Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 13:10:08 (3498)

1999-02-11 13:10:08# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., Frsm. VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[13:10]

Frsm. stjórnarskrárn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði í lok ræðu sinnar að málið væri meingallað og taldi möguleikana fjölmarga hafa verið á því að skila málinu frá sér í öðru formi en gert var af nefnd sem skipuð var af hæstv. forsrh. og hafði það hlutverk að gera tillögurnar. Mér fannst eftir að ég hafði hlustað á ræðu hans að hann hefði komið inn á mjög marga þætti málsins sem voru hvað mest til umfjöllunar í nefndinni. Það var nú ekki þannig að nefndin hefði ekki farið yfir málið á mjög breiðum grundvelli. Hins vegar, eftir þessa yfirferð og eftir að hafa hlustað á sjónarmið og reynt að stilla saman strengina, varð þetta niðurstaða nefndarinnar. Hins vegar er það svo að það er bara eitt af þeim atriðum sem hv. þm. nefndi og taldi vera stærstu gallana á málinu, það er bara eitt af þeim atriðum sem er í raun bundið í stjórnarskrá og við erum að taka afstöðu til núna en það eru fimm prósentin. Mér fannst hálfpartinn eins og hann segði, eða ég skildi mál hans þannig, að hann væri að tala um að það þyrfti 5% til að fá mann kjörinn. Nú er það ekki þannig. Það er verið að tala um 5% til að eiga möguleika á jöfnunarmanni þannig að það er ekki sambærilegt þegar hann er að miða þetta við önnur lönd. Niðurstaðan varð að hafa 5% þröskuld til að eiga möguleika á jöfnunarsætum en hins vegar geta flokkar fengið mann kjörinn og ég tala ekki um ef boðið er fram í einu kjördæmi án þess að fá 5% atkvæða á landsvísu.