Styrktarsjóður námsmanna

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:44:42 (3613)

1999-02-15 17:44:42# 123. lþ. 65.18 fundur 464. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:44]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 15. þm. Reykv., Magnúsi Árna Magnússyni, fyrir umræðuna og skal freista þess að svara þeirri spurningu sem hann beindi til mín. Hann spyr hvort hér sé átt við framhaldsskóla eða háskóla eða hvort stjórn sé ætlað að skilgreina það.

Orðalagið er vísvitandi hugsað þannig til þess einmitt að koma í veg fyrir að eingöngu verði átt við háskólastig því að með vaxandi starfsmenntun í framhaldsskóla er mjög mikilvægt að nemendur framhaldsskóla, hvort heldur er í starfsnámi eða öðru, geti sótt í slíkan styrktarsjóð. En við flutningsmenn teljum eðlilegt að stjórnin og ekki síður þeir sem leggja fram vonandi í slíkan styrktarsjóð hafi svigrúmið til að skilgreina hverjir geti fengið styrki.