Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 15:01:33 (3514)

1999-02-11 15:01:33# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Mér sýnist á öllu að komið sé að lokasennu í þessu stóra máli. Raunar hefur verið afar athyglisvert að fylgjast með framgangi þess og undirbúningi. Þetta mál hefur ekki þróast á stjórnmálaflokka vísu, það hefur að sjálfsögðu verið kynnt í stjórnmálaflokkunum en í raun hefur ekki verið tekið mið af því sem þar hefur komið fram í umræðunni.

Menn hafa sem sagt valið þann kostinn að ná pólitískri samstöðu og það er sú braut sem málið hefur rakið sig eftir. Eins og kom reyndar skýrt fram í umræðunni fyrr í dag, einkum hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, byggist þessi pólitíska niðurstaða á því að samhliða því að fækka alþingismönnum úti á landi sé jafnframt séð fyrir því að stjórnmálaflokkarnir eigi eftir sem áður möguleika á því að fá alþingismenn kjörna á landsbyggðinni. Til þess að það sé hægt þarf tala þeirra að vera af ákveðinni stærð, sex til tíu manns, svo að minnstu flokkarnir eigi sæmilega trausta möguleika á því að fá þingmenn kjörna. Þetta er grundvöllurinn að þeim ásetningi sem felst í þessari tillögugerð.

Nú er það raunar þannig að stjórnmálaflokkar hafa sameinast og vinstri hluti stjórnmálaflokkanna er þannig kominn væntanlega í einn og sama flokk að mestu leyti. Þá er orðið vandséð hver er tilgangurinn með þessum tillöguflutningi. Helst væri hægt að túlka það þannig að þetta eigi að vera eins konar varaskeifa fyrir stjórnmálaflokka sem eiga von á því að koma skyndilega inn í stjórnmálin með möguleikum eitthvað í kringum 10% greiddra atkvæða og að athvarf þeirra geti þannig orðið bærilega tryggt. Í þessu felst þessi pólitíska sátt.

Það sem menn eru að tala um í sambandi við reikningskúnstir af þessum toga og að ekki sé hægt að ná jöfnuði nema með því að stækka kjördæmin og fjölga þingmönnunum er það gríðarlega mikill misskilningur. Hvergi hefur verið sýnt fram á það, og ég hef sjálfur gengið í gegnum þá umræðu að það eru leiðir sem menn hafa til þess að finna jöfnuð með öðrum hætti. Þetta er hins vegar stóra ákvörðunin og fyrir þetta er svo fórnað gömlu kjördæmunum með þann grundvöll sem þau byggja á og þróast hefur núna um áratuga skeið. Ég held að það hljóti að vera öllum sæmilega sanngjörnum mönnum ljóst að farið er fram á ystu nöf og kannski reyndar lengra ef betur er að gáð.

Það sem er líka athyglisvert við þessi mál er að meginmarkmiðið er jöfnun atkvæða. Þess hefur ekki orðið vart að um það væri sérstakur ágreiningur. Þess hefur bara ekki orðið vart. Það er afskaplega óskynsamlegt að setja þennan vítæka ágreining inn í umræðuna þegar verið er að taka ákvörðun eins og með jöfnun atkvæða vegna þess að sú ákvörðun hlýtur auðvitað að blandast umræðunni um þessar ógætilegu ákvarðanir um breytingar á kjördæmaskipuninni.

Upp hafa komið raddir og verið á kreiki um það að hafa allt landið í einu kjördæmi. Sú tillaga hefur ekki fengið hljómgrunn en ég sé ekki mikinn mun á því hvort hálft landið er haft í einu kjördæmi eða allt landið. Mér er alveg ómögulegt að sjá nokkurn sérstakan mun á því. Þessi mörk eru orðin að þeirri stærð að kjósendur í þessum víðfeðmu kjördæmum hafa engin sérstök áhrif á þróun mála innan þeirra. Ekki hefur verið bent á það í þessum efnum hvaða munur sé á þessu tvenns konar fyrirkomulagi að því er varðar stærðarmörkin.

Ég held að alveg sé ljóst að slíku skipulagi fylgi hætta fyrir dreifðari byggðir landsins í þessu tilviki eins og öðrum þar sem einingarnar eru stækkaðar. Ég held að hægt sé að rökstyðja þetta og raunar sanna.

Byggðastofnun hefur tekið sér það fyrir hendur í samvinnu við Háskólann á Akureyri að meta t.d. sameiningu sveitarfélaga, samþjöppun valdsins þar, meta þau áhrif á þróun byggðarinnar og greiningu fjármagnsins eftir að þær breytingar hafa verið gerðar. Ég sé fyrir mér að í þessum efnum hefur hlutur hinna dreifðari byggða veikst. Ég er sannfærður um að það mun koma út úr rannsókninni sem Byggðastofnun hefur hafið undirbúning að í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Þetta gildir alveg eins um þessar stóru byggðir að þar verður þingmannsstarfið miklu veikara en það var áður. Það kemur auðvitað niður á veikari byggðunum, það þarf ekkert um það að spyrja. Menn starfa auðvitað á þeim svæðum þar sem helst er hægt að skila árangri og það er í stærri byggðunum.

Reyndar er athyglisvert við umræðuna alla saman hve viðhorf þingmanna á Alþingi taka mikið mið af landfræðilegri staðsetningu þeirra að þessu leyti. Ég held að það væri góður kostur þegar afstaða manna liggur fyrir og fróðlegur að setja það inn á kort hvar þingmennirnir, sem hafa efasemdir í þessum efnum, eiga kjördæmi og hvar þeir eiga skyldum að gegna. Þá held ég að það skýrist að það eru þingmennirnir í þéttbýlinu, norður á Akureyri og í kringum Reykjavík, sem fyrst og fremst styðja þessar aðgerðir. Í framhaldi af því er fullkomlega eðlilegt að álykta að viðhorfin verði kannski ekkert mjög ólík þegar farið verður að vinna eftir hinni nýju skipan þessara mála.

Vitnað hefur verið til þess, reyndar um langa tíð, sem sérstökum áherslum hjá þeim mönnum sem kallaðir eru ræktunarmenn, þekkja landið sitt og gróður þess og vandamál, að þeir hefji gjarnan störf á jöðrunum þar sem land er í hættu eða eyðing þess á sér stað. Það gera þeir til þess að hindra að eyðingaröflin nái inn á ný svæði og grandi þar því lífi sem fyrir er. Meira að segja er mjög auðvelt að sanna það og það liggja fyrir tölur um það að þar sem byggð fer að gisna á jöðrunum kemur þessi vandi fram síðar þar sem betur er gróið.

Það er t.d. athyglisvert sem kemur fram í athugun sem Byggðastofnun hefur látið gera í þessum efnum að sumir öflugustu kaupstaðirnir sem hafa verið um langa tíð, eins og Höfn í Hornafirði, Egilsstaðir, Húsavík, Sauðárkrókur og Selfoss, sem staðið hafa með miklum blóma, hafa átt frekar í vök að verjast eftir að sveitirnar í kringum þá komust í þann vanda sem allir þekkja. Þannig er sú breyting sem hér er háskaleg í sambandi við byggðamálin í landinu. Hvernig svo þetta púsluspil á sér stað skiptir mig þess vegna ekki neinu sérstöku máli.

[15:15]

Ég var t.d. spurður að því, svo að ég nefni dæmi, hvar ég teldi að vista ætti Austur-Skaftafellssýslu í þessu samhengi. Ef um væri að ræða eitthvert málefni sem væri hægt að taka alvarlega, þá væri auðvitað eðlilegasti kosturinn að Austur-Skaftafellssýsla yrði vistuð í Suðurlandskjördæmi, eins og ég held að það muni heita. En mitt svar var einfaldlega það að fyrir mig skiptir það ekki neinu máli. Það skiptir mig meira að segja engu máli þótt hún væri vistuð með Hornströndum. Þessi kjördæmaskipan er aðferð til þess að koma saman framboðslistum. Í því felst gildi hennar. Stjórnsýslulega hefur hún ekki nokkur minnstu áhrif og geta menn reyndar lagt það niður fyrir sér með því að bera saman aðstæður norður á Siglufirði og svo aftur í Austur-Skaftafellssýslu, t.d. í Öræfum svo að dæmi sé nefnt. Það sér náttúrlega hver heilvita maður að sem einhver stjórnsýslueining getur þetta ekki gengið upp. Ég held að það sé svo að segja sama vegalengd hvora leiðina menn mundu aka, austur um land eða suður, vestur og norður um land til Siglufjarðar. Ég held að það sé svo að segja sama vegalengd.

Þá er að koma að því sem skiptir miklu máli inn í þessa umræðu og er frá mínum bæjardyrum séð langalvarlegasti þáttur hennar. Það vekur reyndar athygli að ekki ber mikið á því í þingsalnum að forræðismenn þeirra tillagna sem eru í vinnslu í byggðamálum fylgist með þessari umræðu. Það stendur þannig á að hæstv. forsrh. á tillögu sem er í umfjöllun í allshn. Alþingis. Svo á forsrh. aðra tillögu sem er í umfjöllun í sérstakri nefnd sem ég held að sé kölluð byggðanefnd forsrh. Þetta er allt nokkuð sérstakt og lítið hefur heyrst af þessari tillögugerð.

Byggðatillaga forsrh. var unnin af stjórn Byggðastofnunar fyrir hans atbeina. Til hennar hefur mikið verið vitnað enda eru þar afar skýr fyrirheit, skýr stefna og skýr fyrirheit. Einhvern veginn er það nokkuð undarlegt að þessi tillaga skuli ekki vera komin fram frá allshn. Og svo er það tillaga forsrh. sem er að því er manni virðist sett fram í tilefni af þessari kjördæmabreytingu. Þessar tillögur verða auðvitað ræddar hér og þá verður auðvelt að fá svör við ýmsum spurningum.

Það vekur satt að segja nokkra athygli að ekki hefur mikið verið leitað eftir upplýsingum frá þróunarsviði Byggðastofnunar í sambandi við þá vinnu sem fer fram um þessi efni. En í framhaldi af eflingu þeirrar starfsemi Byggðastofnunar og í framhaldi af margháttuðum ábendingum sem komu fram við undirbúning og vinnslu byggðatillögu forsrh., þá vöknuðu spurningar sem ekki voru efni til að svara þá.

Nú hefur ýmislegt af því skýrst betur og þar af leiðandi teldi maður ástæðu til þess, m.a. vegna þess að verið er að leitast við að greina ástæðurnar fyrir veikri stöðu byggðanna, að sérstaklega væri farið yfir það sem þar hefur komið fram síðan. Ef á annað borð á að tengja byggðamálin á einn eða annan hátt við kjördæmabreytinguna, þá verður auðvitað ekki komist hjá því að hér verði gefnar skýringar á því hvernig eigi að bregðast við þeim vanda. Annað er alveg útilokað. Í þeim efnum sýnist mér að menn þurfi að taka nokkuð á ef þessi tillögugerð á ekki að vera orðin tóm.

Byggðastofnun mun skýra frá því á morgun t.d. hvernig þróun ríkisútgjaldanna hefur verið á síðustu árum. Það hefur reyndar ekki verið unnið fyrr en fyrir einu ári síðan og nú hefur sams konar skýrsla verið gefin út eða verður gefin út á morgun. Í henni felst nokkur vitnisburður um það hvernig fjármagninu er dreift um landið og þá að sjálfsögðu fyrir atbeina Alþingis og ríkisstjórnar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um það hefur gjarnan verið talað að landsbyggðin væri þung á fóðrum á ríkiskassanum. Það hefur æðimikið verið um það talað. En þegar betur er að gáð þá fara um það bil 70% af ríkisútgjöldunum hingað í þessi tvö kjördæmi en 30% fara í hin sex kjördæmin. Ég hygg að menn hafi ekki gert sér þessar tölur sérlega vel ljósar fyrr en yfir þær hefur verið farið með afar skilvirkum hætti. Það sem hlýtur þó að vekja enn þá meiri athygli er að þessar áherslur eru stórlega að breytast þannig að ef tekin eru síðustu árin og aukning ríkisútgjaldanna á síðustu árum, í þessu tilviki síðustu fjórum árum, þá fer 1/10 af þessari aukningu í landsbyggðakjördæmin sex. Það verður auðvitað ekki sagt að þingmennirnir utan af landi sem stundum eru kenndir við kjördæmapot hafi verið stórtækir í þessum efnum hin síðari ár. 9/10 af aukningunni í ríkisútgjöldunum á fjórum síðustu árum hafa farið til Reykjavíkur og Reykjaness og 1/10 út á landsbyggðina þannig að auðvitað er að ýmsu að hyggja í þessum efnum.

Þetta á sér auðvitað eðlilegar skýringar og þær skýringar eru að fólkið er að flyja búsetu sína til í landinu. Það kostar fjármuni að flytja búsetuna til í landinu. Við hverjum megum við búast í þeim efnum á næstu árum?

Þróunarsvið Byggðastofnunar hefur gert nokkra greiningu á því hver staða og horfur í byggðamálum eru í hinum einstöku landshlutum og hefur í þeim efnum skipt þeim hluta landsins sem Byggðastofnun starfar á í þrjú svæði. Starfssvæði Byggðastofnunar nær yfir um 40% af íbúum landsins og það kemur í ljós að á því svæði sem er talið vera í sæmilega traustu horfi eru 27,8% af íbúum landsins. Á hinum svæðunum tveim, svæði eitt og svæði tvö, búa um það bil 12% þjóðarinnar. En þessir íbúar eru hins vegar dreifðir yfir stóran hluta landsins þegar litið er á það landfræðilega, líklega 70--80%. Þarna á byggðin í vök að verjast.

Þar sem menn eru núna að taka ákvarðanir inn í nýja pólitíska framtíð, breytta kjördæmaskipan með stórlega miklu minna vægi þeirra sem búa á þessum landsvæðum og þar sem fyrirheit liggja hér jafnframt fyrir um hvernig eigi með nýjum áherslum í byggðamálum að tryggja framtíð þeirra, þá verður auðvitað ekki nokkur leið að komast hjá því að fram komi svör um hvað eigi að gera. Annað er ekki mögulegt. Ég minni á að einhverjir af höfundum þeirrar tillögu sem hér liggur frammi, hafa verið að láta að því liggja --- ég held að ég muni rétt að það hafi verið hv. þm. Svavar Gestsson --- að engin leið væri að láta láta tillöguna um kjördæmaskipan ganga fram án þess að þessi mál væru skýrð. Og það vantar auðvitað inn í þessa umræðu. Fyrst þetta er tengt saman á þennan hátt, þ.e. styrking byggðarinnar, aðgerðir til að styrkja byggðirnar og til að breyta kjördæmunum, þá er ekki annað hægt en að það verði skýrt og ákveðið hvað eigi að gera til að þau áform nái fram að ganga. Frá mínum bæjardyrum séð er það það sem út af stendur í þessari umræðu og það er augljóst mál að menn ætla að grípa til aðgerða sem eiga að skila meiru en byggðatillaga forsrh., sem ég kalla svo, og ríkisstjórnin hefur fallist á svo sem kunnugt er. Ég teldi það vera slæman kost. Það hefur jafnvel heyrst hér í umræðunni í dag að forsendan fyrir því að menn gætu stutt tillöguna um breytingar á kjördæmunum væri sú að þessi mál yrðu hvorki skýrð né um þau tekin bærilega trúverðug ákvörðun.