Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:36:05 (3549)

1999-02-11 18:36:05# 123. lþ. 64.3 fundur 475. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:36]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en hér er um stórpólitískt ákvörðunarefni að ræða sem lýtur ekki eingöngu að álitamálum sem upp vöknuðu við nýfallinn dóm Hæstaréttar heldur líka hvernig hið háa Alþingi vill haga samskiptum sínum við framkvæmdarvaldið. Með öðrum orðum hversu langt á að ganga með framsal valds Alþingis til framkvæmdarvaldsins.

Þróunin hefur óneitanlega orðið sú í seinni tíð að Alþingi hefur framselt þetta vald sitt í ríkari mæli en áður. Nægir í þeim efnum að rifja upp hlutafélagavæðingu stórra ríkisfyrirtækja sem hefur að sönnu leitt til þess að aðkoma Alþingis að þeim sömu fyrirtækjum hefur verið miklum mun minni en áður var eðli máls samkvæmt. Raunar hefur verið gengið svo langt samkvæmt áliti lögmanna að aðkoma Alþingis hvað varðar upplýsingar sé líka mjög takmörkunum háð og hefur byggst á því að við hlutafélagavæðingu fyrirtækja á borð við Póst og síma eða Búnaðarbanka eða Landsbanka, þá teldust þessi sömu stórfyrirtæki ekki lengur opinberir aðilar í þeirri skilgreiningu.

Ég hef lýst miklum efasemdum með þessa skilgreiningu og þessa túlkun og ég hygg að þó að það eigi ekki beinlínis við það sem við ræðum hér, þá kemur það óbeint inn á þessi samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og því er mikilvægt að við ræðum mjög hispurslaust einmitt þá skýrslu sem hæstv. forsrh. lét taka saman, fyrir hálfu öðru ári hygg ég að það hafi verið, um þessi samskipti en ekki hefur gefist tóm eða tækifæri til að fá hana hér rædda. Ég held að það sé brýnt að það gerist.

Taka má undir þá niðurstöðu sem Hæstiréttur kemst að og þann rökstuðning sem Hæstiréttur ber fyrir sig hvað varðar flutninga á ríkisfyrirtækjum frá Reykjavík upp á Skaga, þ.e. að Hæstiréttur gefi sér að sé ekki mælt öðruvísi fyrir í lögum þá beri ríkisstofnun að hafa sína heimastöð í Reykjavík. Þetta er nýtt af nálinni um margt og kemur á óvart. Spurningin er hins vegar sú hvernig rétt sé að bregðast við. Hæstv. ríkisstjórn grípur til þess ráðs að gera það að hinni almennu reglu að ráðherrum sé í sjálfsvald sett að taka ákvörðun um það hvar ríkisstofnanir verði vistaðar og það sama gildir raunar um nýjar stofnanir og þær stofnanir sem ekki er kveðið á um núna fyrir fullt og fast í gildandi lögum hvar skuli vera.

Þetta er álitamál og má velta því upp hvort það þætti of þung og erfið leið að láta slíkar ákvarðanir fara um hendur Alþingis. Það getur vel verið. Það rifjast hins vegar upp fyrir manni að ákvarðanir sem byggðar eru af hálfu framkvæmdarvaldsins, einstakra ráðherra um tilflutning stofnana hafa oft og tíðum orsakað miklar deilur, deilur milli ráðherranna, ráðuneytanna við viðkomandi starfsmenn. Maður veltir því oft fyrir sér hvort í sumum tilfellum a.m.k. hefði ekki verið málunum til styrktar að Alþingi kvæði upp úr með þetta og tæki af öll tvímæli í þá veru þannig að hæstv. ráðherra og embættismenn hans þyrftu ekki að eiga við slík mál í návígi sem auðvitað eru oft og tíðum mjög viðkvæm og viðkvæmari en ella þegar ákvarðanir af þessum toga fá lítinn aðlögunartíma. Það er spurning sem ég hygg að við ættum að velta fyrir okkur og hv. allshn. ætti að fara yfir hvernig þessu verður best fyrir komið því að ég hygg, eins og segir í greinargerð með frv., að það sé allgóð almenn sátt um að freista þess að flytja ríkisstofnanir úr Reykjavík út um landið eins og nokkur kostur er. Þetta finnst mér vera álitamál sem rétt er að skoða.

Síðan er annað sem óhjákvæmilegt er að nefna því að í frv. eru tekin af tvímæli þess að heimild til handa ráðherrum um að ákvarða um aðsetur stofnunar eigi ekki við um þær ríkisstofnanir sem Alþingi hefur þegar mælt fyrir um hvar skuli hafa aðsetur. Því hlýtur það að vera dálítið undarlegt að í 2. gr. frv. eru í raun þessi orð tekin aftur því þar er í öðru orðinu niðurnjörvað í lagatexta hvar þessar tilgreindu ríkisstofnanir skuli hafa aðsetur en í sömu setningu hins vegar í raun aftur tekið og heimild til handa ráðherra til að gera þar breytingar á undirstrikuð. Mér þætti eðlilegra að menn færu aðra hvora leiðina en ekki báðar eins og þarna er gert og virkar dálítið undarlegt í lagatexta að Alþingi ákvarði en ráðherra geti síðan ráðið. Það er í raun það sem þetta þýðir. Þegar Alþingi Íslendinga festir það í lög að aðsetur Blindrabókasafns Íslands skuli vera í Kópavogi þá er náttúrlega fullkomlega óeðlilegt að jafnframt samþykki Alþingi Íslendinga að ráðherra geti þó breytt þeirri löggjöf. Það er orðanna hljóðan samkvæmt frv. og kemur mér spánskt fyrir sjónir. Það getur vel verið að eðlilegar skýringar séu á þessu en ég fæ það ekki séð í fljótu bragði en vissulega væri ágætt að heyra viðhorf hæstv. forsrh. til þessa atriðis alveg sérstaklega.

Ég sé hins vegar ekki ástæðu til að lengja 1. umr. málsins. Hér er stórmál á ferðinni og ég held að allgóð sátt sé um þau meginmarkmið sem hér liggja að baki, þ.e. að dreifa þjónustu og styrkja þar með dreifðari byggðir í landinu. Spurning er hins vegar hvort við höfum hitt á rétta leið til þess. Um það þurfum við að ræða og skoða og ég vænti þess að allshn. inni þá vinnu af hendi.