Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:33:57 (3638)

1999-02-16 13:33:57# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Mjög alvarlega horfir nú á allmörgum stöðum vegna mikils samdráttar í rækjuveiðum og vinnslu. Ýmis sjávarútvegsfyrirtæki brugðust við skertum aflaheimildum í þorski á sínum tíma með því að efla rækjuveiðar og vinnslu til þess að vega upp tekjutapið. Á undanförnum árum hafa fyrirtæki og einstaklingar fjárfest umtalsvert í skipum, verksmiðjum og aflaheimildum. Rækjuiðnaðurinn hefur verið endurnýjaður víða um land, vélvæðing aukin og húsnæði bætt til þess að mæta kröfum markaðarins. Þetta var gert á tímum þegar aflaheimildir í rækju fóru vaxandi ár frá ári, tekjumyndun í greininni var góð og afkoma sömuleiðis. Einstök byggðarlög og heil svæði eru nú orðin afar háð þessari atvinnugrein. Sums staðar hafa rækjuveiðar og vinnsla bókstaflega komið í stað bolfiskveiða og vinnslu.

Víða háttar líka svo til að fyrirtæki og útgerðir, ekki hvað síst einstaklingsútgerðir, eiga ekki annan kost en að stunda veiðar á tegundum sem liggja næst verstöðvunum. Rækju- og þorskveiðar eru í ýmsum tilvikum eina úrræðið sem þessir útgerðarmenn eiga. Af þessum ástæðum hefur það komið afar illa við þessa aðila að upplifa það hrun sem hefur orðið í rækjuveiðum að undanförnu. Þetta á við um úthafsveiðina en einnig víða innfjarðar. Slakur árangur við veiðarnar hefur bókstaflega kippt fótunum undan rækjuútgerð víða um land. Fjölmörg skip hafa hætt veiðum og hráefnisöflun því snarlega dregist saman. Þetta eru grafalvarleg tíðindi og ekki í samræmi við það sem menn ætluðu því þó almennt hafi verið gert ráð fyrir minni rækjuafla vegna vaxandi þorskgengdar hygg ég að ekki hefði mátt búast við slíkri minnkun út frá því sem lesa má um stöðu rækjustofnsins í riti Hafrannsóknastofnunar.

Því hef ég leyft mér sérstaklega að spyrja hæstv. sjútvrh.: Gefur sú ákvörðun að skerða úthlutaðan rækjukvóta um þriðjung nú tilefni til þess að endurskoða aðferðir við stofnmark á rækjustofninum?

Slök aflabrögð á rækjuveiðum gefa vísbendingu um að heildarfli á rækju verði langt innan við útgefinn kvóta, jafnvel eftir að búið er að skerða útgefnar aflaheimildir um þriðjung. Nú er staðan sú að einungis var búið að veiða frá 1. september til 31. janúar 12.400 tonn, en á sama tíma árið á undan var það um 24.000 tonn eða helmingi meira. Margir eru því þeirrar skoðunar að ákvörðun núna á miðju fiskveiðiári um að skerða aflaheimildir um þriðjung muni ekki hafa áhrif á heildarveiðina, einungis verði um að ræða tilfærslu á milli útgerða sem eru með aflaheimildir í rækju. Þannig eru til dæmi um skip sem hafa þegar leigt frá sér allar sínar aflaheimildir í rækju. Skerðing á útgefnu á aflamarki nú um þriðjung hefur sáralítil áhrif á þessi skip, mun í mesta lagi hafa áhrif til lítils háttar lækkunar á rækjukvóta þessara skipa á næsta ári í slíkum tilvikum.

Hins vegar eru einstaka útgerðir í þeirri stöðu að hafa lagt mikla áherslu á að nýta sínar aflaheimildir til þess að afla hráefnis til vinnslu innan lands. Ákvörðun um að skerða aflaheimildir um þriðjung á miðju ári hefur því áhrif á stöðu þeirra. Ég þekki dæmi um slíkar útgerðir sem nú þurfa að leigja til sín aflaheimildir í rækju frá skipum sem ekki sjá sér hag í því að nýta sínar heimildir. Skerðing á þriðjungi aflamarks í rækju nú á miðju fiskveiðiári mun því hafa það í för með sér að fjármagn færist á milli einstakra útgerða en vafasamt má telja hvort það hefur áhrif á heildarveiðina.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er talið líklegt að lækkun rækjukvóta muni hafa áhrif á raunverulegan heildarafla í ljósi hinna slöku aflabragða sem hafa verið á rækju?

Áhrif minnkandi rækjuveiða eru vitaskuld mikil á þjóðarhag. Heildarútflutningsverðmæti rækju voru á síðasta ári um 11 milljarðar og höfðu þá minnkað um 700 millj. frá árinu áður. Þýðing þessarar greinar er mjög mikil og staðbundin og ljóst að fyrir einstök fyrirtæki, starfsfólk og byggðarlög eru áhrifin af minnkandi veiði afar alvarleg, í rauninni óskaplegt áfall sem hefur þegar leitt til uppsagnar starfsfólks sums staðar og versnandi afkomu heimila, fyrirtækja og viðkomandi sveitarfélaga. Þetta gildir um fyrirtæki og byggðarlög á Norðurlandi, við Húnaflóa og á Vestfjörðum alveg sérstaklega. Tekjubrestur upp á milljarða króna er skelfilegt mál á þessum svæðum. Ætla má að samdráttur í rækjuveiðum upp á 10 þús. tonn þýði lækkun útflutningsverðmæta um 1,5--1,7 milljarða kr.

Þetta mál er líka fróðlegt að skoða í ljósi þeirrar umræðu sem stundum fer fram um meintan ofurgróða útgerðarmanna þegar verið er að auka aflaheimildir. Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að útgerðir með rækjukvóta verða nú að sæta tekjumissi, í sumum tilvikum gríðarlegum tekjumissi sem valdið getur hreinustu búsifjum í rekstri útgerðar og vinnslu og skapað mikla atvinnu- og byggðaóvissu á þeim stöðum sem eru háðastir rækjunni.

Ríkisstjórnin, bæði nú og sú sem sat á fyrra kjörtímabili, hefur sýnt vilja í verki til að koma til móts við þá aðila sem verða sérstaklega illa úti þegar um mikinn tekjusamdrátt er að ræða á einstökum sviðum útgerðar. Löggjöfin gerir sérstaklega ráð fyrir úrræðum til þess að mæta slíkum vanda. Í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða er ákvæði sem heimilar hæstv. sjútvrh. að auðvelda útgerðum sem verða fyrir miklum tekjubresti að komast fram úr vanda sínum. Þetta er ekki gert af neinni tilviljun.

Við þekkjum sveiflurnar í íslenskum sjávarútvegi og vitum af reynslunni að það er skynsamlegt allra hluta vegna, ekki síst af byggðaástæðum, að grípa til úrræða sem þeirra sem kveðið er á um í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða. Eðlilegast væri að mínum dómi að gera það nú með sérstakri ákvörðun á þessu fiskveiðiári, enda er staðan víða orðin svo alvarleg. Þetta á alveg sérstaklega við þar sem senn fer saman minnkun úthafsrækjukvóta og innfjarðarveiði. Ef hins vegar ekki núna þá a.m.k. á næsta fiskveiðiári í tengslum við úthlutun aflaheimilda fyrir það veiðitímabil.

Því hef ég spurt hæstv. sjútvrh. að lokum: Telur hæstv. sjútvrh. ekki eðlilegt að á næsta fiskveiðiári verði heimild í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða nýtt til að halda eftir aflamagni til ráðstöfunar handa þeim útgerðum sem verða fyrir mestum tekjumissi vegna skertra aflaheimilda í rækju, ekki síst vegna þeirra sem í senn verða fyrir skerðingu á aflaheimildum í innfjarðar- og úthafsrækju eins og dæmi eru um, m.a. við Húnaflóa og víðar?