Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:47:41 (3552)

1999-02-11 18:47:41# 123. lþ. 64.3 fundur 475. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:47]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig á því af hverju hv. þm. misskilur þetta. Það er út af fyrir sig eðlilegt. Við erum raunverulega bara með tvær reglur. Þriðja reglan sem hv. þm. nefnir vísar til þess að þarna er um að ræða stofnanir sem Alþingi hafði ekki talið ástæðu til þess að binda í lögum hvar væru staðsettar. Þær lytu því þeim lögmálum sem stofnanir gera almennt, sem Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um hvar skuli staðsettar. En við neyðumst til vegna dóms Hæstaréttar að tryggja staðsetningu þeirra en við vitum að Alþingi hafði ekki ætlað sér það og þess vegna látum við gilda þá reglu eins og gildir almennt um þær stofnanir sem Alþingi ákveður ekki sérstaklega hvar skuli vera.

Alþingi getur hvenær sem er ákveðið hvar stofnun skuli vera, ný stofnun sem gömul stofnun ef Alþingi kýs það. Hins vegar er litið á það samkvæmt þessum lögum sem ótvíræða vísbendingu ef stofnað er til stofnunar eða embættis eða þess háttar á Alþingi og þingið telur ekki við nákvæma skoðun ástæðu til þess að ákveða sjálft til frambúðar hvar stofnunin skuli vera, þá sé mönnum frjálst að flytja hana og það er reglan. Þetta er sú regla sem menn héldu að væri í gildi þar til Hæstiréttur kvað upp þennan sérkennilega dóm. Við erum ekki að gera neitt annað en færa hlutina í það horf sem menn töldu almennt að væri í gildi.