Þjónusta Neyðarlínunnar hf.

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:14:43 (3466)

1999-02-10 18:14:43# 123. lþ. 63.10 fundur 295. mál: #A þjónusta Neyðarlínunnar hf.# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:14]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt, vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið, að minna á að frá því að haldið var af stað með Neyðarlínuna í samstarfi við sveitarfélögin í landinu eða á þann veg að sveitarfélögin borguðu hluta kostnaðarins á móti ríkinu að þá varð sú breyting að í samningum ríkisins við sveitarfélögin var ákveðið að ríkið tæki yfir þær skuldbindingar sem lögin gerðu ráð fyrir í upphafi að hvíldu á sveitarfélögunum.

[18:15]

Auðvitað er það líka svo að þarna hafa komið til meiri fjárfestingar en ráð var fyrir gert, fyrst og fremst vegna þess að þegar á hólminn var komið vildu menn veita meiri og betri þjónustu eins og menn sáu að kostur var á að gera, miðað við þann tæknibúnað sem hægt var að fá.

Þá er auðvitað eftir þetta almenna deiluefni hvaða rekstrarform á að vera á fyrirtækjum eins og þessum. Þetta var samdóma álit manna á sínum tíma og var boðið út eftir þeim reglum sem um þau gilda á vegum Ríkiskaupa. Á þeim tíma var Alþfl. þessarar skoðunar en út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við að menn breyti um skoðun eftir því sem tímar líða. En aðalatriðið er þó hitt að ég held að allir sem til þekkja og þessa þjónustu nota viðurkenni að hún hefur verið mjög góð og öflug og hún hefur mjög leitt til aukins öryggis borgaranna í landinu og aukinnar hagræðingar í þessari þjónustu og það er auðvitað það sem mestu máli skiptir í þessu efni, þannig að mjög vel hefur tekist til í þessum efnum.