Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 15:48:51 (3516)

1999-02-11 15:48:51# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það stóra mál sem við erum að fjalla um, frv. til stjórnarskipunarlaga, kemur til með að hafa mikil áhrif á stöðu landsbyggðarinnar í framtíðinni. Því er rétt að við skoðum þetta frv. sérstaklega í ljósi þess að á sama tíma og þessar breytingar á stjórnarskipunarlögum liggja hér fyrir þinginu steðjar að landsbyggðinni verulegur vandi sem nauðsynlegt er að glíma við, vandi sem hefur orðið tilefni til sérstakrar þáltill. þar sem saman er kominn besti upplýsingagrunnur um eðli þess vanda sem settur hefur verið saman hér og settar fram margar athyglisverðar hugmyndir um það hvernig glímt verði við þennan vanda.

Það er ljóst að hjá því var ekki komist að jafna vægi atkvæða. Það var orðið brýnt að stíga skref í þá átt og því er það viðfangsefni, sem leyst hefur verið með þeim hætti sem í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga er að finna, lausn á vanda sem var löngu orðið tímabært að taka á. Ég vil því lýsa því yfir í upphafi að ég er í hópi þeirra sem telja að þarna hafi verið brýnt úrlausnarefni og ekki hafi verið hægt að fresta því að taka á því. Hinu er ekki að neita að nokkrar af þeim forsendum sem fram komu í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta sérstaka verkefni undir forustu Friðriks Sophussonar, fyrrv. fjmrh. og varaformanns Sjálfstfl., eru ekki fyllilega þannig að ég hafi sætt mig við þær né heldur talið þær vinna málinu framgang.

Meðal þeirra markmiða sem nefndin setti sér var að gera kosningakerfið einfalt og auðskiljanlegt. Ég er þeirrar skoðunar að niðurstaðan í málinu sé sú að kosningakerfið verði einfaldara og í raun auðskiljanlegra. Það hefur einnig tekist að draga úr misvægi atkvæða. Hitt er svo annað mál að nefndin setti sér sem sérstakt markmið að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi yrði sem jafnastur. Ég hef ekki séð jafnsterk rök fyrir þessu markmiði og nefndin taldi sig hafa og er þeirrar skoðunar að þetta markmið hafi á margan hátt verið afdrifaríkt í tillögum nefndarinnar og leitt til ákveðinna ágalla á tillögunum sem ég mun minnast á hér á eftir.

Nefndin setti sér einnig það markmið að áfram verði jöfnuður milli stjórnmálasamtaka á landsvísu og ég tel að það sé nokkuð tryggt í þessu frv. Að lokum var það markmiðið að þingmönnum yrði hvorki fjölgað né fækkað og er ég sáttur við það í sjálfu sér.

Að því er varðar vægi atkvæða þá var ljóst og hefur verið ljóst lengi að mjög mismunandi var hversu margir kjósendur voru að baki hverjum þingmanni og ástandið orðið óviðunandi í þeim efnum. Ég vil hins vegar aðeins rifja það upp að stundum hafa verið farnar sérkennilegar leiðir til þess að leiðrétta þetta misvægi. Má geta þess sérstaklega að þegar gerð var tilraun til þess að jafna þetta með því að flytja þingmann til höfuðborgarsvæðisins þá gerðist það nú einu sinni þannig að þingsæti var flutt úr Norðurlandskjördæmi eystra, sem þá var á pari, til þess að jafna mismuninn milli Vesturlands og Austurlands og höfuðborgarsvæðisins. Það var mjög sérkennileg aðgerð. Þeir sem nú sitja á þingi verða hins vegar ekki dregnir til ábyrgðar á þeirri sérkennilegu aðgerð því að drög voru lögð að því á síðasta áratug. En svona gerast nú hlutirnir stundum með mjög athyglisverðum og öfugsnúnum hætti.

Það verður oft svo þegar breyting er gerð á vægi atkvæða að kjördæmi sem eru í senn dreifbýliskjördæmi og þéttbýliskjördæmi --- og á það t.d. mjög vel við um Norðurl. e. --- verða á milli vita í þessum efnum. Nú er ljóst að þær hugmyndir sem menn hafa um vægi atkvæða nú og koma fram í þessu frv. leiða til þess að vægi atkvæða á Vestfjörðum verður meira en t.d. í Norðurl. e. Engu að síður er ástandið þannig að stór svæði á Norðurl. e. búa við nákvæmlega sömu vandamál og t.d. Vestfirðir. Þar eru mikil dreifbýlissvæði sem hafa kynnst sama vanda og glíma við sömu erfiðleika og Vestfirðir.

Eftir kjördæmabreytinguna og sameiningu Norðurl. e. og Austurlands er ljóst að ekki verður við minni dreifbýlisvandamál að glíma í því stóra kjördæmi heldur en t.d. í Norðvesturkjördæminu. Engu að síður er niðurstaðan sú að vægi atkvæða í Norðvesturkjördæminu er mun meira en í Norðausturkjördæminu.

Þess vegna vekur þetta spurningar um það hvort ekki hefði mátt leita leiða til þess að sama vægi væri á bak við hvern þingmann í öllum þremur landsbyggðarkjördæmunum. Niðurstaðan hefur hins vegar ekki orðið sú og byggist það m.a. á því hversu stíft var sótt á það að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi væri sem jafnastur. Þess vegna tel ég að þetta markmið hafi verið keypt æðidýru verði. Þegar talað var um kjördæmamörkin þá rákust þau strax á þetta markmið. Með ýmsu móti má segja að það hefði verið afar eðlilegt að sameina Norðurlandskjördæmin í eitt kjördæmi. Flestir innan þessara kjördæma voru þeirrar skoðunar að það hefði verið æskilegt. Það er t.d. af landfræðilegum ástæðum. Segja má sem svo að þau kjördæmamörk sem hafa verið um Tröllaskagann hafi í raun gengið þvert á hefðir og sögu þessa landshluta. Því miður er það nú þannig, hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki, að kjördæmamörkin búa til ákveðna tegund af menningarlegri heild. Þau hafa mikil áhrif á það hvernig menn hugsa um hag síns héraðs. Kjördæmin verða hagsmunaheildir þar sem menn hugsa t.d. með ákveðnum hætti um samgöngumál, um menntamál og heilbrigðismál. Og þau skil sem hafa verið um Tröllaskagann hafa í raun dregið úr samstarfi þeirra sem búa í Norðurl. v. og þeirra sem búa í Norðurl. e. langt umfram það sem eðlilegt er, því að þarna er um að ræða mjög stuttar vegalengdir og frá sjónarmiði sögunnar og hefðarinnar er hefð fyrir því að þessi héruð starfi mjög vel saman. Ég nefni sérstaklega Hólastól. Hólastóll var að sjálfsögðu lengi trúarlegt setur Norðurlands alls og Austurlands en einnig skólasetur fyrir þennan fjórðung allan og sameiginlegt menntasetur Norðurlands. Ég hefði talið mjög æskilegt að nota þetta tækifæri til þess að sameina þessi kjördæmi í eitt.

En þá stangast fljótlega á við þetta þau viðhorf að þingmannafjöldinn í hverju kjördæmi þurfi að vera sem jafnastur. Upphaflegu hugmyndirnar sem nefndin lagði af stað með, um að hluti af Norðurl. v. sameinaðist Norðurl. e. auk Austurlands, tel ég að hafi verið skynsamlegar hugmyndir þegar menn líta einungis á þetta frá því sjónarmiði hvað geti talist eðlileg samstarfsheild innan kjördæmisins. Ég held að sameiginlegir hagsmunir á sviði samgöngumála, menntamála, heilbrigðismála og atvinnumála hefðu gert þetta kjördæmi að mjög æskilegri einingu. Hins vegar var unnið gegn þessum hugmyndum. Þegar upp er staðið þá hygg ég að niðurstaðan sé verri kostur en sá sem nefndin fór upphaflega fram með um hið stærra kjördæmi. Og ég held að það hefði ekki verið ókostur hvað þetta kjördæmi hefði orðið stórt. Það hefði náð frá Vatnsskarði alveg austur að Hornafirði. Það hefði orðið sterkt landsbyggðarkjördæmi. Það hefði af sjálfu sér orðið enn kröftugra mótvægi við höfuðborgarsvæðið en nú er hægt að bjóða upp á og þar hefðu margs konar hagsmunir farið saman. Þetta hefði orðið til þess að styrkja stöðu landsbyggðarinnar í þeirri erfiðu stöðu sem hún er í núna og á allan hátt verið ákjósanlegri kostur en nú er boðið upp á.

Sameining Norðurl. e. og Austurlands er, eins og ég sagði áðan, vænn kostur, en það hefði verið betra að þetta kjördæmi hefði verið stærra. Ég held að það hefði ekki skaðað þessar hugmyndir þótt þingmannafjöldinn í þessu stóra kjördæmi hefði þá verið í samræmi við þann mannfjölda sem þar býr.

Þetta er einn af stærri ágöllunum sem ég sé á þessu máli. Málið er hins vegar þannig vaxið að óhjákvæmilegt er annað en að leita víðtækrar samstöðu um það á Alþingi milli allra flokka. Ég harma það að ekki hafi náðst samstaða um kjördæmamörk. Það er hins vegar svo að þessu verður ekki breytt. Við getum ekki jafnað atkvæðismuninn öðruvísi en að skapa breiða samstöðu um málið og því mun ég fylgja þeim hugmyndum sem hér er að finna í frv. þó að ég hefði sjálfur kosið að mörk kjördæmanna hefðu orðið önnur og að vægi atkvæða í landsbyggðarkjördæmunum öllum hefði verið það sama, vegna þess að ég held að öll landsbyggðarkjördæmin glími við sambærileg vandamál og það séu því engin sérstök rök fyrir því að hafa vægi þingsætanna, þ.e. þann styrk atkvæða sem á bak við hvert þingsæti er, mismunandi eftir landsbyggðarkjördæmunum.