Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:01:02 (3527)

1999-02-11 17:01:02# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:01]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég var einn af þeim sem voru ekki yfir sig hrifnir af þeim tillögum sem lágu fyrir í kjördæmamálum þegar þær voru lagðar fram og sú hrifning mín og álit mitt á þeim hefur ekki breyst ýkja mikið. Eigi að síður vil ég taka fram að ég hef gengið til þessa leiks og reynt að hafa áhrif á tillögurnar og þær hafa verið lagaðar í veigamiklum atriðum, sem ég tel mikilvægar, og m.a. þau atriði sem voru áherslumál á Austurlandi, að skipta ekki kjördæminu, það hefur verið tekið tillit til þeirra.

Í flokki mínum eins og öðrum hafa kjördæmamálin verið mjög umrædd og fyrir okkur lá það verkefni að ná samkomulagi um þetta mál og jafna vægi atkvæða, við höfum flokksþingssamþykktir um að gera það, og mikil áhersla hefur verið lögð á það. Það nál. sem hér liggur fyrir er niðurstaða og það er samkomulag og ég tel þetta samkomulag það ásættanlegt að ég skrifaði undir nál. þótt ánægjan sé auðvitað blandin. Út úr þessu koma afar stór kjördæmi eins og hér hefur verið rakið og mér finnst þeir sem hafa hrópað húrra fyrir því í umræðunni vanmeta nokkuð hvernig hægt er að sinna þeim kjördæmum sem eru landfræðilega svona stór. Kannski er hægt að virða fólki til vorkunnar þó að menn átti sig ekki á því. Sem dæmi um hvernig þingið lítur á þetta samgöngulega séð hefur það verið hefð í mörg ár að gera þinghlé í janúar og ætla þingmönnum að fara þá í kjördæmi sín til fundarhalda á þeim tíma sem veður eru vályndust og oft er erfiðast að ferðast um. Ég ætla ekki að rekja það hér en áreiðanlega kunna margir þingmenn í stærstu kjördæmunum ýmsar sögur af erfiðleikum á ferðum sínum.

Rætt hefur verið um að vægi atkvæða sé jafnara hér en í nágrannalöndunum. Það er alveg ljóst að svo er víða þó að hægt sé að halda langa ræðu um fyrirkomulag þessara mála og algjör jöfnuður atkvæða sé alls ekki reglan, síður en svo. Það hagar nefnilega þannig til í þessu landi að höfuðborgarsvæðið er miklu fjölmennara og höfuðborgin er miklu fjölmennari hlutfallslega en í nokkru öðru landi sem við berum okkur saman við. Þess vegna stöndum við í þessum vanda. Aðalatriðið er að reyna að snúa þessari þróun við. Ef hún snýst ekki við þá verður náttúrlega það verk hérna, sem verið er að timbra upp núna í hv. Alþingi, að byggja einhverja skúra við það innan tíðar. Þá hættir ekki þessi umræða um jöfnun atkvæða.

Ég tel eðlilegt að upp komi umræða um byggðamál í tengslum við þetta mál. Það er nokkur byggðamálaumræða í hv. Alþingi og það er ekki að ófyrirsynju, hún þarf að vera. Það er ekki nóg að tala, aðgerðir þurfa að fylgja þeim ræðuhöldum.

Í allshn. er núna unnið að till. til þál. um aðgerðir í byggðamálum. Þar eru mörg góð markmið í þeim málum. Þegar hefur verið lagt fjármagn til sumra þeirra markmiða sem þar eru talin, eins og jöfnunar húshitunarkostnaðar og námskostnaðar og framlög til atvinnulífsins. En betur má ef duga skal. Það er því ekki óeðlilegt að áður en umræðunni um þessi mál lýkur að fyrir liggi afgreidd tillaga í byggðamálum, sú sem er til meðferðar í allshn., og fyrir liggi tillögur þeirrar nefndar þingflokkanna sem skipuð var í tengslum við þetta mál. Ég endurtek að ekki er óeðlilegt að þingmönnum landsbyggðarinnar séu byggðamál hugstæð því að ef sú þróun heldur áfram, t.d. næsta áratug, sem verið hefur síðasta áratug þá blossar umræðan um vægi atkvæða upp áfram og þetta verk verður ekki eins langlíft eins og annars yrði.

Nokkur umræða hefur komið upp um að óráð sé að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi. Ein af forsendunum sem nefndin, sem vann að þessu upphaflega, gaf sér var að reyna að hafa kjördæmin svipuð að fólksfjölda. Ég tel að það sé nú orðið of seint að fara að breyta því þegar málið er komið á þetta stig. En ég vil segja það að varðandi ræðu hv. 17. þm. Reykv., sem vildi ekki sjá á vinnustaðafundum sínum fólk utan kjördæmanna, að við höfum yfirleitt ekki verið að velta því fyrir okkur, jafnvel þingmenn landsbyggðarinnar í hinum stóru landsbyggðarkjördæmum, hvort eitthvert fólk utan kjördæmisins hafi slæðst inn á vinnustaðafundi. Á fjölmennum vinnustöðum gæti verið eitthvað töluvert af fólki úr Reykjaneskjördæmi og ég held að það þurfi ekki í sjálfu sér að trufla. En ég tel það of seint að fara að rugga þeim bát núna með viðræðum um að hafa Reykjavík eitt kjördæmi. Það samkomulag sem hefur skapast byggist á þeirri tillögu sem nú er til umræðu.

Ég endurtek það og það er í rauninni aðalerindi mitt að leggja inn í umræðuna, 2. umr. málsins, að ég hef gengið til þessa leiks, gengið til samkomulags vegna ákveðinna breytinga sem gerðar voru á málinu og mun styðja það, þó að ég væri ekki hrifinn af því í upphafi. Ég tók frekar þann pól í hæðina, ef svo má segja, að reyna að hafa áhrif og einangra mig ekki í því að hafa þau ekki. Ég vil hvetja til þess að mótaðar tillögur í byggðamálum af þeim vettvangi sem þau eru til umræðu núna á vegum Alþingis, á vegum allshn. og þingflokkanna, verði mótaðar áður en við slítum Alþingi í næsta mánuði í síðasta skipti á þessu kjörtímabili.