Tilraunaveiðar á túnfiski

Miðvikudaginn 10. febrúar 1999, kl. 18:49:38 (3479)

1999-02-10 18:49:38# 123. lþ. 63.12 fundur 305. mál: #A tilraunaveiðar á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 123. lþ.

[18:49]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að afar þýðingarmikið er að íslenskir útgerðarmenn og íslensk skip reyni fyrir sér í þessum veiðum. Það skiptir auðvitað sköpum um réttarstöðu okkar og hlutdeild í stofnunum þegar til framtíðar er litið.

Hins vegar er alltaf álitamál með hvort stjórnvöld eiga að ýta slíkum málum fram eða hvernig þau eiga að koma þar að. Ég lít svo á að almennar reglur eigi að gilda sem mest í þessum efnum. Við höfum sett á fót Nýsköpunarsjóð til að stuðla að nýsköpunarverkefnum í íslensku atvinnulífi. Við höfum reynt að hverfa frá sértækum aðgerðum innan einstakra atvinnugreina og beint þeim í almennan farveg, þ.e. þann farveg að ákvarðanir um lánveitingar og fyrirgreiðslu séu teknar á markaðslegum forsendum. Ég held að mikilvægt sé, bæði fyrir sjávarútveginn og aðrar atvinnugreinar, að við höldum okkur við þá almennu stefnu.

En hitt er kórrétt hjá hv. fyrirspyrjanda. Það er brýnt að vekja meiri áhuga útvegsmanna á að reyna fyrir sér í þessum efnum til að tryggja enn betur réttindi okkar til veiða úr þessum stofni.