Ríkislögmaður

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:26:04 (3545)

1999-02-11 18:26:04# 123. lþ. 64.2 fundur 476. mál: #A ríkislögmaður# (yfirstjórn) frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:26]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 51/1985, um ríkislögmann, er rétt þykir að flytja í samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að færa yfirstjórn embættis ríkislögmanns frá fjmrn. til forsrn.

Embætti ríkislögmanns var formlega stofnað með lögum nr. 51 frá 24. júní 1985. Samkvæmt þeim er hlutverk embættisins þríþætt. Í fyrsta lagi að reka einkamál fyrir dómstólum. Í öðru lagi að fjalla um bótakröfur á hendur ríkissjóði og í þriðja lagi að semja álitsgerðir og veita aðstoð við vandasama samningsgerð eftir ósk einstakra ráðherra.

Að því er rekstur dómsmála varðar fer eftir atvikum hverju sinni, hvaða ráðherra eða ráðherrar eru í fyrirsvari fyrir ríkisvaldið í einstökum málum. Embætti ríkislögmanns sækir fyrirmæli um rekstur máls til þess ráðherra, sem hverju sinni er í fyrirsvari fyrir ríkisvaldið. Með sama hætti er embættinu skylt að semja álitsgerð fyrir hvern þann ráðherra, sem hverju sinni óskar lögfræðilegrar álitsgerðar um tiltekið mál sem undir hann heyrir.

Samkvæmt þessu má ljóst vera, að embætti ríkislögmanns er lögmannsskrifstofa í einkamálum fyrir Stjórnarráð Íslands í heild. Það er þannig í raun þjónustustofnun allra ráðuneytanna. Með vísan til þessa er eðlilegt að embættið heyri undir forsætisráðherra og beri undir forsætisráðuneyti, sem fer með mál er varða Stjórnarráð Íslands í heild, en vistun embættisins hjá fjármálaráðuneyti á sér fyrst og fremst þær sögulegu skýringar, að málarekstur æðstu stjórnar ríkisins í einkamálum hafði um árabil verið að stórum hluta falinn sérstökum málflutningsmönnum, sem störfuðu innan fjármálaráðuneytis.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn.