Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:12:17 (3562)

1999-02-15 15:12:17# 123. lþ. 65.1 fundur 246#B endurskoðun laga um stjórn fiskveiða# (óundirbúin fsp.), SighB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er af fréttum eiga eigendur kvótalítilla og kvótalausra skipa nú í miklum erfiðleikum, m.a. vegna þess að verð á kvótamörkuðum hefur hækkað upp úr öllu valdi. Það kom nokkuð á óvart en þó gleðilega á óvart að formaður sjútvn. lýsti því nýlega yfir í sjónvarpsfréttum að hann væri fyrir sitt leyti reiðubúinn til að opna á ný lögin um stjórn fiskveiða og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið frá þessum útgerðum. Hann hvatti útgerðarmenn þessara skipa til að skila til sín og nefndarinnar tillögum um breytingar til að tryggja kvótalitlum eða kvótalausum skipum viðbótarkvóta svo að þeir geti stundað veiðar.

Þetta hlýtur að sjálfsögðu að hafa verið rætt við hæstv. sjútvrh. Ég ætla að spyrja hvort hann sé ekki reiðubúinn að staðfesta það að af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna sé opinn möguleiki til að taka fiskveiðistjórnarlögin til endurskoðunar og taka þá tillit til sjónarmiða þeirra manna, sem hefur svo vel verið tekið af hv. formanni sjútvn.