Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:43:40 (3629)

1999-02-15 18:43:40# 123. lþ. 65.25 fundur 356. mál: #A jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var stefna Austfirðinga og ég hef út af fyrir sig ekki heyrt endurskoðun á henni eins og hún endurómar frá sveitarstjórnum þó að þar kunni vel að vera að hafi orðið einhver breyting á. Sú var stefnan að jarðgöng skyldi fyrst og fremst ráðast í til þess að rjúfa vetrareinangrun byggðarlaga. Auðvitað þekki ég þau sjónarmið mætavel. Ég hef heyrt þau ítrekuð, síðast mjög eindregið í því sveitarfélagi sem nú heitir Fjarðabyggð í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninganna.

Það kann vel að vera að heimamenn hafi endurmetið þessi mál og nauðsynlegt er að það komi fram ef svo er. Hitt er jafnljóst að það sér ekki í neitt land í þessum efnum að óbreyttri stefnu. Þá er þetta bara eins og hvert annað hugarfóstur viðkomandi hv. þm., sem ég hef engar athugasemdir við að hér komi fram í þingmáli. En það verður að skipta um forrit í samgrn. og í ríkisstjórninni ef þessu á eitthvað að þoka fram.

[18:45]

Svo var nú hv. þm. að byggja hér upp nýja hindrun í málinu, sem var tilvísun í stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Það mætti nú sjálfsagt bíða talsvert fram eftir næstu öld ef það ætti að vera forsenda þess arna. Ég veit að hv. þm. hefur heyrt það eins og aðrir í landinu og áttar sig á því að þar er ekkert á döfinni, eins og fram hefur komið, og stjórnvöld tala aðeins úr tómum poka í þeim efnum.

Ég vil að endingu taka fram, virðulegur forseti, að ég er reiðubúinn til að skoða öll þau mál sem varða jarðgangamál á Austurlandi, einnig þessa tillögu, og legg á það ríka áherslu að þingmenn kjördæmisins ættu að bindast samtökum um það að ýta svo rækilega við stjórnvöldum að þar verði einhverju um þokað.