Kosningar til Alþingis

Mánudaginn 15. febrúar 1999, kl. 19:00:10 (3634)

1999-02-15 19:00:10# 123. lþ. 65.33 fundur 466. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla í heimahúsi) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 123. lþ.

[19:00]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80 frá 16. október 1987, með síðari breytingum, á þskj. 768. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Hjálmar Jónsson.

Í frv. er fyrst og fremst verið að leggja til breytingu á kosningalögum til að rýmka aðgengi fólks að því að nýta sér hinn helga rétt lýðræðisins, kosningarrétt sinn. Eins og menn þekkja er samkvæmt gildandi kosningalögum gert ráð fyrir að ef fólk geti ekki komist á kjörstað vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar eða þess háttar þá geti það sótt um að greiða atkvæði í heimahúsi. Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 63. gr. laganna ber kjósanda að bera slíka ósk fram við kjörstjóra skriflega og studda læknisvottorði eigi síðar en þegar ein vika er til kjördags.

Þetta gerir það að verkum að ýmsir sem ella mundu nýta sér réttinn til að kjósa komast ekki. Ýmsar aðstæður geta hamlað því. Veikindi geta komið upp eftir að umsóknarfresturinn er liðinn og margt gert það að verkum að fólk eigi ekki kost á að kjósa. Þar með er þrengdur möguleiki fólks til að nýta sér kosningarréttinn sem við viljum öll í heiðri hafa. Við viljum auðvitað hafa þann möguleika sem rúmastan svo fólk geti nýtt sér þann mikilvæga rétt.

Þetta mál kom til umræðu á sl. vori við sveitarstjórnarkosningarnar í Vesturbyggð á Patreksfirði. Þar kom upp að tilteknir kjósendur höfðu vegna veikinda fengið leyfi til að kjósa í heimahúsum þó að innan við vika væri til kjördags. Kjörstjóri kaus að verða við þessum óskum kjósenda og heimilaði þær kosningar. Málið var kært til félmrn. sem felldi þann úrskurð að samkvæmt þeim gögnum sem fyrir lægju virtist ekki hafa verið farið að öllu leyti að ákvæðum umræddra laga. Félmrn. vekur hins vegar athygli á að tilgangur laganna geti vart hafa verið sá að takmarka kosningarrétt einstakra manna, heldur fremur að tryggja hagsmuni kjörstjóranna svo þeir vissu með nokkrum fyrirvara fjölda þeirra sem hugsanlega þyrftu að nýta sér þjónustuna að neyta kosningarréttar síns. Þess vegna taldi félmrn. réttlætanlegt að kjörstjóri stæði þannig að málum.

Vegna úrskurðar ráðuneytisins má segja að nokkur óvissa hafi skapast, óvissa sem við flm. þessa frv. teljum nauðsynlegt að eyða. Við teljum æskilegast og eðlilegast að gera það með því að rýmka til, auðvelda þeim að kjósa sem annars gætu ekki kosið vegna veikinda. Það yrði með sama hætti og gert er við aðrar utankjörstaðaatkvæðagreiðslur þannig að fólk sé jafnsett hvort sem það er heilt eða sjúkt. Kosningarrétturinn er grundvallarréttur, varinn í stjórnarskránni og þó að eðlilegt sé að kjörstjóri hafi ráðrúm til að skipuleggja atkvæðagreiðslu í heimahúsi, þá verður kosningarrétturinn auðvitað að teljast ríkari hagsmunir. Menn verða þá einfaldlega að koma sér upp þeim viðbúnaði sem til þarf, hvort sem það er á smærri stöðum eða hinum stærri.

Hér er einfaldlega lagt til að í stað þess að hafa vikufrest, eins og nú er gert ráð fyrir í lögunum, sé þessi ósk eins og áður skrifleg, studd læknisvottorði en skuli hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 12 á hádegi á kjördag. Með öðrum orðum er þeim sem þurfa að kjósa í heimahúsum vegna veikinda sinna, auðvelduð leiðin.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér ekki þörf á að fara frekar yfir þetta mál. Hér er um að ræða sjálfsagt réttlætismál sem ætlað er að auka lýðræðislegan rétt fólksins og sjálfsagt mál að leiða það í lög.

Að lokinni 1. umr. málsins leggjum við til að málið fari til viðeigandi nefndar, hv. allshn. og 2. umr.