Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 14:36:39 (3505)

1999-02-11 14:36:39# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. talaði um að hann hefði ekki staðið að því að setja álbræðsluhlussu niður á Austurlandi (HG: Af þessari stærð.) af þessari stærð. Hann stóð nú einu sinni að því að reyna að koma kísilmálmverksmiðjuhlussu á Reyðarfjörð en það endaði með vegarspotta út í mýri. En hvaða plata er spiluð á Austurlandi í þessu efni, þá hefur sú plata verið spiluð að það hafi aldrei verið nein alvara í þessum viðræðum. Þessar viðræður hafa staðið yfir og standa yfir og við verðum að vera menn til þess að leiða þetta mál til lykta með jákvæðum hætti. Það vita náttúrlega allir um þær deilur sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um þetta mál og þetta hefur verið mjög rangfært og m.a. með því að tala um 500 þúsund tonna álbræðslu sem er 120 þúsund tonn, sem verið er að tala um.

Erindi mitt upp í þennan ræðustól var að undirstrika mikilvægi þess að horfa til allra átta varðandi atvinnulíf landsbyggðarinnar, en ég hef aldrei gefið yfirlýsingar um það, aldrei, að álbræðsla á Reyðarfirði mundi leysa öll byggðamál á Austurlandi í eitt skipti fyrir öll. Það væri mikilvægur þáttur inn í atvinnulífið á Austurlandi og mundi styrkja annað atvinnulíf í landsfjórðungnum, það er mín skoðun. En að það leysi öll byggðamál á einu bretti á austurhluta landsins, ég hef aldrei haldið því fram. Ég er á mælendaskrá í þessu máli á eftir og kem að byggðamálunum almennt í tengslum við ræðu mína sem ég ætla að flytja síðar.