Rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:17:12 (3623)

1999-02-15 18:17:12# 123. lþ. 65.23 fundur 341. mál: #A rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu. Ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þm. meðflutningsmenn Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Halldórsdóttir.

Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera ítarlegar rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu með það að markmiði að stuðla að skynsamlegri nýtingu rjúpnastofnsins. Tilgangur rannsóknanna verði að kanna umfang og áhrif skotveiða á stofninn, viðkomu hans eftir svæðum, samhengi veiða og náttúrulegra affalla og að gera samanburð á rjúpnastofninum undir mismiklu veiðiálagi.``

Það er mikið kappsmál að íslenski rjúpnastofninn sé sem allra sterkastur. Það er kappsmál umhverfisverndarfólks og dýraverndunarmanna. Það er líka kappsmál skotveiðimanna og raunar er það kappsmál náttúrunnar allrar því að rjúpan er lykildýrategund í íslensku vistkerfi. Rjúpan er, eins og kunnugt er, ein aðalfæða fálkans og forsenda að vexti og viðgangi fálkastofnsins en hún er jafnframt mikilvæg fæðutegund fyrir ref.

Skotveiðar hafa vaxið mjög hér á landi. Rjúpur og rjúpnasteik eru að verða föst jólahefð hjá landsmönnum og þetta ásamt því sem áður er rakið hlýtur að hvetja okkur til þess að gæta vel að þessum stofni.

Skotveiðimenn, sem jafnframt eru yfirleitt miklir umhverfisverndarmenn, hafa lagt fram drjúgan skerf til rannsókna á rjúpnastofninum, annars vegar með veiðiskýrslum og hins vegar með veiðigjaldi. Rannsóknir þessar eru hins vegar ekki nægjanlegar og það fé sem til þeirra rennur dugir hvergi nærri til nægjanlegra rannsókna.

Margt bendir til þess að veiðiálagið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sérstaklega og raunar víða á Suðurlandi og Vesturlandi sé það mikið að ekki megi svo lengur standa og að nauðsynlegt sé að fara út í einhvers konar takmarkanir um tíma. Ef slíkt verður gert er tvennt nauðsynlegt. Annars vegar að komast að samkomulagi við landeigendur og skotveiðimenn og hins vegar að leggja til aukið fé til rannsóknanna. Þessar rannsóknir eru grundvallaratriði og það er grundvallaratriði að þær séu gerðar við núverandi veiðiálag. Það er ekki til neins að fara út í friðunaraðgerðir eða breytingu á veiðiálagi ef menn þekkja ekki stofnstærð rjúpunnar þegar gripið er inn í veiðiálagið og þar með útgangspunkt rannsóknanna. Með veiðitakmörkunum af einhverju tagi er síðan hægt að fylgjast með auknum rannsóknum þannig að árangur slíkra aðgerða sjáist og sé mælanlegur því að annars er til lítils barist.