Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:36:07 (3525)

1999-02-11 16:36:07# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um afstöðu mína í þessu máli og þá kannski fyrst og fremst að ítreka sjónarmið sem ég gerði grein fyrir við fyrri umræðu málsins. Þegar á heildina er litið tel ég þetta vera vanhugsaðar hugmyndir sem hér eru settar fram, en okkur er sagt að þær byggi á pólitískum þrýstingi sem verði að láta undan. Þar er efst á blaði umræðan um misvægi atkvæða sem svo er nefnt, og hafa menn bent á í því sambandi að þar sem misvægið er mest á milli suðvesturhornsins annars vegar og Vestf. og Norðurl. v. hins vegar sé misvægi atkvæða 1:4.

En það er til annars konar misvægi í pólitíkinni, misvægi aðstöðunnar. Fólk á landsbyggðinni hefur lakari stöðu og erfiðari gagnvart stjórnsýslunni og hinu pólitíska valdi en þeir sem búa á þéttbýlissvæðinu. Og það má segja að í núverandi kjördæmaskiptingu sé reynt að vega þetta misvægi upp að nokkru leyti.

Nú er það svo að stjórnmálamenn í ýmsum kjördæmum fjarri Reykjavík hafa haft þverpólitískt samstarf sín í milli til að beita sér fyrir hagsmunamálum í sínu kjördæmi og finnst mér það oft hafa verið til góðs, mér finnst það vera jákvætt. Það er stundum talað um slíkt samstarf á niðrandi hátt, talað um kjördæmapot í því samhengi, og það kann vel að vera að stundum sé um slíkt að ræða en þegar á heildina er litið tel ég það gott að þingmenn í kjördæmum fjarri Reykjavík hafi samstarf sín í milli hvað þetta snertir.

Það er annað sem hefur líka hjálpað kjördæmum fjarri Reykjavík, það er sú staðreynd að það sjónarmið hefur verið ríkjandi til skamms tíma hjá mörgum þingmönnum Reykjavíkur að líta fyrst og fremst á sig sem þingmenn landsins alls, þjóðarinnar allrar, og það er ekki fyrr en nú á allra síðustu árum að breyting hefur orðið á þessu og menn eru að rækta það viðhorf með sér að þeir séu sérstaklega kjörnir sem þingmenn Reykjavíkur. Það er þetta tvennt sem er að gerast, annars vegar sá þrýstingur að dregið verði úr misvægi atkvæða og síðan hitt að hér á suðvesturhorninu er afstaða manna að breytast, að einnig þeir vilja vera kjördæmaþingmenn og líta á sig sem slíka. Og þá vilja menn breyta.

Hér eru til umræðu þær tillögur sem liggja fyrir. Þær gera ráð fyrir því að dregið verði úr misvægi atkvæða og kjördæmin verði stækkuð verulega. Ég tel að með því að stækka kjördæmin glatist margt af því jákvæða sem tengist núverandi fyrirkomulagi. Tengslin við kjósendur, t.d. í kjördæmum eins og Vestfjörðum, verði ekki eins sterk og þau voru áður þegar allt Vesturland heyrir kjördæminu til. Þessi tengsl milli þingmanna og kjósenda verða ekki eins mikil og áður var.

Þá er spurningin hvort ekki þurfi að huga að einhverjum öðrum leiðum til að skapa þessi tengsl eða stuðla að því að menn sitji við sama pólitíska borð í landinu öllu. Ég er fylgjandi þeirri hugmynd sem fram hefur verið sett og m.a. talað hefur verið fyrir af hálfu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, að landið allt verði gert að einu kjördæmi. Að skrefið verði stigið til fulls og landið verði gert allt að einu kjördæmi en samfara þeirri breytingu eigi sér stað aðrar í stjórnkerfinu og komið verði á eins konar fylkjafyrirkomulagi sem færi vald og áhrif og ráðstöfun fjármuna til einstakra landshluta. Þetta er afstaða mín í grófum dráttum, að ef á annað borð á að ráðast í breytingar á kosningafyrirkomulaginu þá eigi að stíga miklu stærri skref og ráðast í róttækari breytingar en hér er gert ráð fyrir, gera landið að einu kjördæmi og innræta öllum alþingismönnum þá hugsun að þeir séu þingmenn fyrir Ísland allt, alla landsmenn, en jafnframt verði gerðar stjórnkerfisbreytingar sem tryggi aukin áhrif heim í héruð.

Tvennt annað vil ég minnast á. Það er sú tillaga að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi sem mér finnst aldeilis fráleit hugmynd. Menn hafa verið að reyna að réttlæta hana á reikningsfræðilegum forsendum, það má vel vera að það sé hægt, til að skýra reikningsmódelið eða undirstöðu þess, en pólitískt er þetta gjörsamlega óskiljanlegt. Og þegar menn segja að með því móti geti þeir sinnt kjósendum sínum betur, þá spyr ég: Á hvern hátt sinna menn kjósendum sínum? Menn fara væntanlega á vinnustaði, er það ekki það sem menn gera? Ekki fara menn heim til fólksins? Menn fara á vinnustaði. Og fólk sem vinnur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eða Rafmagnsveitunum eða hjá Eimskipafélaginu eða í Hagkaup, svo nokkrir vinnustaðir séu taldir upp, býr úti um allan þennan bæ og reyndar í grannbyggðunum einnig. (Gripið fram í.) Ég skil því eiginlega ekki hvaða rök búa að baki þessari hugsun, að menn geti sinnt betur sínu kjördæmi. Ég skil það þegar um er að ræða kjördæmi sem eru fjarri Reykjavík, að þar þurfi að sinna kjördæminu, almennum hagsmunum þar, en þegar komið er inn fyrir borgarmúrana þá er þetta óskiljanleg ráðstöfun og mjög heimskuleg og fráleit.

[16:45]

Það er að lokum eitt atriði sem mér finnst alvarlegt og ástæða til að skoða rækilega og það er sú staðreynd að með þessum lagabreytingum er reistur stór þröskuldur við aðaldyrnar að Alþingishúsinu. Enginn flokkur sem fær undir 5% atkvæða mun fá fulltrúa kjörinn á þing. Ég spyr nú þá sem eru svo uppfullir af áhyggjum yfir misvægi atkvæða, yfir því að atkvæði vegi ekki jafnþungt alls staðar í landinu: Hvers eiga þeir 9.500 kjósendur að gjalda sem vega ekki neitt, ekkert?

Það eru um 195 þúsund kjósendur hér á kjörskrá. Flokkur sem fengi tæplega 9.500 atkvæði, hann fengi engan mann kjörinn á þing. Hafa menn engar áhyggjur af þessu misvægi? Eða skiptir þetta fólk engu máli?

Á Vestfjörðum eru nú um sex til sjö þúsund kjósendur, um sex þúsund kjósendur sennilega. Ég man ekki töluna. Þeir eru miklu færri en þeim sem nú verður vísað út í kuldann. Mér finnst þetta vera mjög vanhugsað.

Ég er vægast sagt mjög hissa á því, fyrst á annað borð er verið að ráðast í breytingar á kjördæmaskipan, að menn skuli gera þetta með þeirri hálfvelgju sem hér er á ferðinni. Ef menn ætla að breyta þá á að stíga miklu stærri skref en hér er gert, gera landið að einu kjördæmi og færa vald út til einstakra landshluta.

Hins vegar mun ég sofa alveg rólega þótt við búum áfram við það fyrirkomulag sem við búum við nú. Þótt einhvers staðar kunni að leynast eitthvert misvægi atkvæða þá er að finna slíkt misvægi í aðstöðu fólks eftir því hvar það býr á landinu að þar er að mínum dómi á ferðinni miklu alvarlegra mál en hitt.

Að lokum þetta: Mér finnst það algerlega óásættanlegt að Alþingi vísi 9.500 kjósendum á dyr.