Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:46:43 (3537)

1999-02-11 17:46:43# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnast þau viðbrögð eðlileg sem hafa komið fram á landsbyggðinni í þessu máli, þ.e. að tengja umræðuna um misvægi atkvæða við hin mismunandi búsetuskilyrði í landinu. Ég vil leyfa mér að hafa þá skoðun að skilja þau viðbrögð fólks á landsbyggðinni.

Hv. þm. sagði áðan eitthvað á þá leið að löggjafarvaldið hefði ekki vald á byggðaþróuninni með lagasetningu. Að miklu leyti er þetta rétt. En að hinu leytinu vil ég halda því fram að lagasetning Alþingis geti auðvitað skipt mjög miklu máli varðandi byggðaþróun, þó svo að það sé fjarri því að það sé kannski afgerandi þáttur eða skipti mestu máli. En t.d. setning fjárlaga hlýtur að skipta máli og fjölmargra annarra laga sem Alþingi samþykkir og getur haft vítæk áhrif á byggðaþróun. Það er skoðun mín. Hins vegar tek ég fram að auðvitað eru fjölmargir aðrir samverkandi þættir sem hafa þarna mikil áhrif og ég held að við séum sammála um það.

En ég vildi koma inn í umræðuna með því að leggja áherslu á þá skoðun mína að lagasetning á Alþingi getur skipt miklu máli í þessum efnum. Alþingi á auðvitað að skapa almenn skilyrði líkt og --- af því það er tekið hér dæmi af atvinnulífinu --- þá á auðvitað að skapa almenn skilyrði þó svo að hið opinbera eigi kannski ekki að vera að standa mikið í atvinnustarfsemi beint. En það sama gildir í þessu. Ég tel að löggjafinn eigi að tryggja eins og hægt er að fólk alls staðar á landinu búi við svipaðar búsetuaðstæður.