Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:29:40 (3521)

1999-02-11 16:29:40# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:29]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur þá fyrir að þegar málið verður reifað í nefndinni og fulltrúar Reykjavíkurborgar gera grein fyrir sínum óskum um að nefndin breyti frv. í þá veru að Reykjavík verði aðeins eitt kjördæmi, að þingmaðurinn mun segja, ég er á móti þeirri tillögu. Eða mun þingmaðurinn segja eitthvað annað? Það er það sem mér finnst enn ekki vera alveg ljóst, af tveim ræðum hv. þm., þar sem hann segir í öðru orðinu að hann standi að tillögunum sem eru fluttar en í hinu orðinu segir hann að hann taki undir sjónarmiða fulltrúa Reykjavíkurborgar og leggi til að þau verði rædd í nefndinni.

Til hvers á að ræða sjónarmiðin ef þingmaðurinn er þeirrar skoðunar að ekki eigi að breyta frv.? Ég get því ekki annað en fengið það út að þingmaðurinn er að leggja áherslu á að tekið verði meira tillit til sjónarmiða fulltrúa Reykjavíkurborgar, sem sé þeirra að Reykjavíkurkjördæmið verði eitt en ekki tvö.

Það er gott og vel, ég skal ekki hafa neina skoðun á því. En ég segi að ef það er gert fellur brott sú forsenda sem menn hafa haft til þess að breyta kjördæmamörkum að öðru leyti. Ég vek athygli á því, sem ekki kemur fram í nál. stjórnlaganefndarinnar að enginn á Vestfjörðum hefur beðið um þessar tillögur. Ég veit ekki um neinn sem styður þær. Samt eru þær fluttar.

Fyrir hvern er þessi nefnd að vinna? Ekki fyrir Vestfirðinga, svo mikið er víst. Vestfirðingar gera sér nefnilega grein fyrir því að verið er að rýra áhrif þeirra á Alþingi án þess að færa þeim einhvern hluta af valdsviði Alþingis heim í hérað sem væri hin eðlilega breyting samhliða rýrnandi aðstöðu þeirra inni á þessum vettvangi. Hins vegar er bara gert annað, að minnka áhrif þeirra á Alþingi en ekki breytt stöðu Alþingis að öðru leyti.

Þess vegna eru þessar tillögur algjörlega óásættanlegar fyrir fulltrúa í minni kjördæmum landsins.