Íslenski hesturinn

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:07:12 (3604)

1999-02-15 17:07:12# 123. lþ. 65.24 fundur 342. mál: #A landslið hestamanna# þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:07]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta er athyglisverð tillaga sem hv. þm. Guðni Ágústsson var að tala fyrir. Fyrst þegar ég heyrði af þessari tillögu og sá hana þá fór mér eins og öðrum þingmönnum að ég fór að hlæja og tók þennan tillöguflutning sem ákveðna gamansemi. En þegar ég fór að skoða tillöguna aðeins betur sá ég að hér er á ferðinni býsna snjöll hugmynd, þ.e. að nýta hestinn, sem er eitt fallegasta tákn landsins --- ég held við getum verið sammála um það --- á tiltekinn hátt, þ.e. sem heiðursvörð við erlendar móttökuathafnir og sem fulltrúa okkar þegar kemur að því að sýna framkomu þjóðarinnar við hátíðleg tækifæri.

Ég held að þetta sé mjög af hinu góða. Vitaskuld þarf aðeins að flysja greinargerð og annað slíkt, hátíðleikinn vill stundum verða yfirdrifinn hjá hv. þm. Ég er ekki viss um að það sé hlutverk Alþingis að álykta um hvort það fari fram reið um Þingvelli eða ekki, þó að ég skilji það sem röksemd en ég vil fyrst og fremst halda mig við þá hugmynd sem kemur fram í þessu að það verði hesturinn og hestamenn sem myndi heiðursvörð við opinberar athafnir.

Ég sé það mikilvægt á tvíþættan hátt. Það er annars vegar að hér er um að ræða efnahagslega mjög mikilvæga atvinnugrein, sem hestabúskapurinn er. Það eru nokkrir milljarðar sem hestar skila inn í þjóðarbúið, og af því að landsmót hestamanna var nefnt áðan, að það verða yfir 10 þúsund útlendingar sem koma gagngert til landsins árið 2000 til að taka þátt í landsmóti hestamanna í Reykjavík. Ég er sjálfur ekki hestamaður, var það nú bara þegar ég var í sveit í gamla daga, en ég kann að lesa a.m.k. þessar tölur og skynja stundum þegar góðar hugmyndir eru á ferðinni.

Annað sem ég tel mæla með þessu er að hér er verið að brjóta upp alþjóðlega hefð við móttökuathafnir, sem eru fólgnar í því að vopnaðir menn eru látnir standa og sprella þar með byssur sínar, og við þekkjum fjölmörg dæmi um það. Við höfum ekki farið þá leið en látið einkennisklædda lögregluþjóna vera að líkja eftir þessum stríðsmönnum, að vísu óvopnaða. Þetta framlag okkar til alþjóðlegs prótókolls, að láta myndarlega og fallega hesta ásamt glæsilegum knöpum mynda heiðursvörð gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum, er táknrænt. Það er skilaboð okkar gagnvart umheiminum. Þessa hugmynd á að taka alvarlega, það á að þróa þessa tillögu þannig að hún geti vonandi verið samþykkt á hinu háa Alþingi og þá fyrst og fremst, að mínu mati, e.t.v. út frá þessum þremur meginþáttum: Hesturinn er eitt fallegasta tákn landsins og við eigum að sýna slíkt tákn við hvert tækifæri, efnahagslegt mikilvægi hestamennsku og hestabúskapar á að undirstrika með þessu og í þriðja lagi eru skilaboðin gagnvart stríðshrjáðum heimi með vopnlausri sýningu glæsilegra hesta og hestamanna mjög af hinu góða.