Stofnun endurhæfingarmiðstöðvar

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 15:58:00 (3588)

1999-02-15 15:58:00# 123. lþ. 65.4 fundur 178. mál: #A stofnun endurhæfingarmiðstöðvar# þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir flutning þessarar tillögu og þá fyrst og fremst að vekja athygli á málefnum sem tengjast endurhæfingu.

Ég ætla ekki við 1. umr. að fullyrða um hvort sú leið sem hér er lögð til, að setja á stofn endurhæfingarmiðstöð, sé hin eina rétta, enda er vikið að því í greinargerð að þetta sé fyrst og fremst til að setja málin í þann umræðufarveg sem nauðsynlegur er og nafngreindar sérstaklega stofnanir sem koma þá að þeirri vinnu eins og t.d. Reykjalundur og Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði en fyrst og fremst er lagt upp með þá starfsemi sem núna fer fram á Grensásdeildinni.

Það sem ég vildi hins vegar draga fram í þessari umræðu er að ég fagna því að málefni endurhæfingar koma til faglegrar umræðu en ég held þó að lítill gaumur hafi verið gefinn að einum þætti varðandi þetta mál og það eru hin hagrænu áhrif endurhæfingarinnar. Ekki hefur verið skoðað nægjanlega hér á landi hvað endurhæfing er í reynd góð fjárfesting eða hvað fjármagni er vel varið sem sett er í endurhæfingu.

[16:00]

Ég hef verið að kynna mér svolítið þessi mál varðandi endurhæfingu og hinn hagræna þátt þess máls og satt best að segja er nær ekkert til af úttektum eða samantektum hér á landi um þetta efni. Þetta er þróuð vísindagrein erlendis eða hluti af vísindagrein innan heilbrigðishagfræði sem er ein af sérgreinum rekstrarhagfræðinnar og fjallað er þar sérstaklega um endurhæfingu og mat á hagrænum þáttum þess. Ég tek fram að þar er ekki einungis verið að leggja mat í krónum og aurum heldur er einnig verið að leggja mat á mjög erfiða þætti í endurhæfingu eins og þjáningar, lífslíkur og annað slíkt. Það er því til aðferðafræði við að leggja vísindalegt mat á endurhæfingu, aðferðir sem því miður hefur ekki verið beitt hér á landi. E.t.v. verður þessi tillaga til þess að menn fara að skoða þessi mál betur og það væri gott.

Sjálfur hafði ég einmitt hug á því að reyna að flytja hér tillögu um sérstakar úttektir á hagkvæmni endurhæfingar út frá þessum nýju aðferðum sem til eru og við höfum ekki nýtt okkur sem skyldi. En það væri hins vegar ánægjuefni ef þessi tillaga gæti orðið til þess að málin fengju nánari skoðun.

Það er svo, herra forseti, að endurhæfing er ekki einungis bráðnauðsynleg gagnvart þeim sjúklingum sem þurfa á henni að halda til að komast aftur í samfélagið heldur er fólginn í henni mikill efnahagslegur ávinningur fyrir samfélagið. Ég held að einmitt þessi efnahagslegi ávinningur sé miklu meiri en menn hafa gert sér í hugarlund, þannig að aukið fjármagn --- það er að vísu ekki talað beinlínis um það hér --- innan heilbrigðisþjónustunnar sem varið yrði til endurhæfingar er að mínu mati rétt stefnumótun og það fjármagn skilar sér mjög fljótt aftur til baka.