Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:41:54 (3534)

1999-02-11 17:41:54# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:41]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú finnst mér þingmaðurinn gera einmitt það sem ég var að nefna í ræðu minni áðan, þ.e. blanda saman tveimur málum sem eru auðvitað ekki óskyld en þurfa ekki að hafa áhrif hvort á annað. Mér finnst hann vera að gera allt of mikið úr hlutverki þingsins. Þó að þingið hafi ákveðin áhrif og setji lög þá ræður það ekki öllu um mótun samfélagsins. Þingið stjórnar ekki atvinnulífinu í landinu. (Gripið fram í: Þingið setur lög.) Það er ekki þingið sem ákeður tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, þó það geti reyndar haft ákveðin áhrif á hana.

Það er verið að blanda saman tveimur hlutum, annars vegar þeirri þjóðfélagsþróun sem er að eiga sér stað og m.a. felst í því að fólk flytur úr dreifbýli í þéttbýli, og hins vegar því hvernig fólk velur sér fulltrúa. Það er alveg skýrt í mínum huga að meiri hluti þjóðarinnar á að velja sér meiri hluta fulltrúanna. Þetta er spurning um það að fólk velji sér fulltrúa.

Mér finnst hv. þingmenn hafa mikla ofurtrú á því hvað Alþingi geti gert til þess að breyta þeirri þjóðfélagsþróun sem á sér stað og hefur átt sér stað gríðarlega lengi, eins og ég benti á í ræðu minni áðan. Við erum að tala um áratuga breytingar, breytingar á byggðaþróun sem eiga sér miklu dýpri rætur og hafa meira að gera með tæknibreytingar og þróun atvinnulífsins en nokkrar þær ákvarðanir sem teknar hafa verið á Alþingi. Enda má segja að ef við horfum aftur til tíma Jónasar frá Hriflu t.d. þegar menn voru að reyna að stöðva þróunina þá, að það er alveg sama hvað hefur verið gert, ekkert hefur getað stöðvað þessa þróun. Það hefur kannski tekist að hægja á henni, ég þori ekki að fullyrða það, en löggjafarvaldið ræður sáralitlu um þessa þróun.