Þjónusta Neyðarlínunnar hf.

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:12:28 (3465)

1999-02-10 18:12:28# 123. lþ. 63.10 fundur 295. mál: #A þjónusta Neyðarlínunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:12]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir skýr og greinargóð svör. Ég vil þó í fyrsta lagi taka það fram að þau lög sem hæstv. dómsmrh. vitnaði til kveða alls ekkert á um það að sú leið skuli farin sem hæstv. dómsmrh. ákvað að fara, þ.e. að fela einkaaðilum að sjá um þessa neyðarsímsvörun.

Hins vegar var það gagnrýnt mjög fyrir þremur árum eða svo, rúmlega kannski, hversu ónægur undirbúningur væri fyrir stofnun Neyðarlínunnar áður en hún fór af stað. Mér virðist af þeim tölum sem hér hafa komið fram og tek þá mið af þeirri skýrslu sem hæstv. dómsmrh. lagði fram sjálfur, að á fyrstu þremur árunum hafa framlög til Neyðarlínunnar verið u.þ.b. 50 millj. kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir þegar lagt var af stað. Það er vitaskuld alveg gríðarlega há fjárhæð og u.þ.b. 50% hækkun frá því sem til stóð í upphafi. Og það, virðulegi forseti, segir mér að áður en lagt var af stað í þetta mál hefði mátt vinna það miklum mun betur. Í sjálfu sér, þó kannski sé erfitt að fullyrða um það, er það a.m.k. skoðun mín að þetta mál hefði verið miklu betur unnið þannig að ríkið hefði séð um þessa þjónustu, eins og það hafði gert hingað til, því að vitaskuld er sú hætta þegar þjónusta eins og sú sem hér um ræðir þar sem tekist er á við verkefni sem upp kunna að koma og neyð sem upp kann að koma í samfélaginu, að erfitt sé að sjá það fyrir og því eðlilegast að þjónusta sem þessi og vinna sem þessi sé á herðum ríkisins. Þó að við getum deilt um hvað ríkið eigi að gera í flestum málum held ég að við getum verið sammála um að löggæsla og neyðarþjónusta við borgarana sé eitt af því sem eigi að vera á herðum ríkisins.