Úttekt á nýtingu lítilla orkuvera

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:53:12 (3632)

1999-02-15 18:53:12# 123. lþ. 65.28 fundur 377. mál: #A úttekt á nýtingu lítilla orkuvera# þál., Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:53]

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um úttekt á nýtingu lítilla orkuvera.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á nýtingu og þróunarmöguleikum lítilla orkuvera þar sem kannað verði hvort hagkvæm uppbygging lítilla sjálfstæðra orkuvera gæti samanlagt jafnast á við stóra virkjun.

Niðurstaða úttektarinnar verði lögð fyrir Alþingi.``

Á Íslandi eru nú um 300 lítil orkuver, flest við býli í sveitum, eða eins og menn segja, við bæjarlækinn heima. Hefur þeim fækkað nokkuð á undanförnum árum, en þau voru um 1.000 fyrir 30 árum. Þó er ekki að finna í opinberum gögnum heildstæðar upplýsingar um það. Framleiðslugeta litlu orkuveranna er umtalsverð, eða yfir 4 megavött, og yfirleitt meiri en einstök býli geta nýtt. Hefur nýting orku frá þeim því ekki verið sem skyldi. Menn sjá sér þó hag í að setja upp slík orkuver og eru túrbínusmiðir hlaðnir verkefnum fram yfir aldamót.

Virkjanir og orkumál eru nú mikið til umræðu og þykir flutningsmanni tillögunnar rétt að áður en ráðist er í framkvæmdir við stóra virkjun á hálendinu verði kannað hvort ekki sé hagkvæmara að styrkja lítil orkuver vítt um landið og nýta betur það rafmagn sem þau framleiða og geta framleitt. Líklegt er að með tiltölulega litlum tilkostnaði væri hægt að framleiða 30--60 megavött í litlum orkuveitum við bæjarlækinn heima, eða á við það sem Nesjavallavirkjun eða Hitaveita Suðurnesja framleiða.

Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir umgengni við landið allt, verndun íslenskrar náttúru og náttúruperlna að menn hugi vel að öllum valkostum sem eru í þessum efnum. Virkjun á bæjarlæknum heima á kannski 1.000--1.500 stöðum á landi gæti verið mikið hagsmunamál, bæði fyrir þjóðina í heild og ekki síst fyrir bændur og búalið í sveitum landsins, því að slíkar virkjanir þar sem bændur gætu selt umframorku sína inn á dreifikerfi landsins á eðlilegan hátt, sem ekki hefur verið hægt um áratugaskeið, mundu styrkja mjög byggð landsins, skapa þar sjálfstæðari stöðu og stefnu og væri þjóðhagslega hagkvæmt. Við höfum á margan hátt verið með of mikinn gleypugang í þessum efnum og ekki hugað að hinu smáa sem skiptir líka máli og er verulega hagkvæmt eins og mörg dæmi sanna og sérstaklega hefur verið lagt upp á á undanförnum árum.

Ég legg til að að lokinni umræðu um þessa þáltill. verði málinu vísað til iðnn.