Fjarvinnslustörf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 17:54:20 (3618)

1999-02-15 17:54:20# 123. lþ. 65.19 fundur 270. mál: #A fjarvinnslustörf á landsbyggðinni# þál., Flm. TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[17:54]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fjarvinnslustörf á landsbyggðinni. Þáltill. er svo hljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja og hrinda í framkvæmd áætlun um það hvernig fólki sem býr á landsbyggðinni verði gefinn kostur á að sinna störfum á vegum ríkisins með fjarvinnslu.``

Herra forseti. Störfum í opinbera geiranum hefur fjölgað hratt og staðreyndin hefur orðið sú að þeim hefur einkum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu. Liggja að sjálfsögðu til þess mjög margar ástæður.

Stjórnvöld hafa áttað sig á því hve mikil áhrif þessi þróun hefur haft á atvinnumarkaðinn í heild og því ákveðið að reyna að sporna við þessari þróun og efla starfsemi ríkisins á landsbyggðinni. Meðal þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til er að reyna að flytja ríkisstofnanir út á land, staðsetja nýjar stofnanir á landsbyggðinni og hefur verið lögð fram sérstök þáltill. til að móta slíka stefnu. Kom sú þáltill. fram 1994 en þar var tekið sérstaklega á þessu máli þar sem ályktað var að auka opinbera þjónustu og starfsemi opinberra stofnana á landsbyggðinni en að sama skapi yrði þessi þjónusta dregin saman á höfuðborgarsvæðinu.

Nú hefur verið athugað hvernig framkvæmd þessarar stefnumörkunar hafi gengið og er niðurstaðan raunar sú að hið gagnstæða hafi gerst. Opinberum störfum hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en það er nánast um óbreytta stöðu að ræða í fjölmörgum landsbyggðarkjördæmum og í sumum kjördæmunum hefur opinberum störfum fækkað. Þannig má segja að árangur af þessari stefnumörkun hafi verið mjög slakur og er nauðsynlegt að horfast í augu við það.

Einnig má segja að flutningur ríkisstofnana út á land hafi mætt óvenjumikilli andspyrnu á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir þá staðreynd að störfum hins opinbera í Reykjavík hafi fjölgað mun meira en á landsbyggðinni og staðsetning nýrra ríkisstofnana á landsbyggðinni hefur ekki gengið fram sem skyldi. Þótt 1. flm. þessarar þáltill. sé þeirrar skoðunar að flytja beri ríkisstofnanir út á land og stuðla að því að nýjar ríkisstofnanir verði staðsettar á landsbyggðinni telur hann jafnframt að hægt sé að taka á þessum vanda með fjölbreytilegri hætti en gert hefur verið ráð fyrir.

Svo vill svo til að með stórbættri fjarskiptatækni og þjónustu á sviði upplýsingamála hafa skapast möguleikar til að sinna í raun bæði föstum störfum en einnig tímabundnum verkefnum fjarri höfuðborgarsvæðinu jafnvel þótt verkefnin tengist beinlínis stofnunum í Reykjavík. Það er t.d. nokkuð um að verkefnum sem unnin eru á vegum ríkisins sé sinnt af Íslendingum sem starfa tímabundið erlendis. Sjálfur hefur sá sem hér stendur unnið að verkefnum sem tengjast Evrópuráðinu og stefnumörkun í ýmsum málaflokkum þar. Þar hafa verið kvaddir til sérfræðingar sem hafa ýmist starfað í Frakklandi, Þýskalandi eða Rússlandi og hafa engir samskiptaerfiðleikar komið fram þótt miklar vegalengdir séu og hefur reynst afar auðvelt að nýta þessa fjarskiptatækni og upplýsingabyltinguna til þess að vinna að slíkum málefnum héðan frá Íslandi með sama árangri og annars staðar frá í heiminum.

Þess ber að geta að þessir möguleikar hafa enn haft til þess að gera mjög lítil áhrif á atvinnulíf landsbyggðarinnar. Upplýsingatækni og fjarskipti hafa t.d. svo eitt dæmi sé nefnt ekki dregið úr þeim erfiðleikum sem koma í ljós þegar sérhæft fólk sem á þess kost að starfa úti á landi leitar eftir starfi við hæfi maka. Það er afar brýnt að auka fjölbreytni á vinnumarkaði á landsbyggðinni og það er einsýnt að hægt er að nýta möguleika fjarvinnslu til þess að treysta þennan vinnumarkað. Það kallar hins vegar á mjög markviss vinnubrögð af hálfu hins opinbera. Nauðsynlegt er að opinberir aðilar hafi forgöngu um þetta, ekki síst í ljósi þess hve umsvif ríkisins hafi verið mikil og áhrif ríkisins á vinnumarkaðinn hafa verið þung á vogarskálunum í byggðamálum.

Til þess að ýta undir þróunina þarf að fara fram athugun á því hvaða störf á vegum ríkisins eru vel til þess fallin að sinna með fjarvinnslu.

Í till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 er fjallað ítarlega um þörf á að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar svo efla megi samkeppnishæfni atvinnulífsins þar. Lögð er áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði á m.a. að ná með því að leitast við að ný starfsemi hins opinbera verði utan höfuðborgarsvæðisins. Síðan segir í þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

,,Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Tillagan sem hér er flutt fellur að markmiðum og anda þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 en tekur sérstaklega á möguleikum sem tengjast fjarvinnslunni. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að innan opinberra stofnana og fyrirtækja verði litið á það sem sérstakt viðfangsefni að ýta undir fjarvinnslu. Verði það jafnvel athugað í hverju tilfelli hvort hægt er að sinna verkefnum eða störfum með fjarvinnslu og þess getið þegar störf eru auglýst.

Ég hygg að í viðleitni stjórnvalda til þess að efla opinbera þjónustu úti á landi og gera vinnumarkaðinn úti á landi fjölbreytilegri bjóði þessi kostur upp á ýmsa möguleika og meiri sveigjanleika en hingað til hefur gætt í umræðunni um eflingu opinberra starfa úti á landsbyggðinni og að þessir möguleikar eigi ekki eingöngu við stærri sveitarfélög úti á landi heldur einnig hin minni. Ég tel því að full ástæða sé til þess að skoða rækilega þennan möguleika og það gæti orðið til þess að ná meiri árangri í þeirri viðleitni sem stjórnvöld hafa sett sér markmið um, að efla opinbera þjónustu á landsbyggðinni.