Menningarhús á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:41:52 (3582)

1999-02-15 15:41:52# 123. lþ. 65.1 fundur 250#B menningarhús á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Auðvitað hefði þurft að fara fram athugun á því hvaða áhrif slíkt stórt gistihótel hefði hér á markaðinn og leita samstarfs um það. Auðvitað getur það átt sér stað enn þá og ég held að það sé mjög mikilvægt.

Hvað landsbyggðina varðar þá fagna ég því að lög um félagsheimili verði endurskoðuð. Ég held að það sé mjög mikilvægt og eins hvernig ríkisvaldið getur komið að því styrkja menningarlíf í fámenninu þannig að það geti þrifist. Þess vegna fagna ég því.

Hvað staðina varðar þá vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Þar sem menn hafa verið að byggja upp eins konar höfuðstöðvar þar sem þróast hefur mjög sterkt þéttbýli, getur þá ekki hæstv. menntmrh. tekið undir það að rangt sé að setja út af blaðinu í upphafi, áður en umræður hafa farið fram, staði eins og ég nefndi hér áðan? Því að þetta er ekki bara spurning um að fólk sæki menningarhús heldur að það geti líka verið þátttakendur, hvort heldur er í leiklist, tónlist eða hvað það er, á ákveðnum svæðum á landsbyggðinni. Ég vil ítreka þessa spurningu mína.