Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:39:22 (3627)

1999-02-15 18:39:22# 123. lþ. 65.25 fundur 356. mál: #A jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:39]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Umræða er auðvitað góðra gjalda verð og það hefði verið betur að umræða færi fram í hópi þingmanna kjördæmisins, í rauninni frekar en að menn væru að syngja hver með sínu nefi á Alþingi. En ég hef ekkert á móti þessum tillöguflutningi í þeim kyrrstöðupolli sem ríkir hjá núv. hæstv. ríkisstjórn í sambandi við jarðgangaframkvæmdir, það tek ég alveg skýrt fram.

Auðvitað er alveg ljóst að fulltrúar Sjálfstfl. á Austurlandi, hv. þm. Egill Jónsson og Arnbjörg Sveindóttir, eru fyrst og fremst að beina spjótum sínum að Framsfl., sem hefur forustu í kjördæminu, með þessum tillöguflutningi. Það blasir auðvitað við að að þeirra mati hefur Framsfl., sem skipar fyrsta þingmann í kjördæminu og hefur tvo þingmenn og mest fylgi að baki sér miðað við síðustu kosningar á Austurlandi, ekki sýnt þessum jarðgangamálum mikinn áhuga á kjörtímabilinu, það verður að segja það eins og er.

Hitt er jafnskondið, virðulegur forseti, að úr hinni tómu tunnu hæstv. samgrh. skuli skjótast --- eða úr þingflokki hæstv. samgrh. skuli skjótast þessir tveir hv. þm. með tillöguflutning. Þeir sem lesa tillöguna og hafa kannski ekki yfirsýn yfir annað, gætu haldið að hér væri einhver alvara á ferðinni og það mætti vænta stuðnings núv. hæstv. ríkisstjórnar við þær hugmyndir sem hér eru settar á blað. Ég segi: Guð láti á gott vita. En þá þarf nú Eyjólfur heldur betur að hressast frá því sem verið hefur. Það er þá kannski fyrsta verkefnið að skipta um yfirstjórn í samgrn. því að auðvitað er þetta um leið vantraust viðkomandi þingmanna á hæstv. samgrh. Ég er ekkert hissa á því að það skuli út af fyrir sig koma fram frá samþingmönnum hans með þeim hætti sem hér er að því er jarðgangamál varðar.