Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:13:38 (3563)

1999-02-15 15:13:38# 123. lþ. 65.1 fundur 246#B endurskoðun laga um stjórn fiskveiða# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar er rétt að taka fram að ríkisstjórnin hefur ekki rætt um að flytja aflaheimildir frá einum hópi fiskiskipa yfir til annarra. Sá hópur fiskibáta, sem hér var sérstaklega vitnað til og hefur litlar aflaheimildir, hefur möguleika á að kaupa aflaheimildir ef þær fást við eðlilegu verði. Þar verða lögmál markaðarins einfaldlega að ráða.

Ég vara við hugmyndum um að handstýra þróun sjávarútvegsins með geðþóttaákvörðunum. Þeir sem keypt hafa báta með litlar aflaheimildir og hinir sem hafa selt frá sér aflaheimildir verða sjálfir að bera ábyrgð á þeim fjárfestingum sínum og ráðstöfunum sínum á aflaheimildum. Þar getur ríkisvaldið ekki komið eftir á og bætt úr, hafi menn sjálfir tekið ákvarðanir sem síðan leiða þá í erfiðleika og ógöngur. Ég held að þessi sjónarmið séu afskaplega skýr. Ég tel ljóst að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið uppi áform um að færa aflaheimildir þannig á milli aðila, að refsa þeim sem hafa staðið sig vel og tekið skynsamlegar ákvarðanir í fjárfestingum til að hjálpa hinum sem hafa tekið óskynsamlegar ákvarðanir.