Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 14:51:34 (3513)

1999-02-11 14:51:34# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Sjaldan hef ég verið eins sammála hv. síðasta ræðumanni og ég hef verið núna undanfarið korter eða hálftíma og þakka fyrir ágæta ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.

En hins vegar: ,,Þetta, sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.`` Hann fór að tala um byggðamálin töluvert mikið í tengslum við stjórnarskipunarlögin og það frv. sem hér liggur fyrir, og ég hygg að erfitt sé að komast hjá því. Varðandi svör og andsvör þeirra félaga á Austurlandi þá býst ég við að þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson dregur tjaldhæla sína úr jörð komist hann að því að þeir eru einmitt úr áli. En það er nú önnur saga. (HG: Það er ekki víst.) Það er ekki víst, en yfirleitt eru tjaldhælar nú orðið úr áli, nema tjaldhælar hv. þm. séu svo gamlir að þeir séu síðan fyrir ál.

Herra forseti. Ég var ánægður með þessa ræðu og þennan málflutning og fleiri þeirra sem talað hafa hér í dag vegna þess að ég er lítið hrifinn af þessu frv. (Gripið fram í: Mínir tjaldhælar eru úr tré.) Þar kemur einn Skagfirðingurinn sem segir að sínir tjaldhælar séu úr tré, austfirskum eðalskógi.

Herra forseti. Þetta er ekki gamanmál, öðru nær. Mikil alvara er hér á ferðum en ég held að það sé sama hversu lengi við þæfum þetta mál, kjördæmamálið á Alþingi, meiri hlutinn mun koma því fram. Ekki meiri hluti samkvæmt flokkum heldur meiri hluti úr flestum stjórnmálaflokkunum en minni hluti úr öllum stjórnmálaflokkunum er óánægður með hverju fram vindur.

Vafalaust má kalla þetta frv. stór tíðindi, og frv., verði það samþykkt, stórpólitísk tíðindi eins og sumir hv. þingmenn hafa sagt í dag. En hvort það verða góð tíðindi eða ótíðindi fer eftir útfærslunni. Ég get einnig tekið undir það að afar lítið er gert með umsagnir þeirra sem leitað var til. Það kemur ekki fram í umræðunni að afar margir umsagnaraðilar frv. leggjast gegn því, sérstaklega sveitarstjórnarmenn, sveitarstjórnir sem hafa skilað áliti og héraðsstjórnir vegna þess að tillaga um nýja kjördæmaskipan gangi þvert á félagslega uppbyggingu og stjórnarskipan á því stjórnsýslustigi sem er í sveitarstjórnun landsins.

Ástæðan fyrir því að ég er andvígur frv. í allmörgum liðum þess er sú að það flýtir fyrir þeirri þróun að byggðir leggist í eyði, og finnst mörgum sú þróun alveg nógu hröð. Kosningalaganefndin gerði í tillögum sínum ráð fyrir sérstökum hliðarráðstöfunum samhliða þeim miklu breytingum á kjördæmaskipaninni sem hér eru gerðar tillögur um. Ég leyfi mér að vitna orðrétt í frv. til stjórnskipunarlaga, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Með því að breytingar þessar miða að því að draga úr misvægi atkvæða milli landshluta leiða þær óhjákvæmilega til þess að nokkur þingsæti færast frá landsbyggðinni til þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins.`` --- Síðan segir: --- ,,Eðlilegt er að slík breyting leiði til umræðna um vanda landsbyggðarinnar. Í skýrslu nefndarinnar sagði m.a. svo um þessi atriði: ,,Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á skipun kjördæma og úthlutun þingsæta, gefa tilefni til að fjallað verði um hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni. Í því efni má nefna samgöngu- og vegamál, til að mynda örari endurbætur á vegtengingum einstakra byggða við aðalvegakerfi landsins, fjarskiptamál, húshitunarkostnað á hinum svonefndu köldu svæðum, námskostnað vegna framhaldsnáms o.fl.````

Við verðum að treysta því að sú jöfnun aðstöðu sem gefin eru fyrirheit um nái fram að ganga, og á fjárlögum þessa árs eru jöfnunaraðgerðir varðandi námskostnað og orkukostnað komnar fram að hluta til og vil ég með ánægju minnast á það. En miklu meira þarf þó til að koma. Um leið og atkvæðavægið verður jafnað þarf að jafna aðra aðstöðu landsmanna. Ég er þeirra skoðunar að ef fólk sæti við sama borð og væri ekki mismunað eftir búsetu væri allt í lagi að jafna atkvæðavægið til fulls.

Ég hef áður minnst á atkvæðamisvægið sem samfylkingin setti inn í prófkjörin sín í stóru kjördæmunum tveimur hér syðra, þar sem hægri höndin virðist ekki vita hvað sú vinstri gerir. Fólk sem hrópar á jöfnun atkvæðavægis, setur reglur með hólfum og girðingum sem gerir misvægi atkvæða miklu meira en endurspeglast í kosningum til Alþingis. Þetta er því auðvitað frjálst en eftir þessu hljóta menn að taka.

Herra forseti. Þrátt fyrir gáleysistal oft og einatt telja flestir að þingið og þingmennirnir geri nokkurt gagn og starf þingmanna skipti þjóðina miklu máli. Þegar fyrir liggur að þingmönnum af landsbyggðinni muni fækka verulega þá telja margir að misvægið vaxi og aðstöðumunur landsmanna verði meiri. Sú hætta er vissulega fyrir hendi. Þess vegna er þetta svona nátengt byggðamálum eins og hér hefur komið fram í umræðunni í dag. Við verðum því jafnframt að tryggja aðra jöfnun og sé það gert má mín vegna jafna atkvæðavægið til fulls.

Hvað varðar kjördæmaskipanina hef ég verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að eðlilegra væri að fara meira eftir fjórðungunum, Vesturland/Vestfirðir, Norðurland allt, og síðan þrjú kjördæmi, Austurland, Suðurland og Reykjanes, eftir þeim skiptingum sem menn teldu þar eðlilegar.

Eins og sá glöggi og gamalreyndi þingmaður, Ragnar Arnalds, sagði fyrr í dag þá er enn tími til að breyta þessu. Og ég skora á sérnefndina að taka málið aftur inn til skoðunar, fara betur yfir umsagnir umsagnaraðilanna og bregðast við þeim með réttari og sanngjarnari hætti en mér virðist að gert hafi verið eftir því sem kemur fram hér við 2. umr.