Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 12:11:18 (3491)

1999-02-11 12:11:18# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[12:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst óvarlegt af minni hálfu að kveða upp úr um það að slíkar tillögur hefðu hlotið samþykki, tillögur sem við höfum ekki séð, áður en kjördæmamálið yrði samþykkt sem við formenn stjórnmálaflokkanna og talsmenn höfum ákveðið að skuli ná fram að ganga á þessu þingi, þá finnst mér það óvarlegt að skilyrða það. En tillögurnar þurfa að hafa komið fyrir augu manna hér og það þarf að liggja fyrir að við þær sé víðtækur stuðningur.

Mig langar að nefna eitt atriði og ég vona að ég efni nú ekki til illinda með því vegna þess að við erum að tala um jöfnun atkvæðisréttar. Ég vek athygli á því að stjórnmálaflokkar sem hafa það nú mjög ofarlega á sínu blaði að þegar þeir sjálfir efna til prófkjöra þá búa þeir til hólf og girðingar sem gera það að verkum að atkvæði sem greitt er tilteknum frambjóðanda vegur allt að sex- til áttfalt á við atkvæði sem greitt er tilteknum öðrum frambjóðanda. Þannig að við erum nú kannski ekki eins heilög í þessu eins og við viljum vera láta.