Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:00:53 (3517)

1999-02-11 16:00:53# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SP
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með það frv. sem hér er til umræðu. Hér er um að ræða mál sem pólitísk samstaða hefur náðst um og unnið hefur verið af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þá ber að þakka hæstv. forsrh. fyrir frumkvæði hans í þessu máli.

Ég hygg að það komi mjög skýrt fram í frv. og nál. um hvað þetta mál snýst þannig að ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um það hér og nú. Mig langar þó til að víkja nokkuð að þeim meginmarkmiðum sem frv. byggir á.

Síðast var gerð róttæk breyting á kjördæmaskipan og kosningareglum með stjórnarskipunarlögum, nr. 65/1984, sem breyttu 31., 33., og 34. gr. stjórnarskrárinnar í núverandi horf, og með breytingu á kosningalögum, nr. 66/1984. Tvær meginástæður lágu að baki þessum breytingum. Misvægi atkvæða eftir búsetu kjósenda hafði aukist allmikið frá því kjördæmabreytingin mikla var gerð árið 1959 og einnig skorti á að jöfnuði milli atkvæðavægis stjórnmálaflokka væri náð. Fyrst var kosið eftir þessum nýju reglum árið 1987, síðan 1991 og þá 1995.

Í b-lið 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrár er gert ráð fyrir að átta þingsætum sé ráðstafað fyrir hverjar kosningar til kjördæma og er það gert til að jafna vægi atkvæða eftir búsetu. Þessi regla er svo nánar útfærð í 5. gr. kosningalaga. Eins er að finna heimild í c-lið 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar til að ráðstafa einu þingsæti til viðbótar til jöfnunar atkvæðavægis, það er svonefndur flakkari. Eftir að þetta 9. þingsæti, sem ætlað var til að draga úr misvægi atkvæða eftir búsetu, hafði tvívegis, árið 1987 og 1991, lent í fámennustu kjördæmunum, var þingsætið í raun fest í Reykjavík með kosningalagabreytingunni árið 1995. Einu sinni hefur reynt á þá reiknireglu sem núverandi kosningalög gera ráð fyrir að dragi úr misvægi atkvæða eftir búsetu, þ.e. þegar eitt þingsæti fluttist fyrir síðustu kosningar frá Norðurlandi eystra til Reykjaness. Er það óbreytt í næstu kosningum. En ég vek athygli á þessu atriði við umræðuna því að regla stjórnarskrár og kosningalaga um jöfnun á vægi atkvæða eftir búsetu virkar í raun bara á milli stærstu kjördæmanna. Hún er ákaflega máttlaus, enda segir Þorkell Helgason, stærðfræðingur og helsti ráðgjafi við undirbúning núverandi kosningalöggjafar, í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 23. október 1994, með leyfi forseta:

,,Nokkuð var dregið úr þessu misvægi með breytingunni 1959 en síðan leiddu frekari fólksflutningar á ný til aukins misvægis. Með seinustu endurskoðun stjórnarskrárákvæðanna var stefnt að því að vinda ofan af misvæginu þannig að það yrði a.m.k. ekki meira en það var 1959. Á hinn bóginn var ekki stefnt að fullum jöfnuði. Búferlaflutningar undanfarin ár hafa nú raskað ástandinu enn á ný. Að vísu eru veikburða ákvæði í nýju kosningalögunum sem gera kleift að viðhalda vissu innbyrðis samræmi milli stærstu kjördæmanna þriggja í afli atkvæða.``

Því má segja að ekki hafi verið tekið á því vandamáli sem misvægi atkvæða eftir búsetu er þótt nokkuð hafi verið reynt að lappa upp á reglurnar. Þetta var þó eitt meginmarkmið með breytingunni sem samþykkt var 1984.

Mesta misvægi atkvæða milli einstakra kjördæma er í dag 1:3,55. Ég tel það misvægi allt of mikið og það er réttlætismál að atkvæði allra landsmanna hafi jafnt eða svipað vægi. Óvíða er mismunur meiri en hér á landi í þeim ríkjum sem búa við hlutfallskosningar en ég tel ekki rétt að blanda hér inn í umræðu um einmenningskjördæmi. Það stendur ekki til að taka þau upp hér. Ég hlýt því að fagna þeim tillögum sem nú hafa verið settar fram og svo víðtæk samstaða er um. Með þeim eru sett almenn ákvæði í stjórnarskrá um jöfnun atkvæðavægis milli kjördæma, þannig að atkvæðamunur verði ekki meiri en 1:2. Jafnframt er samstaða um að fela landskjörstjórn að breyta fjölda þingsæta í kjördæmum ef munur milli einstakra kjördæma er meiri en áðurgreint hlutfall. Það er því raunverulega breyting í átt til jöfnunar atkvæða eftir búsetu. Þannig er gert ráð fyrir að kosningalög sjái fyrir að breyting kunni að verða á búsetu í einstökum kjördæmum. Slíkar breytingar hafa ekki áhrif á það almenna markmið stjórnarskrár að misvægi atkvæða eftir búsetu sé sem minnst, og ekki meira en 1:2. Þetta er mjög mikilvægt. Ef hins vegar er vilji til að breyta ákvæðum kosningalaga um kjördæmamörk, eða tilhögun á úthlutun þingsæta, þarf samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða á Alþingi.

Markmið stjórnarskrár um að draga úr misvægi atkvæða einstakra kjósenda er réttlætismál eins og ég hef sagt hér áður. En það er líka pólitískt markmið að draga úr þeirri röskun á búsetu sem hefur átt sér stað og ýmsir hv. þm. hafa einmitt rætt það mál sérstaklega. Allshn. hefur nú til umfjöllunar 230. mál þingsins, sem er þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 og er að vinna í því máli og gefst væntanlega tími til þess síðar á þessu þingi að ræða um það mál, en það er einmitt mjög mikilvægt í þessu sambandi.

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á þau áform er samþykkt frv. gerir ráð fyrir, að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi og hefur athugasemd við það nýlega borist frá borgarráði Reykjavíkur. Ég hef sem þingmaður Reykvíkinga einnig velt þessu fyrir mér og hafði í upphafi ákveðnar efasemdir um þessa tilhögun. Meginmarkmið frv., eins og ég hef áður bent á, er að draga úr þeim mun sem verið hefur á vægi atkvæða kjósenda milli kjördæma. Meginmarkmið frv. fer þannig saman við það brýnasta réttindamál okkar Reykvíkinga og þingmanna Reykjavíkur að auka vægi atkvæða kjósenda okkar. Samþykkt frv. færir okkur þannig nær því marki að veita vali kjósenda í Reykjavík þau áhrif sem þeim ber að hafa með tilliti til fjölda þeirra annars vegar og fjölda og hlutfalls þingmanna Reykjavíkur af þingmannahópnum hins vegar.

Forsenda þess að þessi markmið nái fram að ganga er að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi sé sem jafnastur og að kjördæmin séu nokkurn veginn jafnstór, með tilliti til fjölda kjósenda í hverju þeirra. Enda þótt þær forsendur kosti að Reykjavík verði skipt í tvö kjördæmi er það mat mitt að aukið vægi atkvæða Reykvíkinga verði ekki of dýru verði keypt með því móti.

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að láta þessi sjónarmið koma fram. Ég ítreka að ég fagna því að þetta mikilvæga mál er hér til umræðu og vænti þess að víðtæk pólitísk samstaða náist um það.