Rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 18:56:27 (3633)

1999-02-15 18:56:27# 123. lþ. 65.29 fundur 378. mál: #A rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn# þál., Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[18:56]

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hefji sem fyrst rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn.``

Í greinargerð tillögunnar sem ég mæli fyrir segir að við suðurströnd Íslands er algjör hafnleysa. Eina skjólið fyrir suðvestanöldunni er í Skötubótinni í Þorlákshöfn. Þessar aðstæður nýttu menn sér upp úr 1960 þegar hafist var handa við byggingu fiskiskipahafnar í Þorlákshöfn. Höfnin var hönnuð fyrir algenga gerð vertíðarbáta á þeim tíma.

Í Vestmannaeyjagosinu 1973 varð ljóst að stækka þyrfti höfnina og var fengið lán hjá Alþjóðabankanum til að standa undir gerð fiski- og ferjuhafnar í Þorlákshöfn. Alþjóðabankinn gerði m.a. þá kröfu fyrir lánveitingu til Þorlákshafnar að höfnin þjónaði fiskiskipum og flutningaskipum sem væru allt að 100 m löng.

Lokið var við stækkun hafnarinnar árið 1976. Síðan hefur verið unnið að gerð löndunar- og viðlegumannvirkja innan hafnar. Þannig var aðstaða fyrir Herjólf gerð á árunum 1991--1992 og nýr vörukantur tekinn í notkun á árinu 1997.

Núverandi hafnarsvæði er nær fullnýtt og annar höfnin að öllu leyti núverandi fiskiskipaflota Þorlákshafnar og flutningaskipum sem eru allt að 3.000 tonn að stærð. Dýpi er þó takmarkað fyrir djúprist fiskiskip, t.d. loðnuskip.

Siglingastofnun hefur að ósk hafnarstjórnar Þorlákshafnar unnið að gerð frumdraga að stækkun hafnarinnar miðað við annars vegar 10.000 tonna skip og hins vegar allt að 20.000 tonna vöruflutningaskip.

Vegna þess hve hafnarsvæðið er grunnt og takmörkuð stöðvunarvegalengd innan er hafnar er ekki talið mögulegt að gera ráð fyrir stærri skipum en 20.000 tonn í reglulegum siglingum.

Það væri að mörgu leyti mjög spennandi valkostur að stækka höfnina í Þorlákshöfn með þessu móti. Suðurland er aðgengilegasti hluti Íslands til uppbyggingar og þróunar í öllum þáttum sem við getum horft fram til í íslensku þjóðlífi. Þar er mikið rými. Þar er eins og sagt er um góð hús, þar er bjart, hlýtt og rúmgott. Þorlákshöfn er besti valkosturinn á þessari hafnlausu strönd til þess að taka til hendinni og styrkja möguleika í siglingum til landsins og þjónustu allri á þessu svæði.

Ég legg til að lokinni umræðu um þessa þáltill. að málinu verði vísað til hv. samgn.