Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 14:47:18 (3510)

1999-02-11 14:47:18# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. endurtók forsendur að þessari smíð sem hv. þm. ber ábyrgð á í sambandi við kjördæmaskipan í landinu. Um hana erum við algerlega ósammála. Ég tel að sú forsenda sé röng sem nefndin gaf sér og setur sér um sama fjölda þingmanna sem leiðir út í þá ófæru sem hér blasir við varðandi m.a. stærð kjördæma. Hvort það eru þrír þingmenn á Austurlandi --- ég býst við að við ættum inni fyrir fjórum ef miðað yrði við hin gömlu fjórðungamörk og Vestur-Skaftafellssýsla sem svo er kölluð, vestursýslan, yrði lögð til Austurlandskjördæmis, að það væru þá fjórir. Og það tel ég alveg ásættanlegt, alveg áættanlega niðurstöðu.

En að hrekjast út í þann óskapnað sem hér liggur fyrir í hugmyndum um kjördæmi og kljúfa í leiðinni upp Norðlendingafjórðung, eins og gert er ráð fyrir, tel ég vera miklu ófæru sem verið er að stefna í.

Um byggðamálin er ekkert annað að segja en það að mér finnst að þau viðfangsefni sem þar blasa við tali nógu skýru máli til að Alþingi Íslendinga ætti að sjá ástæðu til að taka á honum stóra sínum til að bregðast við því sem þar stefnir í og er einhver stærsta hætta sem blasir við íslensku þjóðfélagi þessi missiri og þolir ekki mikla bið.