Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 10:42:23 (3481)

1999-02-11 10:42:23# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[10:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Að minni hyggju eru að gerast stórtíðindi í íslenskri pólitík með þeirri þverpólitísku sátt og þeirri niðurstöðu sem hér er að finna í hinu margnefnda kjördæmamáli. Ég var fulltrúi jafnaðarmanna í þeirri kjördæmanefnd sem skipuð var af hæstv. forsrh. og hef einnig setið í stjórnarskrárnefnd þingsins við meðhöndlun málsins.

Ljóst er að jafnaðarmenn hafa haft skýra afstöðu í kjördæmamálinu nú um langt skeið og verið þeirrar skoðunar að landið skuli gert allt að einu kjördæmi. Hins vegar lá ljóst fyrir strax í upphafi þessarar vinnu og hefur raunar legið lengi fyrir að um þá leið er ekki sátt á hinu háa Alþingi. Þess vegna varð það strax ákvörðun sem tekin var af hálfu jafnaðarmanna að við mundum freista þess eins og kostur væri að ná sátt um leið sem viðunandi væri. Ég hygg að sú sáttargjörð liggi hér frammi og eigi að vera þannig úr garði gerð að allir stjórnmálaflokkar geti sæmilega vel við unað. Enda kemur í ljós að flutningsmenn frv. eru formenn stjórnmálaflokkanna og að stjórnarskrárnefndin sem hér skilar af sér til 2. umr. hefur náð sátt sín á milli og skilar málinu heillegu inn til Alþingis. Lítils háttar breytingar hafa verið gerðar á frv. eins og það kom fyrir sjónir hv. alþm. fyrir áramót. Þær eru hins vegar ekki af þeirri stærðargráðu að þær breyti neitt eðli máls eða innihaldi og meginkjarna þessarar tillögu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara lið fyrir lið yfir þau helstu efnisatriði sem finna má í þeim tillögum sem hér eru til umræðu. Það gerði ég við 1. umr. málsins. Engu að síður er ljóst að hér er tekið verulegt skref til réttarbótar til jöfnunar atkvæðisréttar frá því sem verið hefur. Það er meginkjarni málsins og mikilvægasti þáttur þeirrar tillögu sem er til umfjöllunar.

Um langt skeið hefur verið ljóst að engin sátt er í samfélaginu um það mikla misvægi atkvæða sem íslenskir kjósendur hafa búið við nú um langt árabil og því brýnt og mikilvægt að draga þarf verulega úr. Það gert í þessu frv.

[10:45]

Í annan stað hygg ég það vera mikilvægt að sama skapi að með þessari nýskipan mála verða þingmannahópar á hinu háa Alþingi tiltölulega jafnstórir, jafnfjölmennir. Það tel ég mikilvægt af mörgum ástæðum. Ójafnvægi í þeim efnum hefur oft og tíðum valdið ákveðnum vandamálum. Við búum við það núna að þingmannahópar einstakra kjördæma geta verið frá 19 og niður í fimm og það sér auðvitað hver maður að það getur og hefur veldið erfiðleikum og vandamálum.

Hitt er ég meðvitaður um eins og velflestir hv. þm. aðrir að stærð þessara landsbyggðakjördæma sem talsvert hefur verið umrædd hefur valdið áhyggjum margra. Umfang þeirra er gríðarlegt. En á hitt ber að líta og rifja upp að þeim sömu áhyggjum deildu menn í þessum ræðustóli árið 1959 þegar kjördæmaskipaninni var breytt í þá daga. Þá voru áhyggjurnar þær að þau kjördæmi sem við búum við í dag væru of víðfeðm og stór. En á þeim áratugum sem liðnir eru hafa orðið byltingarkenndar breytingar í samgöngumálum þjóðarinnar. Þó að ég geti ekki fullyrt um það frekar en nokkur annar þá er það mitt mat að fljótlega venjist menn á þetta nýja fyrirkomulag, að þau praktísku vandamál sem hugsanlega skapast vegna þessara stóru landflæma verði ekki jafnstór og mikil í sniðum og menn vilja vera láta.

Ég vil einnig vekja á því athygli að um það hefur verið rætt opinberlega og allgóð sátt er í þá veruna að með þessari stækkun kjördæmanna verði freistað að skapa alþingismönnum betri aðstöðu til vinnunnar, m.a. með aðstoðarfólki, með ákveðnum miðstöðvum úti í héraði o.s.frv.

Hitt er jafnljóst að menn geta skipst á skoðunum um það hvar kjördæmamörk nákvæmlega skuli vera. Menn geta haft á því mismunandi skoðun og ég ætla ekki að hætta mér út í þá umræðu. En þetta var niðurstaða máls og ég hygg að um hana geti orðið allgóð sátt.

Það er líka rétt að vekja athygli á því sem hv. talsmaður stjórnarskrárnefndarinnar kom inn á og menn hafa nefnt 5% regluna, þ.e. að flokkar þurfi að ná 5% atkvæða til þess að fá mann kjörinn á Alþingi. Það er þrenging að vissu marki. En að sama skapi er af tekin sú regla sem við höfum búið við um langt árabil að enginn flokkur eða stjórnmálasamtök geti fengið mann kjörinn á Alþingi nema hann náist einhvers staðar kjördæmakjörinn. Þetta tvennt jafnast því út og niðurstaðan held ég að sé fullkomlega ásættanleg.

Það er rétt að vekja líka á því athygli, þó að vafalaust hefði mátt ganga lengra í þeim efnum, að í frv. eru stigin skref í þá veruna að auka áhrif kjósenda hvað einstaklingskjör varðar og dregið nokkuð úr þeim stífu reglum sem hafa verið í gildi í því sambandi. Það er þó fyrirliggjandi að sumir stjórnmálaflokkar hafa viljað ganga lengra í þessa veru en aðrir. Ég hef verið í þeim hópi sem vill ganga alllangt í að auka möguleika kjósenda til þess að hafa áhrif á kjör þeirra einstaklinga sem í framboði eru. Sumir hafa nefnt í því sambandi hið svokallaða kjörbúðarfyrirkomulag þar sem kjósandi hefur í raun tvö atkvæði, annars vegar atkvæði sem hann getur varið til þess að velja flokk og hins vegar einhvern fjölda einstaklinga úr öllum flokkum, eða jafnmörgum og kjósandinn vill. Þetta er hins vegar framtíðarmarkmið að minni hyggju og tilfinning mín er sú að fyrr en síðar taki menn enn stærri og veigameiri skref í þessa veruna en nú er gert.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að teygja þessa umræðu. Ég árétta að hér er um stórpólitísk tíðindi að ræða. Ég hef gjarnan orðað það svo að versta niðurstaðan í kjördæmamálinu í gegnum tíðina hafi verið sú að ekkert hafi gerst. Það hefði orðið jafnvond niðurstaða nú og oft áður þannig að það er mér mikið fagnaðarefni að nú skuli sjást til sólar, að nú skuli sjást til lands í þessu stóra máli og að allgóð, víðtæk og breið sátt geti tekist um þetta stóra mál.