Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:51:12 (3539)

1999-02-11 17:51:12# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Þegar komið er að lokum 2. umr. um þetta stærsta mál þessa vetrar, sem mun hafa mjög mikil áhrif á margt í landinu vil ég segja örfá orð. Auðvitað er maður ekki fullkomlega sáttur við það mál sem fyrir liggur. Ég geri mér þó grein fyrir því að hér er samkomulag sem hefur náðst á milli stjórnmálaflokkanna sem verður í litlu breytt þó það kunni svo að fara eftir næstu alþingiskosningar að menn muni skoða þetta mál frekar.

Hér hefur það verið svo, á milli þess sem mikið hefur verið rætt í umræðu höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, að það hefur verið orðin nokkuð jöfn skipting á milli þingmanna eða 31 kosinn í Reykjavík og Reykjanesi en 32 úti á landi. Þess vegna er það nú kannski svo, þegar ég lít til baka yfir þá vinnu sem hér hefur farið fram, að mér finnst að þar höfum við, þeir sem hafa viljað halda fram hag landsbyggðarinnar, ekki gáð nógu vel að sér vegna þeirrar nefndar sem skipuð var. Hún er að mestu skipuð fólki sem býr hér á þessu svæði og hefur verið kjörið hér árum saman.

Ég nefni þetta fólk, þar fór fyrir liði Friðrik Sophusson og þar hafa setið í nefndinni hv. þm. Geir H. Haarde, Valgerður Sverrisdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Svavar Gestsson, Guðný Guðbjörnsdóttir. Allir þessir þingmenn koma af þessu svæði nema hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Þarna hefði þurft að vera jafnari skipting á milli þeirra átaka sem hafa verið ljósust í umræðunni um málið þannig að sterkari sjónarmið hefðu þurft að koma fram.

Hér hefur því verið velt fyrir sér: Hvað er lýðræði, hvað eru lýðréttindi? Er það bara lýðræði að jafna kosningarrétt? Er það eini lýðræðisrétturinn sem fólk á að jafna kosningarrétt? Ég geri mér grein fyrir því að menn urðu að stíga skref í þessu efni en við getum velt fyrir okkur hvað er lýðræði, hvað er lýðræðisréttur.

Í orðabók segir að lýðræðisréttindi séu réttindi almennings, almenn þegnréttindi. ,,Lýðræði, stjórnarfar þar sem almenningur getur með (leynilegum) kosningum haft úrslitavald í stjórnarfarsefnum; réttur og aðstaða einstaklinga og hópa til að láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni.`` Við skulum velta því fyrir okkur smástund: Eru allir Íslendingar jafnir gagnvart þessum miklu réttindum? Stöndum við jafnt að vígi hvað þau varðar? Ég spyr: Eru það lýðréttindi, eru það mannréttindi að geta á einu korteri skotist niður í Alþingishús og hitt þar flesta ráðamenn þessarar þjóða, haft áhrif á þá, kostað ekki krónu til? Eru það lýðréttindi að geta á einu korteri skroppið niður í háskóla, stundað þar nám eða hitt fólkið sem er þar? Eru það lýðréttindi að geta á einu korteri farið í hvert einasta ráðuneyti þar sem völdin liggja, þar sem sterkustu völdin liggja?

Ég vil vekja athygli á því að Alþingi Íslendinga kostar ekki fjárhagslega meira en svo að það er jafndýrt í rekstri og yngsta ráðuneytið, umhvrn. sjálft. Það eru ekki meiri peningar lagðir í það mikla lýðræði sem Alþingi á að fylgja en sem nemur umhvrn. einu.

Eru það lýðréttindi og mannréttindi að geta á einu korteri skroppið niður á Borgarspítala eða Landspítala og þannig má áfram telja?

Auðvitað er það svo að þeir sem búa hér búa við mikil mannréttindi, mikil lýðréttindi, þeir geta haft mikil áhrif á þá menn sem með mest völd fara. Og ég segi hér úr þessum ræðustól, sem betur fer þá er það svo að það eru margir fleiri menn og þeir skipta hundruðum sem fara með miklu meiri völd en alþingismaðurinn. Það eru margir valdamenn á þessum bletti hér á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa verið staðsettir af mannavöldum, hugsun þeirra hefur í mörgum tilfellum í seinni tíð miðast við Ártúnsbrekkur, teygjast núna kannski aðeins í Kjósina, teygjast núna kannski aðeins upp í Kjós. (Gripið fram í: En útgerðarmennirnir í Vestmannaeyjum og á Akureyri?) Auðvitað eigum við sem betur fer sterka útgerðarmenn og við eigum sterka valdamenn á landsbyggðinni í gegnum atvinnulífið.

En við búum við þá aðstöðu þar að við verðum að velta fyrir okkur við þessar miklu breytingar hvaða áhrif hefur sú kjördæmaskipan sem við erum nú að festa í sessi, á mannréttindi, á aðstöðu manna til að þekkja og hafa náin kynni af þeim mönnum sem munu sitja hér í framtíðinni. Erum við að taka þau mannréttindi af alþingismönnum með þessari breytingu að þeir geti sinnt starfi sínu sem þeir hafa tamið sér margir hverjir og þeim ber að gera? Þessu öllu velti ég fyrir mér og ég sé að við erum með landfræðilega geggjun í stærð kjördæmanna.

Allir sjá það á þessari mynd að Norðausturkjördæmið er slík landfræðileg stærð að mjög erfitt verður að sinna þeim mannlegu tengslum sem flestir þeir núverandi þingmenn sem þar hafa starfað hafa tamið sér. Sama má segja um Norðvesturkjördæmið. Ég segi Suðvesturkjördæmið, sem ég kem úr og bætist við Suðurnesin, að það raskar ekki svo mjög stöðu okkar. En ég býst við því að þessari breytingu muni t.d. fylgja að það komi samgöngubót, suðurstrandarvegur, sem mun hafa áhrif til bóta hvað þetta varðar. Þó ég líti ekki á hann sem þingmannaveg er hann vegur til þess að sinna því mikilvæga hlutverki sem kjördæmin hafa haft og hér hefur komið fram í dag og hefur verið sagt af fleirum en mér, að þau hafa auðvitað byggt sig upp í félagslegum tilgangi, þau hafa haft samvinnu um mörg málefni og á 40 árum hafa þau þróast í ákveðna átt og eru nokkurs konar hagsældarumdæmi.

[18:00]

Ég vil líka vekja athygli á því að löngu er búið að jafna atkvæðavægi á milli flokka. Það er t.d. ljóst að á þessu kjörtímabili eru flest atkvæði á bak við hvern þingmann Framsfl. Hvað þetta varðar hefði hann átt næsta mann inni í síðustu kosningum ef ég man rétt.

Ég tel að inn á Alþingi Íslendinga séum við að kjósa menn til að sinna ákveðnum skyldum, skyldum við fólk, ég tek undir það. Þær eru ekki bara við fjöll og dali, þær eru við fólk, frá þingmanni til fólks og að hann sé það lýðræðislega og félagslega sinnaður að hann komist ekki upp með að verða eins og blóm í glugga sem þróast í eina átt sé því ekki snúið. Sem enginn hefur áhuga á að hafa samband við og hann hefur ekki áhuga á því að hafa samband við neinn. Því miður óttast ég samt að þróunin geti orðið sú að hér verði þverslaufumenn í vaxandi mæli sem telja sig búna til þess að hafa vit á öllum hlutum án þess að þurfa að sækja vald eða umboð til eins eða neins.

Ég óttast líka að sú stund fylgi breytingunni að það verði svo að peningar og auglýsingaskrum og jafnvel auglýsingastofur muni héðan í frá ráða meiru um það hverjir sitji á þingi í framtíðinni. Við sjáum þessa þróun fyrir okkur í stóru kjördæmunum. Þessi stóru landsbyggðakjördæmi verða þessu lík, það verða peningar, það verða auglýsingastofur sem munu hafa meiri áhrif héðan í frá.

Hér hafa menn rætt mikið um lýðræði. Menn samfylkingarinnar, sem telja sig orðið einn flokk, hafa farið fremstir í fylkingu og talið að vægi atkvæða sé hið brennandi mál. Hvernig hafa þeir farið að í prófkjörunum sínum? Er það lýðræði eða jafnt vægi atkvæða? Þeir hafa setið mánuðum saman á ryðbrunnum stólum við að finna út hvernig eigi að setja girðingar, hvernig eigi að búa til hólf, hvernig eigi að taka mannréttindi af einum og bæta öðrum þau upp. Síðan hafa þessar kosningar farið þannig að maðurinn sem lenti í tíunda sæti er kominn upp í þriðja og maðurinn sem lenti í þriðja er kominn í fimmta og þannig hefur þessi lýðræðislega fylking útdeilt réttlætinu og látið sig lítt varða vægi atkvæða en þykist svo vera einn flokkur þegar upp er staðið. (Gripið fram í.) Þannig hefur þetta þróast í þessum nýju samtökum samfylkingarinnar sem segist bjóða fram sterkasta afl í næstu kosningum. Þetta var lýðræði þeirra prófkjara og þannig skiptu þeir með sér þessum miklu mannréttindum sem þeir tala um að þurfi að viðhafa.

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað ég á að lengja mál mitt. Við hefðum auðvitað getað átt ýmsa aðra möguleika. Hér hafa hv. þingmenn minnst á landið sem eitt kjördæmi. Ég er ávallt hræddur við eitt vald og flokksræðið hefur reynst illa í hvaða landi sem það hefur fengið að þróast og dafna. Flokksræðið má aldrei ríða lýðræðinu að fullu. Það er nú svo að með landið sem eitt kjördæmi óttast ég að það verði vald flokksræðisins að ákveða hverjir sitja á Alþingi Íslendinga. Þess vegna sé ég ekki landið fyrir mér sem eitt kjördæmi.

Auðvitað tek ég undir það með mörgum hv. þingmönnum að mér finnst að hægt hefði verið að skoða marga möguleika til viðbótar og þeir verða auðvitað skoðaðir í framtíðinni og það eru þeir möguleikar sem margar lýðræðisþjóðir hafa farið að fólk eigi ekki bara þess kost að kjósa flokk heldur geti það jafnframt kosið menn og kosið sér menn af öðrum lista en þeir velja sér flokk þannig að það eru margar leiðir sem hefði verið hægt að fara í þessum efnum. Svo hefðum við líka getað velt þeirri leið fyrir okkur að að kjósa einhvern hluta þingmanna af landslista, aðra úr kjördæmum o.s.frv. Við hefðum líka getað velt því fyrir okkur hvort réttara væri að skipta málstofunni aftur upp í tvær. Ég þekkti gömlu efri deild. Ég man eftir hagræðingartalinu og hinum markvissu vinnubrögðum sem áttu að fylgja Alþingi í einni deild. Þegar ég með framsóknarminni mínu hugsa aftur í tímann finnst mér stundum síðan þessi breyting varð séu færri alþingismenn að störfum í þessu húsi en áður var.

Mér finnst líka stundum þegar ég hugsa til baka að ráðherravaldið, framkvæmdarvaldið, að hæstv. ráðherrar hafi sterkari tök til að ryðja málum sínum áfram eftir að þingið varð ein málstofa. Enginn vafi er að það var oft svo að síðari deildin fann ýmislegt í málum sem hafði yfirsést í hinni deildinni o.s.frv. Þetta var því ekki alls kostar slæmt lýðræði. En ég geri mér grein fyrir því að eftir breytinguna hefur þingið verið að þróast og ég er sannfærður um að með breytingum á þingsköpum sem rætt er um í frv., ef það nær fram að ganga, á það eftir að styrkja Alþingi eins og það er og ég tel mjög mikilvægt að það verði gert.

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við erum að komast að leiðarlokum í þessu máli og hér liggur fyrir ákveðin pólitísk niðurstaða. Mér finnst að vísu að hún sé ekki fullhugsuð, hún sé lest á leið sem er ekki gott að segja hvar endar en ég geri mér grein fyrir því að á þessu munu verða breytingar á næstu árum. Ég mun auðvitað styðja þetta mál eins og það stendur hér en hef vakið máls á því að ég hefði viljað sjá þessa vinnu fara dálítið öðruvísi fram, að fleiri sjónarmið fengju að koma fram og að við höfum ekki grandskoðað í þessari vinnu mikilvægar lýðræðisleiðir sem margar aðrar þjóðir, sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar, hafa farið. Ég trúi því að ný kynslóð alþingismanna muni taka þetta mál upp og skoða það með nýjum hætti.