinu sem lágu ekki fyrir við gerð samningsins og ekki var í samningnum mælt fyrir um skyldu Neyðarlínunnar að afla þeirra. Samningurinn felur í sér svörun og boðun viðbragðsaðila. Þjónusta í útkalli eykst stöðugt, sérstaklega við lögreglu. Þá hefur þjónusta vegna lækna víðs vegar um landið aukist án þess að slíkt sé skilgreint í samningnum.

Samkomulag var gert við Neyðarlínuna 30. des. 1998 um breytingu á samningnum sem felur í sér hækkun árlegrar greiðslu dómsmrn. um rúmar 1,5 millj. kr. og framlengingu á samningstímanum um fjögur ár. Í dag er komin nokkur reynsla á það fyrirkomulag sem sett var á varðandi samræmda neyðarsímsvörun og því eðlilegt að horft sé til þess hvernig til hafi tekist og hvað megi jafnvel færa til betri vegar í framkvæmdinni. Embætti ríkislögreglustjóra hefur sýnt áhuga á því að skoða hvernig lögreglan geti komið meir að þessum málum en embættið gerðist hluthafi í Neyðarlínunni í apríl 1997 og hefur nýtt þjónustu vaktmiðstöðva Neyðarlínunnar um kvöld og helgar.

Ég hygg að segja megi að þegar horft er fram á við sé nokkuð ljóst að sú þjónusta sem Neyðarlínan hefur veitt hefur verið góð og talsverðar líkur eru á því að hægt verði að færa hana út og að ýmsir aðilar, sem hafa ekki nýtt sér hana til þessa, geti gert það til þess bæði að auka hagræðingu og að auka öryggi borgaranna í landinu.