Stofnun endurhæfingarmiðstöðvar

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 16:01:53 (3589)

1999-02-15 16:01:53# 123. lþ. 65.4 fundur 178. mál: #A stofnun endurhæfingarmiðstöðvar# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta er hið athyglisverðasta mál. Hitt er annað að þingmönnum hættir nokkuð til að fara ótroðnar slóðir.

Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður kom inn á í sambandi við Reykjalund og Náttúrulækningafélag Íslands í Hveragerði. Ekki er langt síðan mikil landssöfnun fór fram um byggingu sundlaugar við Reykjalund. Sú starfsemi hefur varað alllengi og þar hefur verið unnið mikið og gott starf. Ég tel að það sé eðlilegt að horfa t.d. til þessara tveggja fyrirtækja og reyna að nýta betur þau mannvirki sem eru til staðar. Okkur hættir til að flytja þáltill. eða jafnvel breytingar á lögum án þess að líta fyrst til allra átta, til þeirra fyrirtækja eða þeirrar starfsemi sem e.t.v. er þegar í gangi, heldur förum við nýjar leiðir sem kosta mikla peninga í stað þess að nýta það sem fyrir er, svo sem þekkingu, reynslu og mannvirki.

Þáltill. er góð, en eins og síðasti ræðumaður kom inn á kostar það þjóðfélagið mikla peninga að koma ekki fólki sem hefur orðið fyrir slysum eða veikindum, sem hefur leitt til örorku um stundarsakir, hið allra fyrsta út í atvinnulífið aftur. Það eigum við vissulega að leggja mikla áherslu á.

En eins og ég hef sagt áður eigum við að líta í kringum okkur eins og málin standa nú, við eigum að líta til fyrirtækja eins og Reykjalundar og Náttúrulækningafélagsins og nýta þau mannvirki, þekkingu og reynslu sem þar eru fyrir hendi. Þá getum við ábyggilega byggt þar enn betur upp og unnið þar enn betra verk en þar er unnið.