Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:39:31 (3639)

1999-02-16 13:39:31# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:39]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fyrstu fyrirspurnar hv. þm. er það að segja að Hafrannsóknastofnun hefur undanfarin ár unnið að þróun aðferða við stofnmat á úthafsrækju til að styrkja ráðgjöf um þennan mjög svo mikilvæga nytjastofn. Þó svo að rækjan sé ekki mjög langlíf tegund til að mynda samanborið við þorsk eða síld hafa vandamál við aldursgreiningu tegundarinnar hamlað því að unnt hafi verið að nota hefðbundin fiskifræðileg reiknilíkön til mats á ástandi stofnsins. Í staðinn hefur verið notast við gögn úr árlegum stofnmælingaleiðöngrum á rækjumiðum og gögn úr veiðinni til að fylgjast með þróun mála. Ljóst er að töluverðar sveiflur eru í nýliðun í rækju sem kallar á nokkra stýringu í árganganýtingu ef vel á að vera.

Mikilvægast hvað varðar sérstöðu rækjunnar er hins vegar hversu háð hún virðist vera afráni þorsks. Í grófum dráttum hefur þetta verið þekkt um árabil, þ.e. að með minnkandi þorskstofni fylgir vaxandi rækjustofn og öfugt þó svo að umhverfisskilyrði spili hér án efa mjög mikilvægt hlutverk. Við stofnmat á úthafsrækju hefur verið tekið tillit til þess á undanförnum árum og var t.d. gert ráð fyrir að rækjuaflinn mundi nú fara í 30--40 þúsund tonn eða líkt og hann var á árinu 1989--1992. Það sem óvænt var við þróunina upp á síðkastið var hins vegar hve seint aflasamdrátturinn kom fram og hve snögg umskiptin urðu.

Mikil umskipti hafa verið í útbreiðslu þorsks norðanlands sl. tvö ár og enginn vafi á að aukin þorskgengd á svæðinu ræður hér mestu, bæði aukið afrán þorsks á rækju en einnig er hugsanlegt að þorskurinn tvístri rækjunni og minnki veiðanleika hennar. Þá er hugsanlegt að hitastig sjávar norðanlands sl. þrjú ár kunni að hafa haft áhrif á útbreiðslu þorsks og rækju.

Sá lærdómur sem dreginn verður af þessum atburðum á rækjumiðunum er sá að þó svo að sú aðferð sem notuð hafi verið á undanförnum árum hafi gagnast allvel við ráðgjöf á nýtingu rækjustofnsins þegar hann er stöðugur eða í hægum vexti er árangurinn lakari þegar um miklar sveiflur niður á við er að ræða eins og nú. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að byggja ráðgjöfina á sem nýjustum upplýsingum um ástand stofnsins og því bagalegt að árleg ráðgjöf er gefin út í maílok fyrir komandi fiskveiðiár og því nýjustu gögn ekki fyrirliggjandi. Ein leið til að bæta ráðgjöfina er því að leggja fram bráðabirgðatillögur um aflahámark í maílok en bíða með endanlegar tillögur til loka októbermánaðar, þ.e. eftir að fiskveiðiárið er hafið. Á þeim árstíma liggja fyrir niðurstöður árlegra stofnmælinga rækju, í júlí og ágúst, stofnvísitala, nýliðun og hrygningarstofn og stór hluti ársaflans er kominn á land og frekari gögn um afla og sóknareiningu eru því til staðar.

Það skal jafnframt áréttað að Hafrannsóknastofnun mun áfram vinna að endurbótum aðferða við stofnmat á rækjustofninum, m.a. tilraunum við beitingu hefðbundinnar aldursaflaaðferðar sem þó er of snemmt að segja til um hvern árangur ber.

Varðandi aðra fyrirspurnina er það að segja að miðað við aflabrögð að undanförnu er ekki líklegt að aflinn það sem eftir er af fiskveiðiárinu fari mikið yfir 30 þúsund lestir en um þetta er auðvitað ógerlegt að segja fyrir um með nokkurri vissu og það ræðst auðvitað mjög af því hver afli á sóknareiningu verður á komandi mánuðum.

Varðandi þriðja lið fyrirspurnarinnar er það að segja að þegar langtímanýtingaráætlunin var kunngerð og við hófum með markvissum aðgerðum að vernda þorskstofninn til þess að stækka hann, þá var ráð fyrir því gert að langtímanýting í rækjustofninum yrði milli 30 og 40 þúsund lestir þannig að við yrðum að ná þeim mörkum sem gert var ráð fyrir þegar áformin um langtímanýtingu stofnanna voru lögð fram.

Spurningin um það hvort 9. gr. verði beitt á næsta ári er tæpast hægt að svara á þessu stigi málsins. Það verður að gera þegar ráðgjöf liggur fyrir og ákvarðanir verða teknar um heildarafla í einstökum tegundum á vori komanda. Þá er eðlilegt að taka ákvarðanir af því tagi en erfitt er að gera það á þessu stigi málsins.