Fjarvinnslustörf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:05:21 (3620)

1999-02-15 18:05:21# 123. lþ. 65.19 fundur 270. mál: #A fjarvinnslustörf á landsbyggðinni# þál., Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:05]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir framlag hans til umræðunnar. Framlag hans vekur athygli mína, ekki víst vegna þess að hann hefur eins og sá sem hér stendur haft reynslu af þessari tækni. Hann hefur kynnst henni í því þjóðfélagi sem lengst hefur komist í þessari nýtingu. Bandaríkjamenn hafa ótvíræða forustu í að nýta upplýsingatækni í heiminum. Þar er t.d. netþjónusta einna lengst komin og hefur haft mikil áhrif á atvinnulífið, einmitt þau sem hv. 15. þm. Reykv. rakti í sínu ágæta máli. Það hefur orðið til þess að vekja menn til umhugsunar um byggðamynstur og skapa nýja valkosti í þessum efnum. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. þm. um þetta en það var hárrétt.

Þessi tækni mun ýta undir það að menn vegi og meti aðra kosti byggðarlaga úti á landi en atvinnumarkaðinn, að menn vegi og meti t.d. þá kosti sem eru fólgnir í umhverfinu, í því að eiga stutt til útivistar, í þýðingu þess að ala upp börn sín við fullkomið öryggi og að menn vegi og meti kosti þess að vera fjarri hinum dekkri hliðum á mannlífinu, eiturlyfjaneyslu og áfengisvandamálum. Ég hygg að ef okkur tekst að nýta þessa kosti til að gera atvinnulíf landsbyggðarinnar fjölbreytilegra þá muni það varpa ljósi á ýmsa af þeim kostum sem fylgja búsetu í dreifbýlinu, sem hingað til hafa verið minna metnir en atvinnumöguleikarnir og kannski stórlega vanmetnir.

Ég tek því heils hugar undir þau rök sem hv. 15. þm. Reykv. setti fram. Mér finnst hann koma fram í þessu máli eins og fulltrúi sinnar kynslóðar. Ungt fólk hefur meiri skilning á þessu en margir af eldri kynslóðinni. Það er alið upp nánast við þessa nýju möguleika. Þeir virka ekki fráhrindandi á ungt fólk heldur þvert á móti sem hluti af nútímanum. Því miður virka þessir upplýsinga- og fjarskiptamöguleikar fráhrindandi á hluta af eldri kynslóðinni þótt flestir hafi jákvætt viðhorf til þeirra. Komið hefur í ljós á Íslandi að eldri borgarar eru farnir að nýta sér þessa fjarskiptatækni til þess að rjúfa einangrun sína og fjölga menntunarmöguleikum sínum. Það er mjög góð vísbending um hversu jákvæð viðhorf Íslendinga eru til þessarar tækni, að eldri borgarar hafi nýtt sér þetta með mjög góðum árangri. Ég held að þetta muni höfða til allra kynslóða, allra aldursflokka og muni jafnvel leiða til þess að bilið á milli kynslóðanna verði betur brúað en verið hefur.