Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 11:25:36 (3488)

1999-02-11 11:25:36# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[11:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. stjórnarskrárnefndar með fyrirvara og mun hér gera grein fyrir ástæðum þess. Ég gerði þær reyndar að umtalsefni þegar við 1. umræðu málsins og get að mestu leyti vísað til þeirra. Þó má segja að a.m.k. að einu leyti sé komið nokkuð til móts við sjónarmið mín með þeim brtt. sem fluttar eru af stjórnarskrárnefnd. Þá á ég fyrst og fremst við þann sveigjanleika sem a-liður 1. tölul. brtt. skapar, þ.e. að fastbinda ekki lengur með öllu fjölda kjördæma heldur bjóða upp á þann sveigjanleika að þau geti orðið sex eða sjö. Ég vísa einnig til gagnrýni og fyrirvara sem ég setti fram varðandi afmörkun kjördæma og birt eru í fskj. með frv. sem drög að breytingum á kosningalögum.

Að öðru leyti, herra forseti, lúta fyrirvarar mínir við þetta mál fyrst og fremst að ákveðnum útfærsluatriðum kosningalöggjafarinnar og kjördæmaskipunarinnar á grundvelli þeirra. Að hluta til er ramminn um þær breytingar markaður í frv. um breytingar á stjórnarskipunarlögum. Að því leyti sem þeir hlutir hanga saman þá beinast fyrirvarar mínir einnig að þessu frv., þó hér sé valin sú leið sem ég andmæli ekki út af fyrir sig. Ætlunin er að reyna að hafa sjálfan stjórnarskrárrammann einfaldan í sniðum og bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika í útfærslu og mögulegar breytingar í kosningalögum, þá með tveimur þriðju atkvæða, þ.e. auknum meiri hluta til að samþykkja slíkar breytingar.

Það fyrsta af þessu tagi það er einfaldlega útfærslan á kjördæmamörkunum og það er ramminn sem settur er hér í frv. og sá rammi sem nefnd fulltrúa þingflokkanna setti sér í störfum sínum. Ég sagði við 1. umræðu að ég teldi að sá rammi hefði verið of þröngur og ég er enn sömu skoðunar. Ég held, þó að ég skilji að mörgu leyti þau sjónarmið að reyna að miða við að útkoman verði nokkurn veginn jafnstór kjördæmi hvað þingmannafjölda snertir, að menn hafi þar gengið of langt. Menn hafi látið þetta markmið, um jafnan þingmannafjölda í kjördæmum, verða um of ríkjandi á kostnað annarra. Þá á ég fyrst og fremst við að svo hafi orðið á kostnað þess að útkoman þarf að vera sæmilega skynsamleg landfræðileg eining. Ég hef bent á aðalgallana við hinn þrönga ramma nefndarinnar og frv., að þingmannafjöldinn í hverju kjördæmi skuli nánast alltaf vera sá sami, þ.e. 9 plús 1 eða 9 plús 2. Útkoman af þessu er annars vegar hin geysilega stóru landsbyggðarkjördæmi og hins vegar skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi, skipting eins sveitarfélags í tvö kjördæmi sem óneitanlega er nokkur stílbrjótur miðað við önnur kjördæmi.

[11:30]

Nú er mér alveg ljóst að ef menn hefðu valið þá leið að bjóða upp á nokkuð mismunandi þingmannafjölda í kjördæmum, eitthvað í átt við það sem nú er og þó að sá mismunur hefði verið eitthvað minni, þá hefði að sjálfsögðu þurft að leggja reikningsdæmin öðruvísi upp hvað varðar jöfnun milli flokka og fjölda jöfnunarsæta. Að sjálfsögðu eru engir einfaldir kostir í boði í þeim efnum ef ekki á t.d. að missa fyrir borð það grundvallarmarkmið að að endingu náist að nokkru leyti fullnægjandi jöfnuður milli flokka sem ég tel að sjálfsögðu vera afar mikilvægt atriði og náðist fram með breytingunum 1983 og ber að sjálfsögðu að varðveita.

Vel kann að vera að slík umræða hefði leitt menn inn á það spor að til jöfnunar þyrfti að lokum að setja upp landslista eða grípa til einhverra annarra sambærilegra aðferða til þess að ná slíkum fullum jöfnuði að lokum og þá það. Ég sé í sjálfu sér ekki að það hefði þurft að vera verri kostur en margir aðrir sem menn hafa skoðað í þessu efni.

Herra forseti. Kannski er ástæða til þess að ræða líka aðeins um hvers vegna stöndum við í þessum sporum og höfum endurtekið gert á þessari öld að þurfa að vera að taka upp kosningalög og stjórnarskrá til þess að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem þjóðin notar til þess að velja sér fulltrúa á löggjafarsamkomuna. Hvers vegna höfum við þurft endurtekið að taka þetta upp? Jú, ástæðan er fyrst og fremst ein. Hún er sú geigvænlega byggðaröskun og þeir miklu búferlaflutningar innan lands og það mikla ójafnvægi í fólksfjölguninni í landinu, hvar hún kemur fram, sem við höfum búið við meira og minna þessa öld og alveg einkum og sér í lagi núna síðustu tvo til þrjá áratugi. Af þessum sökum hafa gildandi lög og stjórnarskrárákvæði gengið undraskjótt úr sér þannig að á 20--30 ára fresti eða hvað það nú er, jafnvel skemur, ef litið er til þess að kosið var í fyrsta sinn eftir núgildandi kosningalöggjöf 1987 og hún er þegar orðin úrelt. Um það er í sjálfu sér ekki deilt að óhjákæmilegt sé að gera ákveðnar breytingar vegna þess að búseturöskunin og fólksflutningarnir innan lands hafa verið svo geigvænlegir að lögin hafa ekki haldið eða það hefur ekki verið pólitískur stuðningur við það eða vilji til þess að láta þau gilda nema mjög skamman tíma í senn.

Breytingin 1983 sem kosið var eftir í fyrsta sinn 1987 var í raun og veru úrelt nánast samstundis. Það var t.d. þannig að þau jöfnunarsæti sem þá voru og gátu flust milli kjördæma í takt við fólksfjöldabreytingar fóru í botn strax að loknu einu kjörtímabili og Norðurlandskjördæmi eystra missti sinn sjöunda þingmann á Reykjanes vegna breytinga í hlutföllum á milli þessara tveggja kjördæma strax eftir fyrsta kjörtímabilið sem lögin giltu eða voru notuð. Við alþingiskosningarnar 1991 fluttust því þingsæti af Norðurl. e. til Reykjaness í samræmi við þá innbyggðu formúlu sem byggð var í lögin og síðan hefur reyndar Norðurl. e. borið verulega skarðan hlut frá borði ef út í það væri farið vegna þess að í hugum manna hefur umræðan um misvægi atkvæða fyrst og fremst beinst að suðvesturhorni landsins og kjördæmunum við Faxaflóa, Reykjavík og Reykjaneskjördæminu. Þá má benda á að eftir þessa breytingu hefur í raun og veru hallað einnig verulega á hlut Norðurl. e. sem er þriðja stærsta kjördæmi landsins.

Þess vegna, herra forseti, er ekki nema eðlilegt og þó ekkert annað kæmi til en það að ástæður þess að menn eru endurtekið með kosningalöggjöfina og stjórnarskrána í höndunum, ef svo má segja, með 10--20 ára millibili er þessi gífurlega byggðaröskun, þá leiðir af sjálfu að menn hljóta að taka það mál inn í umræðu um þetta. Þar af leiðandi er ég kominn að því í öðru lagi, herra forseti, að mér finnst að í tengslum við þessar breytingar sé algerlega óhjákvæmilegt að gera þá í leiðinni stórátak til þess að jafna misvægi í byggðaþróun og jafna aðstæður manna með tilliti til búsetu og reyna þá að taka þannig á í þeim málum að þessi breyting endist eitthvað og menn standi ekki frammi fyrir því aftur að 10--15 árum liðnum að þurfa að taka þetta upp. Auðvitað á það ekki að vera þannig að þjóðin sé með kosningalöggjöf sína og stjórnarskrá sína stanslaust í uppnámi af slíkum ástæðum.

Ég hlýt því, herra forseti, að lýsa eftir því og vekja athygli á því að því miður eru ekki enn komnar fram tillögur sérstakrar nefndar sem nú hefur verið að störfum og tengist málinu sem lúta að jöfnunaraðgerðum í byggðamálum og lúta að bættum starfsaðstæðum þingmanna en það er hér einnig undir og tengist að sjálfsögðu því starfsumhverfi sem þingmenn eiga að sinna skyldum sínum í að afloknum þessum breytingum og þegar þær verða komnar til framkvæmda. Ég leyfi mér að láta það álit mitt í ljós, herra forseti, að ekki sé æskilegt að umræðunni ljúki nema þá að liggi skýrt fyrir í formi yfirlýsingar frá hæstv. forsrh., eða með einhverjum öðrum hætti, hvernig þessir hlutir verði tengdir saman og hvenær niðurstöður liggi fyrir um það hvað raunverulega er vilji til að gera í þessum jöfnunaraðgerðum í byggðamálum.

Svo að maður nefni aðeins eitt dæmi í því samhengi þá tek ég samgöngurnar. Auðvitað er ljóst að eigi hin risavöxnu kjördæmi að geta á einhvern hátt virkað sem einingar þarf að gera stórátak í mörgum tilvikum til að bæta samgöngur innan þeirra og er svo sem nógu bágborið ástandið í dag þar sem við erum með kjördæmi sem er algerlega aðskilið t.d. yfir vetrarmánuðina hvað varðar samgöngur á landi og ég nefni Vestfirði sem dæmi. En ég hygg t.d., herra forseti, að bæði Norðvesturkjördæmið og Norðausturkjördæmið, sem verður mikill meiri hluti landsins ef þetta nær fram að ganga, líklega um þrír fjórðu ef ekki fjórðir fimmtu hlutar landsins, til þess að þessi gífurlega stóru umdæmi geti þá farið að mynda eina heild þarf að gera mikið átak í samgöngumálum innan þeirra. Þess vegna þó ekkert annað kæmi til en það og þau beinu tengsl við þessa breytingu sem samgöngurnar hljóta að hafa eðli málsins samkvæmt ætli menn að gera eitthvað með kjördæmin sem slík á annað borð og eigi þau á einhvern hátt að verða eining sem líklegt er að þau verði. Ég minni á hvernig kjördæmabreytingin frá 1959 hefur þrátt fyrir allt á sínum 40 árum smátt og smátt verið að festast í sessi sem eining af margvíslegum toga hvað varðar samstarf á vettvangi sveitarstjórna, hvað varðar skipulag og stjórnun á mörgum mikilvægum sviðum opinberrar þjónustu o.s.frv. Þessa einingu á nú reyndar að brjóta upp með þessum breytingum og ættu menn kannski að huga dálítið að því hvort það er að öllu leyti þess virði í raun og veru að kasta fyrir róða þó því sem þróast hefur á grundvelli þessarar kjördæmaskipunar á 40 árum.

Herra forseti. Ég lýsi í öðru lagi eftir beinhörðum aðgerðum í byggðamálum. Ég tek fram að ég er ekki að tala þar um eitthvert blaður eða falleg orð á blaði. Það er gersamlega einskis virði að fá slíkt fram. Ég er að tala um beinharðar ákvarðanir, um efnislegar aðgerðir. Ég er að tala um fjármuni og ég er að tala um hluti sem verði geirnegldir niður með lagasetningu og ákvörðunum eins og nokkur kostur er á þessu þingi og áður en stjórnarskrárfrv. sjálft verður afgreitt. En eðli málsins samkvæmt verður það væntanlega síðasta frv. sem þetta þing afgreiðir þannig að þeir hlutir komi strax til framkvæmda, framkvæmdir á grundvelli þeirra og aðgerðir hefjist á þessu ári og með því síðan að um það verði pólitísk samstaða sem ég vona að sé og væri ástæða til að talsmenn flokka lýstu hug sínum til, síðan verði ekki kosið á nýjan leik á grundvelli nýrrar kjördæmaskipunar fyrr en í lok næsta kjörtímabils, þ.e. árið 2003 nema óvæntar pólitískar aðstæður kalli á kosningar. En að lögfesting stjórnarskrárbreytinganna í hið seinna sinni verði ekki fyrr en í lok þings á næsta kjörtímabili, á síðasta þingi næsta kjörtímabils. Þá hafa menn þau fjögur ár til þess að láta á það reyna, láta það sýna sig hvað verður úr þeim aðgerðum sem þessum breytingum eiga að tengjst. Það er alger forsenda, herra forseti, af minni hálfu að þannig verði að hlutunum staðið því ég ætla ekki að kaupa köttinn í sekknum hvað varðar það sem menn tala um að gera til mótvægisaðgerða hvað byggðaþróun snertir.

Um kjördæmamörkin að öðru leyti, herra forseti, fyrir utan stærðina sem þarna kemur til og ég geri ráð fyrir að eigi eftir að verða nokkuð til umræðu, neyðist ég til að endurtaka óánægju mína með það hvernig kjördæmamörkin eru dregin hvað Norðurland varðar. Ég tel mjög miður að menn skuli ekki hafa í þessari útfærslu með einhverjum hætti náð því fram að um það bil Norðlendingafjórðungur hinn gamli hefði orðið kjördæmi. Fyrir því færi ég þau rök að þar er um landfræðilega tiltölulega mjög eðlilega einingu að ræða. Þar er í öðru lagi um að ræða svæði sem á ýmsan hátt hefur unnið saman. Þar er um að ræða svæði sem með Akureyri sem langstærsta þéttbýlisstaðinn á svæðinu og á landsbyggðinni sem eðlilegan miðpunkt er nú þegar að ýmsu leyti eðlileg heild. Ég nefni sem dæmi að þar er í grófum dráttum á ferðinni upptökusvæði stóru sérhæfðu stofnananna á Akureyri eins og Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar, háskólans þar og fleiri stofnanir mætti nefna.

Ég held að sem mótvægi við og viðspyrna í byggðamálum hefði Akureyri sem miðjan í stóru kjördæmi til beggja handa nýst best og ég tel óskynsamlegt í byggðamálum og óheppilegt að setja þennan langstærsta og öflugasta stað landsbyggðarinnar út í jaðar á kjördæminu en það er það sem er gert með því að draga mörk Norðausturkjördæmsins þannig að þau séu um Tröllaskaga í vestri að vísu að meðtöldum Siglufirði og nái síðan alla leið austur í Hornafjörð. Eins og ég hef áður bent á, herra forseti, er hin landfræðilega miðja, hin landfræðilega höfuðborg í því kjördæmi Möðrudalur á Fjöllum. Það er auðvitað vel á sinn hátt og í sögulegu samhengi skemmtilegt en það er ekki mjög heppilegt eða skynsamlegt út frá búsetudeifingunni eins og hún er í kjördæminu um þessar mundir. Það er það ekki.

Nú vænti ég þess að vísu að menn muni áfram eiga góð samskipti og viðskipti þvert á þessi kjördæmamörk svo sem menn hafa gert og það á að sjálfsögðu ekki að gera of mikið úr slíkum línum á blaði. En segjum svo að í kjölfar þessarar kjördæmabreytingar hefjist þróun svipuð þeirri sem hófst í kjölfar breytingarinnar 1959 og hin nýju kjördæmi verði smátt og smátt í vaxandi mæli að stjórnsýslu- og samskiptaeiningum sem skilgreini sig sem slíkar, þá eru þetta ekki gáfulega dregin mörk að mínu mati, ekki heppileg. Sjálfsagt má segja um alla slíka hluti að það sé erfitt að finna þessi mörk og það séu á því kostur og galli hvar sem menn ber niður. Það má t.d. líka til sanns vegar færa þó að Norðlendingafjórðungur hinn gamli yrði að kjördæmi og ýmsir hafa bent á að það séu ekki endilega rökræn mörk sem réðust kannski af því hversu vel biskupar voru ríðandi til forna eða hversu gestrisnir íbúar landshlutanna voru að Hólabiskup tafðist meir sökum gestrisni Norðlendinga á ferðum sínum en öðrum biskupum og þar af leiðandi komst hann yfir minna svæði eða svo segja gamlar sagnir. Aðrir telja, sem hlýtur náttúrlega að vera hin mesta vitleysa, að Skagfirðingar hafi verið svo illa ríðandi að þeim hafi miðað svona seint. Ekki trúi ég því.

Af einhverjum ástæðum urðu fjórðungarnir til eins og þeir urðu og ég hygg að færa megi fyrir því ýmis rök, m.a. landfræðileg, enn þann dag í dag. Hvað samgöngur snertir að Norðurlandið væri eðlileg eining í þessu sambandi. Ég vísa einnig til þeirra byggðapólitísku raka sem ég hér nefndi.

Staðreyndin er einnig sú að á norðaustursvæðinu er mikil eyða í byggðakeðjuna nema rétt við ströndina og þar af leiðandi er inni í miðju hinu stóra Norðausturkjördæmi, í því er stór eyða í byggð sem í grófum dráttum nær frá Mývatnssveit og austur á Jökuldal, að slepptum fáeinum bæjum á Fjöllum ef farin er efri leiðin. Einnig má segja að finna megi landfræðilega eðlilega skiptingu út við ströndina hvort heldur þar væri valið Langanes eða þar sem landfræðilega hefði verð heppilegra að skipta fjórðungum eða kjördæmum, um Smjörvatnsheiði sem í raun er hinn eðlilegi þröskuldur samgangna milli Norðausturlands og Austfjarða.

Herra forseti. Ekki fleira um þetta. Að öðru leyti get ég vísað í það sem ég hafði áður uppi um þetta mál.

Þá vil ég koma að einu atriði enn, herra forseti, sem ég hef allan fyrirvara á og get ekki stutt óbreytt eins og það er í þessu frv. og það er ákvæðið um þröskuld til að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta. Ég tel að vísu að það ákvæði sem þarna er sett inn sé að mörgu leyti réttlátt og hefði átt að bætast við þau ákvæði sem fyrir hafa verið um að til þess að jöfnunarsæti komi til úthlutunar þurfi framboð að ná a.m.k. einum kjördæmakosnum þingmanni.

[11:45]

Því til viðbótar held ég að regla af þessu tagi um eitthvert tiltekið hlutfall atkvæða í landinu sé sanngjörn. En ég tel að þetta hefði átt að vera annað tveggja. Ég held að það geti verið bersýnilega ósanngjarnt að svipta framboð á landsvísu sem nær kjördæmakosnum þingmanni í einu kjördæmi en fær ekki nema 4,9% atkvæða, tveimur jöfnunarþingmönnum. Það er bersýnilega ósanngjarnt. Ég nefni dæmið um Kvennalistann í síðustu kosningum. Segjum sem svo að í hinu nýja kerfi verði einhver hreyfing í sambærilegri stöðu og Kvennalistinn var síðast hvað það snertir að ná í einu kjördæmi kjördæmakosnum þingmanni en fá ekki nema 4,9% atkvæða að meðaltali yfir landið. Hvað gerist þá samkvæmt þessu frv.? Jú, þá missir það framboð réttinn til jöfnunarsæta af því að það uppfyllir ekki 5% ákvæðið og verður af tveimur þingmönnum. Er það mjög réttlátt? Er það sanngirni í samanburði við annað sem hér er lagt til grundvallar að það skuli nást fram fullur jöfnuður milli flokka og atkvæði nýtast hverju framboði í aðalatriðum í samræmi við styrk þess í landinu? Ég segi nei. Ég skil því ekki af hverju menn féllust ekki á að það væri nóg að uppfylla aðra hvora forsenduna, að fá móðurskip eða yfirstíga 5% þröskuldinn. Ef menn vilja bara hafa annaðhvort, þ.e. bara þröskuldinn, þá á hann að vera lægri því að annað er ólýðræðislegt. Ef hann er 3% eða 4% þá er lítil hætta á því að atkvæði séu gerð dauð hjá framboði með slíkum þröskuldum vegna þess að á bak við fyrsta þingmanninn koma þá að jafnaði 2--3% og um leið og hann er kominn inn þá væri minna af slíku framboði tekið.

Auk þess finnst mér, herra forseti, að það þurfi að rökstyðja það að hafa þennan þröskuld hærri hér en víðast hvar annars staðar. Hann er gjarnan 2--3% í mesta lagi 4%. Þó að dæmi kunni að finnast um þetta þá finnst mér ekki farið fram af fullri sanngirni þarna.

Herra forseti. Ég vil einnig gera aðeins að umtalsefni mál sem ég tók einnig upp við 1. umr. og varðar ýmsar aðrar breytingar sem ég hefði viljað sjá a.m.k. að væru ræddar og gerð tilraun til að koma inn í okkar kosningafyrirkomulag. Þá væri það sennilega frekar viðfangsefni kosningalaga en stjórnarskrárbreytinga, og þó. Til greina kæmi að hvort tveggja væri. Ég nefni þar einfaldlega persónukjör, útstrikunarregur eða aðra slíka hluti sem hafa áhrif á uppröðun á lista. Og það er nærtækt, herra forseti, að nefna þetta í samhengi við þær prófkjörsæfingar sem við höfum séð ganga yfir þjóðfélagið á undanförnum vikum og mánuðum og standa yfir enn.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég hef verið mjög hugsi yfir ýmsu sem manni sýnist vera að gerast í þessum efnum að undanförnu Ég held að það sé ekki í þágu lýðræðisins og málefnabundinna stjórnmála að menn missi stjórn á hlutunum eins og veruleg hætta sýnist á að sé að gerast í núverandi fyrirkomulagi. Ég held að það væri miklu lýðræðislegra að skoða það að færa þessa þátttöku kjósendanna í því að raða á framboðslistana inn í kosningafyrirkomulagið sjálft með lögbundnum forkosningum eða með reglum um óraðaða framboðslista og tiltölulega auðveldar aðferðir fyrir þátttakendur í kosningunum til að hafa áhrif á uppröðun listanna. Ég hallast að því að besta fyrirkomulagið sé óraðaðir framboðslistar þannig að kjósendurnir sjálfir beint og milliliðalaust velji sér það fólk af listunum sem það vill láta skipa sætin. Þannig færast prófkjörin í reynd inn í kosningarnar og breyta um eðli í leiðinni.

Menn hafa helst fært fram sem mótbárur við því fyrirkomulagi að þá flytjist prófkjörsbaráttan inn í kosningarnar. Það er ekki reyndin annars staðar. Í nálægum löndum kannast menn ekki við það vandamál að þó teflt sé fram óröðuðum listum, og menn séu með vissum hætti keppinautar hvað það snertir innbyrðis í sínum flokkum í kosningunum, þá leiði það til þess að menn fari að berjast opinberlega hver við annan í kosningabaráttunni. Auðvitað ekki vegna þess að þar með mundu menn skaða sig og sitt framboð í leiðinni þannig að menn neyðast til þess vegna hagsmuna framboðsins í kosningunum að stilla því öllu mjög í hóf. Útkoman er yfirleitt sú í nálægum löndum þar sem sambærilegt fyrirkomulag er að þetta hefur gefist vel. Þetta er hollt og gott fyrir lýðræðið. Þetta þýðir að menn fá sjálfkrafa og alltaf á sig ákveðna mælingu, að forustumenn í stjórnmálum, jafnvel þó að listanum sé raðað en síðan sé um persónuleg atkvæði að ræða, fá þá mælingu og aðvörun ef þeir standa sig ekki sem skyldi.

Herra forseti. Ég held líka að menn ættu að hugleiða út á hvaða spor menn geta lent og eru í raun þegar lentir að nokkru leyti í þessum prófkjörum, samanber taumlausan fjáraustur í þau eins og við höfum séð fyrir okkur að undanförnu. Er það framför í lýðræðislegu tilliti ef í það stefnir að efnahagslegir burðir eða bakhjarlar manna fari að ráða mestu um það hvar þeir skipa sæti á framboðslistum? Það held ég varla. Og væri þá ekki öllum fyrir bestu að reyna að taka á því máli áður en þeir missa það út í tóma vitleysu? Ég sakna þess því mjög, herra forseti, að þessi þáttur málsins skyldi ekki vera meira skoðaður, ekki síst nú í ljósi þess sem maður hefur horft upp á að undanförnu.

Ég tel að það eigi afar lítið skylt við lýðræði ef svo er komið að þessi prófkjör séu að verða eins og hálfgerður kappleikur þar sem menn smala mönnum til þátttöku á ýmiss konar grundvelli. Þetta er eiginlega líkara Vesturbænum á móti Austurbænum eða Val á móti KR en að snúast um lýðræðið. Ég held að forustumenn í öllum stjórnmálaflokkum ættu líka að velta því fyrir sér hvort margt grafi nú meira undan virkri þátttöku í stjórnmálastarfinu sjálfu en einmitt þetta. Hvaða gildi hefur það fyrir menn að vera í stjórnmálaflokki og leggja honum lið með kröftum sínum og störfum ef einhverjir aðrir koma svo bara og ráða því algjörlega hverjir skipa forustusætin fyrir þann flokk í kosningum og það hættir í raun og veru að hafa gildi að leggja krafta sína fram með einum frekar en öðrum í þessum skilningi séð? Auðvitað getur það áfram haft gildi vegna málefnanna og á að hafa. En ég óttast, herra forseti, að þetta grafi undan tilvist stjórnmálaflokkanna sem skipulagðra eininga í hinu lýðræðislega kerfi og það er hættulegt. Það er ekki í þágu lýðræðisins að veikja stjórnmálaflokkana sem heilbrigðar stofnanir. Þeir eru mikilvægir. Þeir eru einmitt hornsteinar í þessu kerfi og eiga að vera það. Þess vegna verða menn að gæta sín ef sú þróun læðist aftan að mönnum að þeir kunni að telja þetta heppilegt. Það getur vel verið að einhverjir græði á því að hafa mikil prófkjör með mikilli þátttöku þó að ég sé að vísu ekki viss um að það sé endilega ávísun á gott gengi í næstu kosningum. Ég minnist þess úr mínu kjördæmi þegar ónefndur flokkur þar --- fyrsti stafurinn í nafninu er Alþfl. --- hélt geysilegt prófkjör fyrir alllöngu síðan. Þar tókust feiknarlega á tveir foringjar flokksins. Þeir fengu mikla þátttöku í prófkjörinu og voru kampakátir mjög að nú væri bara nánast í höfn alveg stórsigur Alþfl. í Norðurl. e. Mig minnir að þátttakan hafi farið eitthvað á 19. hundraðið. En ætli flokkurinn hafi slefað í 1.500 atkvæði? Ég held varla. Í kosningunum tveimur eða þremur mánuðum síðar misstu þeir mann. Þannig fór nú það. Kannski hélt hann honum í þeim kosningum en tapaði honum í næstu. Þeir fuglar eru því ekki alltaf í hendi, herra forseti, sem fljúga upp í prófkjörunum.

Herra forseti. Ég hallast að því að næst á eftir því sem ég hefði helst viljað sjá í þessum efnum, þ.e. óröðuðum listum sem ég tel að séu lýðræðislegastir, þá hefði ég kosið að sett yrði inn í kosningalögin ákvæði um persónuleg atkvæði, þ.e. að réttur kjósandans væri annars vegar að kjósa flokk og hins vegar að greiða einum frambjóðanda á listanum sitt persónulega atkvæði. Það væri valkvæður möguleiki. Menn sem sagt gætu sleppt því en menn gætu líka gert það ef þeir vilja sérstaklega undirstrika stuðning sinn við einn tiltekinn frambjóðanda. Það er það fyrirkomulag sem víða er við lýði og má kallast á íslensku persónuleg atkvæði. Þá er það þannig að einhver tiltekin viðmiðunarmörk þarf að setja inn í lögin sem fjöldi persónulegra atkvæða þarf að yfirstíga til þess að hafa áhrif á röðina. Í Svíþjóð er það t.d. þannig að ef 8% kjósenda eða meira hjá einu tilteknu framboði nýtir rétt sinn til að greiða frambjóðanda persónulegt atkvæði þá er komið upp fyrir þau mörk sem þarf til að hafa áhrif á röðun listans. Þá er skoðað hverjir hafa fengið persónuleg atkvæði og hve mörg. Ef t.d. maður í öðru sæti eða þriðja sæti hefur fengið 14% persónulegra atkvæða en sá maður sem viðkomandi flokkur setti efstan hefur ekki fengið nema 12%, þá breytist röðin. Hafi hins vegar maðurinn sem settur var efstur fengið flest persónuleg atkvæði þá heldur hann að sjálfsögðu sínu sæti. Þetta er ágætt fyrirkomulag. Eiginlega er eini gallinn við það sá að endanleg úrslit kosninganna liggja stundum ekki fyrir fyrr en eftir tvo til þrjá sólarhringa því það þarf að reikna út í hverju einstöku tilviki hvort breytingar hafa orðið á röð listans. Á þennan hátt færast að meðaltali til 10--20 þingmenn í Svíþjóð, þ.e. að 10--20 menn sem hefur verið raðað það neðarlega á lista sinna flokka og hefðu ekki að óbreyttri röðun náð sæti, vinna sig upp í þingsæti á grundvelli sinna persónulegu vinsælda. Og aðrir sem að sama skapi standa sig ekki vel þrátt fyrir að hafa verið settir efstir af sínum flokkum falla niður.

Til er þriðja útgáfan af þessu fyrirkomulagi. Hún er sú að flokkarnir ráða því sjálfir hvort þeir setja fram raðaðan eða óraðaðan framboðslista. Þeir geta sem sagt ákveðið það sjálfir hvort þeir nýta sér rétt sinn til að raða frambjóðendum upp samkvæmt einhverri röð sem ákveðin er af viðkomandi flokki með einhverjum hætti eða segja: Gerið þið svo vel, kjósendur góðir. Hér er sá hópur sem við bjóðum ykkur upp á að velja úr og þið raðið. Það er þá í raun valkostur við þetta fyrirkomulag að hafa óraðaða lista.

Herra forseti. Mér er ljóst að það er ekki endilega víst að breytingar þessu tengdar hefðu þurft að koma eða þurfi að koma inn í sjálf stjórnarskipunarlögin en ég hlýt að sjálfsögðu að ræða þetta hér eins og annað sem tengist efni þessa máls, enda er frv. til laga um breytingar á kosningalögunum fylgiskjal með þessu máli og er í órjúfanlegu samhengi við þann ramma sem hér er verið að leggja til lögfestingu á.

Herra forseti. Fleira mætti að sjálfsögðu taka til af þessu tagi. Hér voru nokkuð ræddar við 1. umr. breytingar á svonefndum útstrikunarreglum sem kosningalagafrv. felur í sér og ég vísa til þeirrar umræðu. Það má í sjálfu sér margt um það að segja. Núgildandi reglur eru ekki mjög skilvirkar og í sjálfu sér hefur það orðið niðurstaðan að menn nenna yfirleitt ekki að standa í því að láta álit sitt í ljós nema þá við alveg sérstakar aðstæður þegar um óvenjulega óánægju er að ræða af einhverjum toga og því miður er megingallinn á öllum slíkum aðferðum sá að þær ganga í raun og veru út frá neikvæðum forsendum. Þær eru fyrst og fremst réttur til þess að láta óánægju í ljós. Kosturinn við óraðaða lista og persónuleg atkvæði er að þau nálgast málið frá gagnstæðum sjónarhóli. Þau eru tækifæri til að lýsa yfir stuðningi við frambjóðanda en ekki fyrst og fremst tækifæri til að láta í ljós óánægju eins og núgildandi fyrirkomulag er og á að verða áfram, þ.e. að strika yfir menn eða annað því um líkt.

Herra forseti. Mig langar örlítið undir lokin bæði að víkja að nokkrum atriðum sem fram koma í umsögnum og eins að starfsaðstæðum þingmanna sem meiningin er að taka til skoðunar samhliða breytingunum af þessu tagi. Þær skipta þarna að sjálfsögðu miklu máli því að starfsumhverfið hefur áhrif á möguleika þingmanna til að rækja skyldur sínar, vera í sambandi við kjósendur sína og þar fram eftir götunum. Í mörgum umsögnum sem komu um þetta frv., sérstaklega þó ákveðnum umsögnum sem borist hafa af landsbyggðinni, t.d. frá samtökum sveitarstjórnarmanna á landsbyggðinni, er hvort tveggja í senn varað við hinum stóru kjördæmum en þó kannski enn þá frekar hamrað á mikilvægi þess að staðið verði við fyrirheit um jöfnunaraðgerðir í byggðamálum. Ég held, herra forseti, að ekki sé löngun til þess af hálfu manna á landsbyggðinni að viðhalda einhverju svokölluðu misvægi atkvæða. Það er ekki svo. Það er ekki eitthvert fyrirkomulag sem menn vilja halda í. Hvers vegna ættu menn líka að gera það því ekki hefur það reynst þeim mjög vel? Er það ekki þannig að sá landshluti sem í mestum erfiðleikum hefur átt, Vestfirðir, hefur einmitt tapað flestu fólki þrátt fyrir það að hafa þetta margrómaða aukna vægi atkvæða? Ef maður nálgast málið þannig þá hefur það ekki orðið mönnum til mikillar blessunar.

[12:00]

Hins vegar vilja menn að um leið og þetta er jafnað sé tekið á öðrum þáttum í leiðinni, af því að það hlýtur að vera alveg jafnsjálfsögð og eðlileg krafa og það er út af fyrir sig að jafna vægi atkvæða, ef það er úr hófi misjafnt, að tekið sé þá á öðrum þáttum þar sem um óverjandi misvægi er að ræða. Það er auðvitað þannig í fjölmörgum atriðum sem snúa að landsbyggðinni. Á þetta er bent í mörgum umsögnum og ég tek undir þau orð og geri þau að mínum.

Og þá að síðustu, herra forseti, þetta með starfskjör og starfsaðstæður þingmanna, sem lengi hafa verið bágbornar. Ég held að í því tilliti verði menn einnig að taka mjög myndarlega á og það snýr bæði að starfsaðstæðum þingmanna hér á þingstaðnum og líka að aðstöðu þeirra og möguleikum til að vera í sambandi við kjósendur sína í kjördæmunum. Ég held að færa þurfi meira af þeim stuðningi sem við þingstörfin er, bæði hér á þingstað og að sjálfsögðu þegar til slíks kemur í kjördæmunum, yfir í persónulegan stuðning við viðkomandi þingmann en ekki við þingflokkana eða stjórnmálaflokkana. Vegna þess að þrátt fyrir allt eru menn kjörnir sem slíkir og við skulum ekki gleyma því að það er og verður sjálfsagt áfram hlutskipti margra þingmanna að vera einyrkjar í sínu kjördæmi. Ég skýt því að í leiðinni að mér finnst það ærið oft gleymast þegar menn ræða um framtíðina í hinum stóru kjördæmum og segja sem svo að þá verði þingmennirnir fleiri og geti skipt með sér verkum. Það getur komið til með að eiga við um einhverja flokka sem fá marga þingmenn í viðkomandi kjördæmi, en eftir sem áður verður það væntanlega svo að í mörgum tilvikum verða menn einyrkjar á sínum akri. Það er erfitt starf og verður auðvitað enn erfiðara eftir því sem kjördæmin verða stærri og víðáttumeiri yfirferðar.

Ég held að það sé þar af leiðandi algjörlega lífsnauðsynlegt að til sögunnar komi stuðningur við þingmenn í kjördæmunum í formi möguleika á að hafa umboðsmenn eða skrifstofur og einhverja starfsemi af því tagi sem geti orðið tengiliður þeirra við kjördæmið og tengiliður íbúa kjördæmisins við þá. Enda er það þannig víðast hvar að menn hafa einhverja slíka aðstöðu og fjárveitingar til slíks.

Hér þurfa einnig að verða breytingar sem lúta að þessu sama, að auðvelda einstökum þingmönnum að rækja sitt starf sem slíkum. Og í leiðinni, herra forseti, þarf að sjálfsögðu að styrkja þingið sjálft. Málið snýst einfaldlega um það að stórauka við þá þjónustu og þann stuðning af þessum toga sem hér er fyrir hendi. Í leiðinni munu menn styrkja þingræðið því að eitt af því sem hefur veikt þingræðið og valdið því að Alþingi er oft á tíðum nánast á hnjánum gagnvart framkvæmdarvaldinu, ráðuneytunum og embættiskerfinu er einfaldlega sú veika staða sem hér hefur verið til sjálfstæðrar efnissöfnunar og vinnslu. Það væri nú fróðlegt fyrir menn að fara yfir það hver aðstaða óbreyttra þingmanna er í stjórnarandstöðu t.d. til að semja flókin lagafrumvörp. Hvert eiga þeir að leita? Hvaða möguleika hafa þeir aðra en að gera það sjálfir á nóttunni? Þeir eru nú ekki miklir. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. veit líklega í hvað hún fer, væntanlega hjá Framsfl. eins og fleiri flokkum. Við skulum bara ræða þá hluti eins og þeir eru að fjárstuðningurinn við stjórnmálastarfsemina hefur farið í rekstur stjórnmálaflokkanna og það gildir um bæði það sem merkt er sérstaklega þingflokkum eða útgáfumálum á vegum stjórnmálaflokka. Aðstoðin við þingmenn sem slíka, hvern og einn, er hverfandi. Þá er auðvitað aðstaða stjórnarandstöðuþingmannanna sýnu verri því ekki hafa þeir aðgang að eða á bak við sig þá möguleika sem geta falist í stjórnarþátttöku og möguleikum á að njóta góðs af vinnu sem er í gangi á vegum ríkisstjórna og ráðuneyta.

Þarna þarf að verða mikil breyting á, herra forseti, og sú breyting á að koma til framkvæmda fljótt þannig að á næsta kjörtímabili geti þeir sem þá verða hér að störfum og verða augljóslega í þeim stellingum, ef þessar breytingar verða, að undirbúa sig undir hina nýju framtíð, að þeir geti gert það með slíkan stuðning sér við hlið. Það er mjög mikilvægt. Þess vegna á að leggja þetta þannig upp að þessar breytingar komi, a.m.k. í einhverjum áföngum, strax til framkvæmda í upphafi næsta kjörtímabils.

Herra forseti. Eins og af þessu má ráða hef ég ákveðna fyrirvara á um efni þessa máls, mikla fyrirvara, neyðist ég til að segja, hvað varðar útfærsluna á kjördæmamörkunum í frv. að kosningalögum en einnig í vissum tilvikum efnislega fyrirvara við ákveðna þætti í stjórnarskrárfrv. og mun ég, þegar til atkvæðagreiðslunnar kemur, ekki treysta mér til að styðja ákveðin atriði sem hér eru á ferðinni og ég fór yfir áðan þó að ég geti að öðru leyti sætt mig við þann ramma sem hér er upp dreginn.