Takmarkanir á notkun nagladekkja

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:22:20 (3469)

1999-02-10 18:22:20# 123. lþ. 63.9 fundur 288. mál: #A takmarkanir á notkun nagladekkja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:22]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og fagna því sérstaklega að í bígerð skuli vera að skipa nefnd til þess að taka á þessu máli og móta tillögur. Ég trúi ekki öðru en að samstaða muni nást um þetta.

Ráðherra hæstv. gat þess að auk fulltrúa ráðuneytis yrðu þar fulltrúar Vegagerðar og gatnamálastjóra. Ég teldi eðlilegt og æskilegt að fulltrúar bifreiðaeigenda, þ.e. neytendur sjálfir, ættu sæti í slíkri nefnd til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Bifreiðaeigendur starfa í skipulögðum samtökum sem hafa látið umferðarmál og mál bifreiðaeigenda afskaplega mikið til sín taka.

Ég fagna sem sé skipan þessarar nefndar og ítreka það sem ég sagði um harðkornadekkin, að í þeim gæti verið mikill þjóðhagslegur sparnaður, aukið öryggi jafnvel og sparnaður fyrir einstaklinga. Þess vegna hlýtur að vera full ástæða til þess að líta til þessarar nýju tækni og ekki spillir að hér er um íslenska framleiðslu og íslenskt hugvit að ræða.