Atvinnumál á Breiðdalsvík

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:34:24 (3578)

1999-02-15 15:34:24# 123. lþ. 65.1 fundur 249#B atvinnumál á Breiðdalsvík# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. að mjög mikilvægt er að það takist að skjóta traustum stoðum undir atvinnustarfsemi í því byggðarlagi sem hann hefur nefnt í þessari umræðu. Málefni einstakra fyrirtækja hafa ekki verið til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar en það er auðvitað rétt að hafa það hér í huga að ýmsar aðstæður í sjávarútvegi hafa verið slíkar að við getum með skýrum rökum sýnt fram á að fjárhagsleg staða fyrirtækja í atvinnugreininni hefur almennt verið að styrkjast. Ýmislegt bendir til þess að staða landvinnslu sé í flestum efnum að styrkjast. Markaðsaðstæður hafa breyst til hagsbóta um leið og það verður ódýrara að sækja fisk, eins og raunin hefur orðið.

Vegna nýtingarstefnu þeirrar sem fylgt hefur verið á undanförnum árum þá verður líka hagkvæmara að sækja fisk á bátum og auðveldara fyrir fiskvinnslu að ná í hráefnið. Þessar aðstæður hafa allar verið að snúast til betri vegar, fyrst og fremst vegna þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið í þessum, þó að því miður megi finna vandamál eins og hv. þm. gat hér um.