Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:44:33 (3640)

1999-02-16 13:44:33# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. málshefjanda að upp er komið nokkuð alvarlegt ástand í ýmsum byggðarlögum sem hafa mjög treyst á rækjuvinnslu og rækjuveiðar á undanförnum árum. Mér fannst athyglisvert það sem fram kom í máli hæstv. sjútvrh. að gert er ráð fyrir því að veiðin á yfirstandandi fiskveiðiári nái ekki því aflamarki sem var ákveðið nú á dögunum. Með öðrum orðum hafa menn ákveðið aflamarkið hærra en menn áætla að veiðarnar geti orðið. Þetta þýðir að mínu viti að einu áhrifin af þessari breytingu verða þau að búa til verðmæti á leigukvóta sem voru orðin býsna lítil fyrir vegna offramboðs.

Ég held að það sé laukrétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að það er greinilega þörf á því að auka rannsóknir á rækjustofninum á komandi árum og lýsandi dæmi um það er að það kemur mönnum í opna skjöldu hve veiðarnar á þessu ári eru miklu minni en ráð var fyrir gert.

Ég vil svo í öðru lagi taka undir það og benda á með hv. málshefjanda að þar sem saman fer annars vegar samdráttur í úthafsrækjuveiðum og hins vegar verulegur samdráttur í innfjarðarrækjuveiðum, þá er ástæða til þess að stjórnvöld íhugi að grípa til aðgerða til að draga úr því áfalli sem sá samdráttur er. Þar vísa ég m.a. til Húnaflóa en mörg byggðarlög þar hafa sérhæft sig í rækjuvinnslu og rækjuveiðum og þar er fyllsta ástæða til þess fyrir stjórnvöld að skoða málið nú þegar. Ég hygg að það megi ekki bíða fram á næsta fiskveiðiár að menn geri upp við sig hvað skuli til bragðs taka. Það er augljóst mál að þar sem þorskurinn er hluti af því að skapa vandamálið í Húnaflóanum, þá hlýtur að koma mjög til álita að auka þorskveiðar á því svæði.